Það ætti þeim að vera orðið ljóst sem lesa þessi skrif mín að einhverju marki, að mér er margt til lista lagt. Það er fátt sem leikur ekki í höndum mér.
Í morgun ákvað ég að það væri kominn tími til að ég bakaði smákökur.
Mig grunar nú að ég hafi einhverntíma komið að slíku hér á árum áður, en hreint ekki síðustu ár, og örugglega aldrei án meiriháttar aðkomu fD.
Hvað ætlarðu að baka?
Tvær sortir.
Hvað tegundir?
Ég finn eitthvað.
Með þetta í huga gúglaði ég smákökuuppskriftir og það vantaði nú ekkert á úrvalið sem birtist. Á endanum flutti ég heim einar sex til sjö líklegar og prentaði út, áður en haldið skyldi í Bjarnabúð til að redda því sem á vantaði. Það gekk allt eins og upp var lagt með - heim komið aftur og ekkert annað framundan en að hefjast handa.
Fram kom, að líklegast hefði ég keypt of mikið af hnetum og súkkulaði, en ég lét mér þær athugasemdir í léttu rúmi liggja; taldi að ég myndi þá bara nota meira en uppskriftin gaf til kynna, með enn betri árangri.
Ekki neita ég því að oft hef ég verið öruggari með sjálfan mig, svona hið innra, en við þær aðstæður sem nú voru uppi. Ákvörðun mín snérist um, að aðgerðina skyldi ég framkvæma upp á eigin spýtur frá A-Ö. fD fór að sinna öðrum málum og eftir stóð ég einn í eldhúsinu og bjóst til að hefjast handa.
Ég hafði heyrt að smjörlíki ætti á láta linast við stofuhita áður en það er sett í hrærivél. Ég valdi því líklega uppskrift og skar síðan viðeigandi stóran bita af smjörlíkinu og setti á borðið, svona áður en lengra yrði haldið.
Hér tók við töluvert langur tími þar sem ég velti fyrir mér hverjar tvær uppskriftanna ég ætti að nota, en það kom að því, að ég skellti mér á eina, sem leit mjög vel út og bar nafnið 'Súkkulaðibitakökur'. Það átti hinsvegar að vera aðeins meira smjörlíki í henni en þeirri sem ég hafði skorið smjörlíkið út frá og því fór ég í ísskápinn og skar hæfilega sneið til viðbótar, sem hafði síðan í för með sér, að ég þurfti að bíða nokkuð enn, áður áður en ég gæti farið að blanda.
Meðan smjórlíkið linaðist í stofuhitanum, vigtaði ég og setti í viðeigandi ílát, það annað sem uppskriftin sagði að notað skyldi í kökurnar. Sumt fór í sér skál, þar sem það skyldi hrært saman við á eftir, en annað beint í hrærivélarskálina.
Þegar stofuhitalinað smjörlíkið var tilbúið setti ég það í hrærivélarskálina með því sem fyrir var. Þetta var sérstök tilfinning, sem fól í sér að mér fannst eins og ég væri að leggaj af stað í ferð, þar sem engin leið var til baka. Þegar maður var kominn af stað, þá varð ekki aftur snúið.
'Komi það sem koma vill'.
Það stóð í uppskriftinni, að það ætti að hræra þar til blandið væri það sem kallað var 'ljóst og létt'. Þetta átti, sem sagt að vera endapunkturinn áður en svokölluðum 'þurrefnum' skyldi bætt út í. Það var við þessar aðstæður sem ég braut lítillega odd af oflæti mínu og spurði fD um merkingu hugtaksins 'ljóst og létt'. Þetta vafðist fyrir mér, ekki síst vegna þess, að í uppskriftinni er talsvert mikill púðursykur sem olli því, að blandan var nokkuð dökk og vandséð hvernig hún ætti að geta orðið ljós.
Ég læri hvenær eitthvað telst vera 'ljóst og létt'
Ég lærði það í dag, að 'ljóst og létt' í einni uppskrift er ekki það sama og 'ljóst og létt' í annarri.
Þetta snýst um tilfinningu. Það var hér sem hæfileikar mínir byrjuðu verulega að njóta sín. Þó svo blandan yrði aldrei ljós og aldrei létt, þá varð hún á ákveðnum tímapunkti ljós og létt - þegar manni fannst að hún hlyti að vera orðin það.
Þegar þetta lá fyrir skellti ég þurrefnunum saman við og leist svo á að það gæti orðið strembin blanda, þar sem það sem fyrir var í hrærivélarskálinni (ljóst og létt) var nokkuð þurrt. Hvað myndi gerast þegar ég bætti meira af þurru saman við?
Það mun ég fjalla um innan skamms.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli