09 maí, 2015

Hún bjó hinumegin við ána

Guðný Pálsdóttir, Hveratúni, Jónína Jónsdóttir Lindarbrekku,
Guðný Guðmundsdóttir Laugarási (Helgahúsi),
María Eiríksdóttir Skálholti, Margrét Guðmundsdóttir Iðu.
Ævin lengist eins og við er að búast. Það er bara eðlilegt í því samhengi að fólk af minni kynslóð sé að verða búið að kveðja flesta sem á undan hafa farið. Það er víst gangurinn.
Fyrir nokkru bættist í hóp þessa fólks hún Magga á Iðu á 95 aldursári. Hún er jarðsungin í dag.
Magga á Iðu (Margrét Guðmundsdóttir) fyllti þann hóp fólks hér í neðsta hluta Biskupstungna sem hefur verið fastur punktur í tilveru okkar sem hér fæddumst ólumst upp síðustu síðustu 70 árin eða svo.
Magga og Ingólfur hófu búskap sinn á Iðu um svipað leyti og foreldrar mínir hófu ævistarf sitt í Laugarási og voru á svipuðum aldri, mamma og Magga á Iðu (mér finnst hún aldrei hafa verið kölluð Magga, bara Magga á Iðu) voru jafnaldrar og pabbi einu ári eldri en Ingólfur. Aldrei varð ég var við að skugga bæri á í samskiptum þeirra og ég minnist þess ekki nokkurntíma að eitthvað kæmi þar upp á. Það sama má reyndar segja um flest það fólk sem átti samleið hér í neðri hluta sveitarinnar, frá Spóastöðum niður að Helgastöðum og Eiríksbakka.
Magga og Ingólfur voru búin að búa á Iðu í ein 12 ár þegar brúin á Hvítá varð til þess að breyta ýmsu og auðvelda  samskipti. En þar sem Ingólfur telst vera síðasti ferjumaðurinn á Iðuhamri, hafa þau Magga nú ekki verið í vandræðum með að skjótast í heimsóknir eða á samkomur þegar svo bar undir þó engin væri brúin.

Ég ætla nú ekki að þykjast hafa þekkt Möggu á Iðu neitt sérlega vel. Líklega voru kynnin bara svipuð því sem gerist milli barna og vinafólks foreldra þeirra. Þegar mér verður hugsað til hennar, Ingibjargar á Spóastöðum, Mæju í Skálholti, frú Önnu í Skálholti, Gauju (Laugarási/Helgahúsi), Jónu á Lindarbrekku, Fríðar (í Laugargerði) og Gerðu (kona Gríms læknis), detta mér í hug saumaklúbbar, kvenfélagið, spilakvöld og einhverskonar leikstarfsemi.  Þetta voru konurnar sem, auk mömmu, auðvitað, tilheyrðu umhverfi mínu meðan ég sleit barnsskónum, og ég get ómögulega fundið neitt annað en ágætar minningar af návist þeirra.
Af þeim konum sem hér voru taldar eru þær nú þrjár sem dansa um jarðlífið og megi þær gera það sem lengst. Hinar dansa nú annarsstaðar, í það minnsta í hugum okkar sem kynntumst þeim.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...