Sól felur sig vissulega á bak við skýjafjöld,
en ég veit hún er þarna og það er nóg.
Bleytuslabbinu get ég svo sem bölvað,
en veit að skúrir í apríl boða blómin í maí.
Það er mér alveg ljóst, að svona værðarvæll
er ekki alveg það sem ég þykist standa fyrir,
en líklegast er allt í lagi, svona við og við
að láta eftir sér að búa til þessi hughrif í sjálfum sér.
Þó að orrustur séu nú háðar um völd og fé
bæði í bakherbergjum og háreistum sölum,
er miklvægt að leggja hatur og vanþóknun
til hliðar svona dag og dag, eða stund og stund.
Sannlega fylgir oft annatími hvíldardögum;
verkefnabunki, sem minnkar eiginlega aldrei.
Það má ekki láta það sem framundan skyggja á
það sem er hér og nú, heldur njóta stundarinnar.
Hvernig sem allt veltist þá fer það einhvernveginn
þó maður telji oft að svo verði ekki.
Bak við skýin er alltaf sólarhnötturinn
og bíður þess að skýin vinni sitt þarfa verk.
Birtist síðan í samræmi við spár veðurfræðinga
og baðar regnvotan gróður lífsvekjandi ljósi.
Megi komandi sumar verða þolinmóðum lesendum allt það sem þeir vilja að fylgi þeim árstíma.
Þakkir sendi ég þeim sem litið hafa inn á liðnum vetri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli