26 apríl, 2015

Tveggja kerru barnahús (síðari hluti)

Hér er um að ræða framhald þessa.
Viðskiptavinum verslunarinnar fór fjölgandi og það var brýnt að losa bílastæðin sem allra fyrst. Það eitt var ljóst í mínum huga, að þarna gæti ég ekki bara aftengt kerruna og ekið á braut. Aðrir möguleikar í stöðunni voru:
     - að fara aftur í verslunina þar sem ég hafði keypt húsið og fá að geyma það þar, þar til lausn fyndist. Sú lausn myndi ekki koma húsinu uppeftir fyrr en eftir dúk og disk (í lok máltíðar, sem sagt), fyrir utan auðvitað þá staðreynd að verslunin tilheyrði vandalausum og þar myndi líklega ekki ríkja mikill skilningur á stöðunni.
     - að finna autt svæði í höfustaðnum þar sem ég gæti lagt kerrunni þar til framhaldið fyndist, sem var augljóslega ekki vænlegur kostur þar sem um væri að ræða óþarflega mikla freistingu fyrir óvandaða.
     - að taka áhættuna af því að renna uppeftir í þeirri von að hjólið héngi á. Þessi hugmynd var afleit og kallaði fram ótal grafalvarlegar* sviðsmyndir*.
     - að fá að geyma kerruna á Birkivöllum þar til annað yrði ákveðið, var hugmynd sem fljótt kom upp í hugann. Birkivellir voru skammt frá áðurnefndu bílastæði og því lítil áhætta tekin með því að draga kerruna þangað. Og ég hringdi í Birkivelli, en þar býr fólk sem hefur áður komið við sögu í þessum pistlum, til dæmis hér og hafa reynst haukar í horni, enda nátengdir okkur Kvisthyltingum.
Það svaraði ekki á Birkivöllum.
Það verð ég að segja, að fD hafði farið mjúkum munni um stöðuna og á þeim bænum var ekki um að ræða neinar meiningar um að hið skakka hjól væri mögulega skakkt vegna einhvers sem ég hefði getað gert betur eða með öðrum hætti. Hún tók hinsvegar fullan þátt í að leita lausna og þar sem enginn svaraði:
"Þau eru auðvitað í vinnunni. Hringdu í 482 XXXX".
"Hvernig getur þú munað símanúmerið þar?"
"Nú, ég þarf ekki svo sjaldan að hringja þangað".
"Hvert er númerið aftur?" (ég man aldrei svona símanúmer)
"482XXXX!!" (auðvitað fer ég ekkert að auglýsa umrætt númer hér, enda er það ekki hluti frásagnarinnar út af fyrir sig, þó svo það sé vissulega hluti af lausninni á kerrumálinu).
Ég hringdi og fS svarði:
"T....stofan, fS"
Ég kynnti mig og gerði grein fyrir stöðu mála og lagði fram ósk um að fá að leggja kerrunni á Birkivöllum þar til lausn fyndist.
"Við eigum kerru, geturðu bara ekki notað hana? Ég veit ekki til að við þurfum að nota hana um helgina."
Í sem skemmstu mál dró ský frá sólu og það kviknaði von um að málið gæti fengið farsælan endi. Þetta var auðvitað sólríkur dagur með norðaustan garra, hæð yfir Grænlandi, hita við frostmark og allt það. Það voru, að sjálfsögðu,  óveðursskýin sem fylltu hugann sem gufuðu upp við svo afdráttarlaust tilboð um kerrulán, en ég hafði ekki haft vitneskju um að á Birkivöllum væri yfirleitt til kerra.
Nú virtist ekkert í veginum, utan áhættuakstur frá áðurnefndu bílastæði inn á Birkivelli. Leiðin var ekin í 1. gír og í hliðarspegli gat ég fylgst með hjólinu, sem var augljóslega ekki í því formi sem maður vill að kerruhjól séu. Á Birkivelli komumst við og viti menn: við húsið stóð forláta kerra, jafnvel stærri og veigameiri en sú sem ég bakkaði þarna inn á bílastæðið.

Það sem fylgdi fól ekki sér sér nein álitamál eða vandamál. Við fD fjarlægðum umbúðirnar af væntanlegu barnahúsi og fluttum síðan  innihaldið yfir í Birkivallakerruna, sem við tengdum síðan við Qashqai og ókum heimleiðis.

"Aumingja maðurinn!", varð mér á orði þar sem við sáum framundan, fljótlega eftir að við vorum komin austur fyrir höfuðstaðinn, spýtnabrak í vegkantinum og kerru á hvolfi fyrir aftan jeppling. Annað hjólið var horfið út í móa. Þar stóð umkomulaus maður og virti fyrir sér eyðilegginguna um leið og hann var að hringja eftir hjálp af einhverju tagi. Var þetta kannski afi sem hafði verið að kaupa barnahús? Það var ekki laust við að hrollur færi um mig við þá sviðsmynd* sem þarna var uppi og lýsti því svo vel hvernig staða mín hefði getað verið.

Segir síðan ekki af ferð okkar fyrr en í Kvistholt var komi. Barnahúsefnið borið upp fyrir hús og komi fyrir á pallinum eina, þar sem það bíður dásemda sumarsins þegar þeg tek mig til að fera að setja að saman.  Hvort mér tekst það nokkurntíma verður tíminn að leiða í ljós, en við snögga skoðun á leiðbeiningunum sem fylgja timbrinu, sýnist mér að til þess að haugurinn verði einhverntíma að húsi þurfi ég að hugsa lengi. Finna staðsetningu, ákveða hvernig grundvöllurinn verður lagður, og reyna síðan að raða saman efninu svo úr verði hús.  Það eru spennandi tímar framundan.

Tvennt hef ég lært eða kannski frekar fengið staðfestingu á eftir þetta:
1. Þegar maður á kerru notar maður hana ekki. Þegar maður á ekki kerru þarf maður oft á kerru að halda.
2. Það fylgja því átök að vera afi og mikil ábyrgð.
----------------------------------

* orðin sviðsmynd og grafalvarlegur eru ekki notuð hér nema vegna þess að þau eru dæmi um tískuorð eða tískuhugtök sem hafa verið áberandi í íslenskri umræðu, það fyrrnefnda í kringum eldgos í Holuhrauni og hið síðarnefnda í tengslum við átök á vinnumarkaði þessar vikurnar.  Bæði þessi orð finnst mér dæmi um þá þá eftiröpun sem á sér stað sem hluti af umræðuaðferð landans. Afleiðingar eftiröpunarinnar verða síðan útþynning og merkingarleysi.  Tvö dæmi önnur sem koma upp í hugann í fljótu bragði eru ómöguleiki og heimilin í landinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...