13 desember, 2013

Andvarp tenórsins


Það var spurning hvort ætti að taka til tvo stóla eða þrjá. 
Kórfólkið streymdi að. 
Hann tók þrjá. Það hlyti að fara að rætast úr þessu. 
Þarna kom einn. Þá voru þeir orðnir tveir.
Sópranarnir streymdu inn kirkjugólfið. 
Altarnir streymdu inn kirkjugólfið.
Meira að segja birtist hver bassinn á fætur öðrum. 
En það komu ekki fleiri tenórar
Það voru komnir tíu til  fimmtán sópranar, tíu til fimmtán altar og fimm bassar. 
Tenórarnir urðu bara tveir.
Einn stóllinn var auður.

Jæja, það þýddi ekkert að vorkenna sjálfum sér.
Það var ekki annað í boði en að standa sig.
Hreinsa úr kverkunum, liðka þindina, finna hvernig kjálkarnir mýktust.
Gæta þess samt að láta ekki á neinu bera. 
Tenórar láta ekki á neinu bera.
Þeir þurfa þess ekki því þeir búa yfir hinni einu rödd - röddinni hreinu, sem tónskáldin hafa úthlutað sínum fegurstu línum.

Svo var æft. 

Yfir sópranana tíu til fimmtán risu fögru tenórraddirnar tvær.
Yfir altana tíu til fimmtán flögruðu tenórraddirnar tvær.
Yfir bassana fimm gnæfðu tenórraddirnar tvær.
Þær renndu sér um tónstigann, af leiftrandi léttleika og fyrirhafnarleysi.
Þær hittu fyrir allt sem almættinu er kærast, og það brosti af velþóknun.
Röddina einu skiptir fjöldinn ekki máli. 
Það er fegurðin sem á alltaf síðasta orðið.
Það er léttleikinn, styrkurinn, stöðugleikinn.
Það er tenórinn.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...