20 desember, 2009

Tvær sortir (2)

Það kom mér talsvert á óvart, að við það að bæta 'þurrefnunum' í blönduna var hún ekki algerlega þurr, heldur bara nánast. Hún var það meðfærileg enn, að mér tókst að blanda saman við hana súkkulaðibitum í stórum stíl, ásamt muldum hnetum. Þar með var þetta klárt til að skella á plötuna með teskeið og hæfilegu millibili. Eðlilega gerði ég ráð fyrir tilteknu bili á milli kakanna svo þeim gæfist færi á því, við bökunina, að dreifa lítillega úr sér. Þessi aðgerð gekk sérlega vel, eins og við mátti búast. Þegar ég mat það svo að hæfilegur fjöldi af deigkúlum væri kominn á plötuna - eins og sjá má á seinni myndinni frá síðustu færslu - skellti ég plötunni í ofninn, sem ég hafði þá þegar stillt á viðeigandi hitastig. Síðan fylgdist ég náið með því þegar deigkúlutopparnir lækkuðu hratt og dreifðu úr sér. Þessari lækkun lauk ekki fyrr en það var sem ein kaka væri á plötunni og því ljóst, að á næstu plötu yrði ég að stækka svæðið sem hver kaka hefði til útbreiðslu.


Þar kom, ég ég taldi kökurnar (eða kökuna) tilbúnar og tók úr ofninum, skar með hníf á milli þeirra, þar sem ég taldi að samskeytin hefðu verið og leyfði þessu síðan að kólna meðan ég undirbjó næstu plötu til innsetningar - nú með tvöföldu bili á milli deigkúlnanna (svona fer maður að því að læra af reynslunni).
Þó svo kökurnar væru nokkuð óhefðbundnar í útliti, brögðuðust þær með ólíkindum vel. Þvílíkt hnossgæti!


Skammtur nr. 2 í ofninum gaf af sér eðlilegri afurð, en engu síðri á bragðið.
----------------------
Seinni uppskriftin sem varð fyrir valinu bar hið virðulega nafn: Kókostoppar, of var miklu einfaldari í framkvæmd. Enn þurfti á ákvarða hvenær hræriblandan væri 'létt og ljós', en þessu sinni reyndist það talsvert einfaldara.
Þegar þurrefnum hafði verið blandað í, kom í ljós, að blandan var það þunnfljótandi, að ekki virtust líkur á að úr því gætu orðið toppar. Eftir samráð við sérfræðinga, varð úr, að lítilsháttar viðbótarþurrefni var sett í, sem ekki hafði verið getið um í uppskriftinni. Þetta reyndist breyta öllu, og þar með ljóst að hér yrði allt í lagi.


Afraksturinn var náttúrulega ekki amalegur - út úr ofninum komu dýrindis toppar.

Eftir aðgerð þá sem hér um ræðir tel ég mig færan í flestan sjó í þessum efnum, en hef þar að auki sett ákveðið fordæmi fyrir aðra svipaðarar gerðar.

Á aðventunni ákvað ég að baka
eðalkökur.
Útlitið mér ekki þótti saka
ekkert kjökur.
:)


1 ummæli:

  1. glæsilegar kökur hjá þér frændi, og skemmtileg lesning, er enn að jafna mig eftir hláturskastið sem kom í kringum "létt og ljóst" lýsingarnar.

    Gleðileg jól frá Köben

    Guðný Þ.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...