22 apríl, 2010

Lítilsháttar sumarljóð - ef svo má segja

Í ströngum skilningi verður ekki annað sagt en þessi morgunn fyrsta sumardags sé fremur kaldranalegur. Þunnar leifar af síðasta snjónum bera vott um það sem var. Birtan frá lampanum gula, sem ferðast um loftin og vorsöngvar á Rás 1, tjá það sem framundan er.

Ef síðustu mánuðir hafa verið vetrarmánuðir, þá var þar bara um að ræða vetur hugans, vetur óumræðilegrar, en vanmáttugrar reiði sem nær ekki að sefast. 
Vetur náttúrunnar hefur verið mildur og kurteis, eins og til að komast hjá því að gera illt verra.

Norðlægir heimskautavindar strjúka um vanga og fjallahringurinn er af lit eimyrjunnar í suðaustri, sem neyðir okkur til þess, í það minnsta, að velta því fyrir okkur hvort við mennirnir séum þess umkomnir að hreykja okkur með þeim hætti sem verið hefur.


Það er talað um fulltrúa fyrir hagsmuni á þjóðþinginu og í skilningsleysi velti ég því fyrir mér hvernig saman geti farið, þegar að kjörborðinu kemur, hagsmunir fulltrúa viðskiptalífsins og hagsmunir fólks sem vart á til hnífs og skeiðar. 
Skilningsleysi mitt er samofið vorkomunni og ég verð að gera ráð fyrir því, að með hlýjum vindum, fuglasöng og gróðursæld sumarsins, nái ég að greiða úr þverstæðum sem hafa leitt þjóðina mína að ystu þolmörkum, kannski vegna þess að fólk hafði ekki í huga hver er fulltrúi hvers.

Allt er  einhvernveginn samofið. Hvað er hvað, og hvur er hvurs, heldur áfram að vefjast fyrir okkur, aumum mönnum, sem erum eins og skógarþröstur á vori, sem þenur brjóst og sperrir stél, í þeirri fullvissu að hann sé eitthvað merkilegur - eitthvað merkilegri en náttúran að öðru leyti.
------------------------
Gleðilegt sumar, lesendur góðir og þakkir fyrir samfylgdina í vetur.

3 ummæli:

  1. Í alheimi samofið allt er vort líf,
    allífsins gleði og sorgblandið kíf,
    prettirnir, svikin og prúðmennskan hlý
    Páll minn og Dröfn, já og sól bak við ský.
    En sannfæring okkar ei samt er fyr' bí
    mað sambitnum jöxlum við höldum á ný
    á vit þess er verður til góðs
    þótt vant' okkur stefnu og *"lóðs".

    *lóðs - úr dönsku: bátur er leiðir til hafnar.

    SvaraEyða
  2. Páll og Dröfn og sól bak við ský - já, töff.

    SvaraEyða
  3. Gleðilegt sumar öll sömul og takk fyrir netveturinn

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...