25 apríl, 2015

Tveggja kerru barnahús (fyrri hluti)

Ég átti einusinni kerru. Hún var reyndar ekki til stórræða og reyndist ekki mikið notuð þegar til kom. Þá átti ég Land Rover Discovery og það var ekki hægt að segja að ég liti mjög vel út þar sem ég dró þessa kerru aftan í honum. Hún einhvernveginn lafði í honum þannig að aftasti hluti hennar nam nánast við jörðu. Svo eignaðist ég bíl sem var ekki með dráttarkúlu og kerran stóð bara algerlega ónotuð. Svo gerðist það dag einn um vetur að ég fékk snjóruðningstæki til að létta á heimreiðinni og hlaðinu, að kerran lenti fyrir tönninni og kengbeyglaðist og skekktist. Þar með lauk sögu hennar, utan þess  að nágranni sem hefur áhuga á að gera við dót, falaðist eftir henni þar sem hún stóð skökk og skæld úti í kanti einhverjum árum seinna.

Síðan hef ég ekki átt kerru.

Ég ég á núna bíl með dráttarkúlu.

Nágrannar mínir eiga ágætis kerru.

Ég, og reyndar fD einnig, eigum barnabörn og skógi vaxið og skjólgott land, með alla möguleika á að geta orðið prýðis leiksvæði fyrir ungt fólk.
Sem afi hef ég tilteknar skyldur, sem felast líklega einna helst í því að skapa jákvæða ímynd Kvistholts  í hugum unganna. Jákvæð ímynd verður til vegna þess að eitthvað er skemmtilegt eða áhugavert.

Jæja, hvað um það, það kom bæklingur í póstkassann. Þar var að finna mynd af barnahúsi. Ákvörðun var tekin. Húsið pantað. Nokkru síðar kom tilkynning um að húsið væri komið í verslun í höfuðstað Suðurlands. Það þurfti að ákveða hvernig það yrði sótt.
Það var hringt í nágranna sem á kerru.
Kerrulán reyndist auðsótt mál.
Upp rann dagurinn sem húsið yrði sótt.
Ég fór á Qashqai til að ná í kerruna, í íslensku vorveðri. Það hafði verið frost um nóttina og hitinn var rétt að skríða yfir frostmarkið.
Það var þarna sem hið raunverulega tilefni þessara skrifa gerði vart við sig.
Það reyndist fremur þungt að draga kerruna að dráttarkúlunni. Það var eins og annað kerruhjólið væri stíft. Öll fór þó tengingin eins og til stóð, beislið small á kúluna að rafmagn í sting og þar með ók ég af stað í Kvistholt til að nálgast fD, áður en lagt yrði í hann. Það heyrðist eitthvert undalegt hljóð frá kerrunni, en ég skrifaði það á frostið, og mögulega að eigandanum hefði lásðst að smyrja legur, eða eitthvað slíkt. Skömmu eftir að lagt var af stað hætti þetta hljóð að heyrast og ferðin niðrúr gekk svo sem til stóð.
Í versluninni var gengið frá kaupunum og eftir allanga bið, sem hentar mér afar vel, svo þolinmóður sem ég er, tók afgreiðslumaður á lagernum við afgreiðsluseðli mínum og hóf síðan leitina að húsinu, fann það, innpakkað á palli og náði í framhaldi af því í stórna lyftara, sem hann síðan notaði til að lyfta húsinu (þegar ég segi húsinu á ég auðvitað við niðursniðnu timbrinu sem fer í húsið, þegar og ef mér tekst einhverntíma að setja það saman) upp á kerruna, sem reyndist ekki alveg nógu stór til að húsið kæmist ofan í hana. Úr varð að afgreiðslumaðurinn fann tvær spýtur sem hann lagði þvert á kerruna og tyllti síðan húsinu ofan á. Húsið var ekki fest með öðrum hætti og fD hafði á því orð að það væri miður viturlegt að keyra með þetta svona í Kvistholt. Það taldi hún ekki verða ferð sem endaði vel (ég nota hér ekki beinlínis þau orð sem fD notaði, en þeir sem til þekkja verða bara að gera sér í hugarlund hver þau voru).
Allt klárt og ekið af stað í síðustu búðina áður en haldið yrði uppeftir.
Ég steig út úr Qashqai við búðina og þá fannst mér ég taka eftir að annað kerruhjólið hallaði lítillega inn á við að ofan (eða út að neðan). Þetta skrifaði ég í fyrstu á fjaðrabúnað kerrunnar og sinnti þar með erindum mínum í áðurnefndri verslun. Þegar ég kom síðan að kerrunni aftur sá ég að hitt kerruhjólið var fullkomlega eins og maður býst við að kerruhjól séu. Þegar ég bar hjólin tvö saman sá ég greinilegan mun á hjólunum.  Sannarlega langaði mig ekki til þess (see no evil....) en ég ákvað samt að leggjast á hnén til að athuga hvort eitthvað væri að sjá við hjólið innanvert.  Þar sem mér hafði tekist að koma mér á hnén og kíkja undir kerruna sá ég það sem ég vildi síst af öllu sjá: skekktan hring þar sem öxullinn gekk inn í hjólið og mér varð ljóst á þeirri stundu að þessi kerra myndi ekki flytja húsið í Kvistholt. Mér var jafn ljóst að ég gæti ekki skilið hana eftir með húsinu á, á þeim 4 bílastæðum sem ég hafði lagt í.
Þær aðstæður sem þarna voru uppi buðu upp á grafalvarlega (tískuorð í íslensku þessar vikurnar) sviðsmynd (tískuorð í íslensku frá tímum gossins í Holuhrauni).

Frá framhaldinu verður greint í síðari hluta.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...