20 apríl, 2011

Ég held að nú sé þetta farið að keyra úr hófi

Jæja, þá er hafin söfnun nafna til að fá Bessastaðamanninn til að setja ný fjölmiðlalög í þjóðaratkvæði. Í því samhengi velti ég því fyrir mér, enn á ný, hvort þetta sé nú bara ekki orðið algert bull. 

Auðvitað er mér það ljóst, eins og flestum, að meginástæður allra þessara krafna um að "þjóðin" fái að kveða upp úrskurð sinn, liggja í þeirri staðreynd, að stjórnmálaaflið, sem gekk svo fram af þjóðinni um árið, þolir ekki að meirihluti Alþingis geti sett lög í landinu, eins og hann er kjörinn til. Valdaleysið er farið að valda því að öllum mögulegum meðulum er beitt. Það eru til nægir peningar í þeim ranni til að koma málstaðnum á framfæri og fjölmiðlarnir eru flestir opnir fyrir sensasjón.

Nú eru settar upp vefsíður til stuðnings málum, eða til að mótmæla málum. Síðan hjálpa fjölmiðlarnir, væntanlega ókeypis í frétta- og umræðuþáttum, við að auglýsa nafnasöfnunina, og sakleysingjarnir, algerlega ábyrgðarlausir og illa upplýstir, hlaupa til og skrá nafn sitt án þess að vita í raun um hvað málið snýst.

Ég tók mig til áðan og renndi í gegnum þessi nýju fjölmiðlalög og velti fyrir mér, við hverja greinina á fætur annarri, hve margir þeir væru, af þeim þrjúþúsund og eitthvað sem þegar hafa skrifað undir, sem hefðu lesið það sem þarna stendur, hvað þá skilið það þannig að þeir gætu tekið upplýsta afstöðu. Ég velti einnig fyrir mér hversvegna þeir sem ekki höfðu lesið lögin léðu undirskriftasöfnuninni nafn sitt yfirleitt. Hvað er það eiginlega sem stjórnar hegðun af þessu tagi?  Það er rannsóknarefni.

Mér finnst nóg komið af þessari vitleysu allri saman.

Hvað um það, í einni grein laganna er fjallað um takmörkun á einkaréttindum yfir myndefni. Greinin er hér fyrir neðan. Ég feitletra og lita þann hluta hennar sem mér er mjög þóknanlegur, að því uundanskildu, auðvitað, að þarna virðist allt vera opið: 
    a. Það er heimilt að ákveða í reglugerð - ekki skylt.
    b.Viðburðir sem eru taldir hafa - hver  fær það vald nákvæmlega að telja það?
    c....eða seinkuðum útsendingum - bíddu nú við - ekki vil ég fara að horfa á handboltalandsleikina í SEINKUÐUM útsendingum!

Það er reyndar margt annað í þessari grein sem mér finnst óþarflega opið, en ég hef ekki í hyggju að fara á einhverja vefsíðu til að skrá nafnið mitt í hóp þeirra sem kalla eftir frekari skerðingu á því löggjafarvaldi sem Alþingi er falið.

Takmörkun á einkaréttindum yfir myndefni.
48. gr.
Aðgangur almennings að myndmiðlun frá þýðingarmiklum viðburðum.
    Heimilt er að ákveða í reglugerð að einkarétt fjölmiðlaveitu til myndmiðlunar frá innlendum og erlendum viðburðum sem taldir eru hafa verulega þýðingu í þjóðfélaginu sé einungis heimilt að nýta á þann hátt að meginhluti þjóðarinnar eigi þess kost að fylgjast með viðkomandi viðburðum í beinum eða seinkuðum útsendingum án sérstaks endurgjalds. Í reglugerðinni skal vera tæmandi og nákvæm skrá um þá viðburði sem ákvörðun er ætlað að taka til, og skal ákvörðun um skrána tekin með góðum fyrirvara. Í reglugerð skulu enn fremur vera ákvæði um það hvort hinir tilteknu viðburðir skuli sýndir í heild eða að hluta í beinum útsendingum, eða í heild eða að hluta í seinkuðum útsendingum, ef það telst nauðsynlegt eða hagfellt vegna þarfa almennings, sem og önnur atriði sem nauðsynlegt þykir að kveða á um.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...