24 desember, 2009

Þá eru það jólin

Það er auð jörð, frost, en meinlaust veður að öðru leyti á sunnanverðu landinu, en von á stórviðrum á norðvesturhorninu. Þannig er staðan hið ytra þegar jólahátíð gengur í garð. Þó víða um lönd telji fólk, sem á annað borð veltir því fyrir sér hvort þessi þjóð er til eða ekki, að hér gangi málin fyrir sig með miklum hörmungum, þá er staðreyndin sú, að ef við tökum mið af stærstum hluta mannkyns, þá lifum við við allsnægtir. Við njótum við þess að búa í góðum, upphituðum húsum, með ljós í hverju herbergi og nóg að bíta og brenna. Það er engin raunverulega ástæða til þess að við sökkvum okkur ofan í bölmóð og sjálfsvorkunn. Við getum verið reið við einhverja þá sem við teljum að hafi valdið þessu ástandi, en reiði okkar beinist í ýmsar áttir þar til þetta hefur allt verið gert upp samkvæmt þeim reglum sem við, sem þjóð höfum sett okkur.

Ég ætla ekki að þykjast telja, að enginn eigi erfitt á þessu landi á þessum tímum. Auðvitað er það svo. Það áttu líka margir erfitt á þeim uppblásnu tímum sem við lifðum fyrir nokkrum árum. Það munu einnig margir eiga erfitt þegar þetta áfall er liðið hjá. Þannig er nú líf mannsins í fortíð, nútíð og framtíð. Við eigum ekki að þykjast vera í verri stöðu en flestar aðrar þjóðir.

Að setjast við tölvuna sína og fá þar útrás fyrir reiði sína, sem allir geta lesið sem lesa vilja, er að mörgu leyti jákvætt, en líka talsvert varasamt. Fordæming á fólki, gífuryrði, bölv og ragn hefur lítið með gagnlega umræðu að gera. Þetta er tjáningarmáti sem fór fram innra með fólki fyrir daga bloggs og fésbókar, en fær nú að flæða fyrir augu hvers sem lesa vill. Því stórkarlalegri ummæli sem eru viðhöfð, því minna mark er hægt að taka á þeim. Þetta ár hefur verið ár upphrópana, sem má jafnvel líkja við stríðsástand. Skotfærin eru orðin sem sögð eru, eða skrifuð. Sem betur fer eru þau bara orð. Þau gætu verið eitthvað enn verra.

Það er ekki langt í að nýtt og líklega strembið ár gangi í garð. Það eiga eftir að falla mörg vanhugsuð orð og margir eiga eftir að þurfa að neita sér um margt það, sem sjálfsagt hefur þótt. Það eitt vitum við, að áfram líður tíminn án þess að nokkur fái rönd við reist. Það kemur að því, fyrr eða síðar, að upp renni bjartari tíð en sú sem nú er uppi.

Meira verður ekki sagt um þessi mál hér og nú.

Fyrir hönd Kvisthyltinga óska ég öllum lesendum þessarar útrásar- og upplýsingasíðu, gleði og friðar á jólum. Reynið nú að gera sem minnst og njóta þess í stað þess, að vera til með ykkar fólki, hvar sem það nú dvelur.

Mér telst til, að nú séu að ganga í garð önnur jólin frá árinu 1978, sem Kvisthyltingar eyða ekki saman, allir með tölu. Tveir þeir eldri dveljast erlendis með litlu fjölskyldunum sínum, en tveir þeir yngri gista æskuheimilið enn á jólum. Svona er gangur lífsins.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...