16 maí, 2015

Lék við hvurn sinn fingur

"Ég er nú enginn fýlupúki!" sagði afmælisbarnið þegar ég hafði orð á því hve hress og kátur hann var á 100 ára afmælinu sínu og á heimleiðinni valt upp úr mér að vera kynni að fæðingardagurinn gæti hafa misreiknast um 10 ár.
Guðmundur Indriðason bauð sem sagt til veislu á afmælisdaginn, ásamt fjölskyldu sinni í Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Þar hafa þau Jóna nú alið manninn að undanförnu og ekki annað að sjá en vel fari um þau.
Afkomendurnir sungu.
Fyrir utan börnin fjögur, maka og afkomendur var þarna margt fólk sem Laugarás og nágrenni gisti á uppvaxtarárum mínum og gistir enn, sumir auðvitað orðnir talsvert þroskaðri, en báru samt með sér að hafa andað að sér heilnæmu og langlífishvetjandi loftinu í Laugarási.
Það er nú ekki stirt
á milli hjónakornanna
Það var vel veitt og glatt á hjalla á Lundi í gær, kveðskapur fluttur og kveðjur, söngvar sungnir og leikið á hljóðfæri meðan veisluföng voru innbyrt og skálað fyrir afmæliskarlinum.

Börn Jónu og Guðmundar eru:
Grímur, Katrín Gróa, Jón Pétur og Indriði.
Hér í aldursröð frá hægri. 

Fleiri myndir frá afmælishófinu.





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...