23 apríl, 2010

Eyðilegging jákvæðrar fréttar

Mér þykir svo sem ekkert sérstaklega uppbyggilegt eða ánægjulegt, hvorki fyrir mig né aðra, að vera að dunda mér við að benda á það sem betur má fara í umhverfi mínu. Ég hugga mig þó við það, að ég er ekki einn um að vera í þessu hlutverki.

Í dag birtist frétt um það á einum vefmiðlinum, að rannsókn doktorsnema í Háskóla Íslands hefði víða vakið mikla athygli, en hér er um að ræða leið til að bæta líkur á að ráða niðurlögum erfiðs krabbameins. Ekkert nema gott um þetta að segja. 
Ég þurfti hinsvegar, áður en ég las fréttina, að ergja mig á fyrirsögninni, sem var og er svona:

Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins




Skoðum þetta nánar með því að búa til svipaða setningu og nota í stað orðsins MEÐHÖNDLUN, annað nafnorð, sem er ekki eins í neinu falli, og þar dettur mér í hug orðið HESTUR.

Hver eftirfarandi setninga væri þá á réttu máli?:

Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hestur skólastjórans. (nf,)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hest skólastjórans.  (þf.)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hesti skólastjórans. (þgf.)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hests skólastjórans.  (ef.)

Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (nf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (þf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (þgf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlunar krabbameins. (ef.)

Það má einnig hugsa sér aðrar setningar þar sem orðið VEGNA kemur við sögu:

Hún kom bara vegna ég.
Hún kom bara vegna mig.
Hún kom bara vegna mér.
Hún kom bara vegna mín.

Ég læt lesendur um að finna út hvað er rétt í þessu máli, en hér finnst mér um að ræða eitt leiðinlegasta fyrirbærið í 'þróun' tungunnar á síðustu árum. 

1 ummæli:

  1. Um meðhöndlun tungunnar margt get ég sagt
    og meira um "þróun" svo ljóta
    Standa þar verður stöðugt á vakt
    en stundum ég gríp helst til fóta.
    Ég skil út í hörgul þrasið í þíns
    það er í stíl við skoðanir míns.
    H.Ág.

    Hirðkveðill yrkir um mál"þróun".

    Míns og Þíns er komið inn í leiki barna í staðinn fyrir minn og þinn (um dúkkur alls konar og jafnvel persónurnar sem eru að leika sér).
    "Míns keyrir bílinn þegar þíns er búinn að moka á hann."
    ***********************************

    En kennurum langar að kom'ess í horf
    og kenna því beygingar sínar
    þær er' oft aldeilis undarlegt torf
    sko ef að sé miðað við þínar
    (og mínar!) - (enn skellir hirðkveðill á skeið).

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...