23 desember, 2009

Þoddlákur



Allt árið er undirlagt allskyns sérstökum viðburðum, sem hver landshluti, hver fjölskylda eða jafnvel hver einstaklingur framkvæmir eða upplifir með sínum hætti. Það er til dæmis þetta fyrirbæri sem heitir Þorláksmessuskata sem fólk virðist stöðugt vera að missa sig í og sem ég á harla erfitt með að kyngja si svona.
Þannig er, að fD mun hafa langa sögu af aðkomu að skötuneyslu, og þá einvörðungu á þessum eina degi ársins (sennilega vegna þess, að í rauninni er þetta fjarri því að vera eitthvað eftirsóknarvert). Það eru allmörg ár síðan hún og gamli unglingurinn náðu sman með þennan skötuáhuga sinn og síðan það gerðist hefur það verið hlutskipti mitt að taka þátt í dýrkun þessarar undarlegu fisktegundar (ég veit ekki enn, eftir þessa reynslu, hver munurinn er á tindabykkju og skötu og ekki heldur skötuáhugafólkið).
Ég hef fagnað því innra með mér þegar það hefur verið ákveðið að skötusuðan skuli eiga sér stað á heimili þess gamla, frekar en þessu, þar sem ilmurinn (stækjan) hefur verið viðvarandi fram undir áramót.
Mér til ánægju neitaði Hveratúnsmaðurinn að koma í Kvistholt þessu sinni. Böggull fylgdi þó skammrifi: ilmurinn þótti einhverjum ekki með besta móti á hinum staðnum heldur, þegar síðast var soðið þar. Af þeim sökum var stefnt á að sjóða skötufj. utandyra. Flatkökuhellan í Hveratúni fannst og mér var falið að athuga hvort hún virkaði, sem hún og gerði.


Nú, þetta gekk allt eins og að var stefnt og raunar fátt annað um það að segja. Ég og aðrir andskötungar borðuðum saltfisk og dýrindis síld meðan skötufíklar svældu í sig einhverjum ókræsilegasta mat sem um getur. Allir ánægðir.


Til að enginn misskilningur sé um forsendur þess að ég borða ekki skötukvikindið, þá finnst mér rétt að taka það fram, að ég gerði fyrir allmörgum árum, tilraun til að skella þessu í mig, þó ekki væri nema til þess að sanna fyrir mér og þá sérstaklega öðrum, að í mínum huga væri hér hreint ekki um æti að ræða.

Gamli unglingurinn viðurkenndi reyndar fyrir mér, í dag, að honum þætti frekar lítið til um skötu, en setti þetta í sig þar sem það teldist þjóðlegt, sem ég var og er honum algerlega ósammála um. Það er ekkert þjóðlegt við þessa athöfn - eins og ég sé hana. Ég lít á þetta sem einhverja þörf einstaklinga til að vera dálítið karlmannlegir í umhverfi sínu. Ég skil engan veginn hvernig fólk getur t.d. fengið af sér að telja niður í skötuna (bara 3 tímar og 45 mínútur í skötuna!!!). Ég held, að ef þetta er í raum svo óskaplegt lostæti þá eigi að vera hægur vandi að borða þetta á nánast hverjum degi ársins. Hversvegna er það ekki gert?

2 ummæli:

  1. Ég byrjaði nú ekki að borða þetta að alvöru fyrr en fyrir um 3-4 árum síðan. Og mér þykir þetta í alvöru talað nokkuð gott. Og þykir verulega miður að hafa ekki fengið að njóta þess með öðrum sem eru á sama máli. En svo ég setji þetta í samhengi, þá er þetta félagslegs eðlis eins og reyksjúgandi aðilar í þessu þjóðfélagi ættu að kannast við.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...