10 desember, 2013

Krakkakassar

Ef þú nennir ekki, eða hefur ekki læsi til, þá dugir þér að skrolla niður fyrir línuna hérna fyrir neðan, til að átta þig á hvað ég er að fara með þessu kassatali.

Við erum góð í að búa til kassa utan um börnin okkar. Við tölum okkur niður á hentuga stærð og gerð - einn stóran kassa sem á að rúma öll börnin okkar. Þessi kassi samanstendur af öllum þeim lögum og reglum sem við viljum að gildi um blessaða ungana, allt frá því þau byrja í leikskóla og þar til þau ljúka háskólanámi. Þarna mynda allskyns námskenningar, sem breytast í áranna rás, hryggjarstykkið. Þarna er ákveðið hvernig námið á að fara fram, hvernig framvinda þess á að vera, hvernig aðbúnaður barnanna á að vera, hver réttindi barnanna og foreldra þeirra eru, hvenær börnin hætta að vera börn, hverjar kröfurnar skuli vera til barnanna, og svo framvegis. Þetta er kassi 1.

Inn í þennan stóra kassa setjum við svo fjóra kassa, sem einnig eru hentugir að stærð og gerð þar sem hver um sig á að rúma tiltekið aldursbil, eða skólastig. Þarna inni skal síðan beita öllum því sem kassi 1 ákvarðar að beita skuli  á hverju skólastigi. Þetta er kassi 2

Inni í hverjum þessara fjögurra kassa eru síðan settir misjafnlega margir kassar sem eru einnig taldir vera hentugir að stærð og gerð, en þetta eru einstakir skólar. Í þessum kössum skal það gerast sem ákvarðað er af kössum 1 og 2. Þarna skal hver kassi tileinka sér allt það sem við á, en getur beitt ólíkri útfærslu og skipulagt starf sitt með mismunandi hætti, svo fremi að regluverkinu sem ákvarðað hefur verið með fyrri kössum, sé fylgt.    Þetta er kassi 3

Inni í hverjum þessara kassa eru enn margir kassar sem rúma ákveðin aldursbil, brautir eða deildir og þessir kassar eru einnig, að okkar mati hentugir að stærð og gerð fyrir blessuð börnin. Þarna kemur til regluverk sem sett er af kassa 3, sem sett er á grundvelli og með hliðsjón af því sem kassi 3 segir til um á grundvelli fyrstu tveggja kassanna. Þetta er kassi 4

Inni í þessa kassa, hvern um sig, eru enn settir kassar, mismargir eftir hlutverki hvers, en þarna væru þá komnir kassarnir sem börnin fara endanlega inn í - það sem við getum einnig kallað námsgreinar eða námshópa. Það sem þarna á að fara fram á að byggja að öllu því sem ákvarðað hefur verið af fyrstu fjórum kössunum. Þarna skal það gerast - þarna menntast börnin okkar. Allavega viljum við trúa því. Þetta er kassi 5

Svona lítur þessi kassaleikur út.

KASSI 1:
Þjóðin talar um stóra kassann sinn sem gott menntakerfi sem sendir frá sér "menntaða" einstaklinga í stórum stíl.

KASSI 2:
Þó svo það sem gerist ínni í þessum kassa lúti (eða eigi að lúta) lögmálum kassa 1 virðist talsvert skorta á að samspil þeirra sé eins og gert er ráð fyrir. Þegar allt kemur til alls þá voru þessir fjórir kassar settir í þann stóra, einmitt til að mynda samfellu fyrir börnin á eins ár aldri og uppúr, þegar þau myndu skríða fullmenntuð út úr stóra kassanum.

KASSI 3:
Hér koma til allkyns skólagerðir. Sumar eru reknar af sveitarfélögum, aðrar af ríkinu og enn aðrar eru einkareknar. Allar eiga þær í grunninn að starfa samkvæmt þeim lögum og reglum sem sett hafa verið. Því setur hver skólagerð sér námskrá, sem á að endurspegla þann grundvöll sem lagður hefur verið. Þessar námskrár eiga að lýsa því hvernig viðkomandi skólagerð ætlar að koma nemendum áfram á næsta stig.

KASSI 4:
Hér koma allskonar deildir, bekkir og brautir, sem byggjast til að byrja með á aldri nemenda, en síðar einnig á vali þeirra. Þarna kemur til deilda- eða brautaskipulag, sem, sem fyrr, á að byggja á öllu því regluverki sem ytri kassar hafa sett. Hér er tilgreint hvaða námsgreinar nemendum er ætlað að læra á hverri braut/deild, hver markmiðin skuli vera á grundvelli þeira laga og reglna sem sett hafa verið með ytri kössunum þrem.

KASSI 5:
Hér koma til sögunnar einstaka fagmenn sem hlotið hafa, á einhverjum tíma, þjálfun í ólíkum greinum og hvernig kenna beri þær ungu fólki á menntabraut. Þeir setja fram reglur og áætlanir um einstaka námsáfanga eða námsgreinar; hvað nemendur eiga að kunna við námslok.

_______________________________________________________________________

Sannarlega þarf að hafa lög og reglur, marka stefnuna eins við við teljum hana vera réttasta. Það verður hinsvegar ekki framhjá því litið að lögin, stefnan og markmiðin er eitt, hinn mannlegi þáttur í öllu saman getur svo verið eitthvað allt annað. Í gegnum allt þetta kerfi okkar kemur mannskepnan að, á öllum stigum, með sína drauma og þrár, viðhorf og persónueiginleika. Þarna koma við sögu foreldrarnir, ráðuneytismennirnir, sveitarstjórnendurnir, skólastjórnendurnir og kennararnir, auk nemendanna. Ráðuneytismennirnir horfa á einhverja heildarmynd og reyna að sjá til þess að hún líti eins vel út og kostur er, og í því skyni setja þeir þrýsting á sveitarstjórnarfólk og skólastjórnendur, sem þrýsta síðan niðurfyrir sig  og þar er áfram beitt þrýsingi enn neðar. Foreldranir eru eins misjafnir og þeir eru margir, flestir hafa tiltölulega jákvætt viðhorf til þessa kerfis og reyna að aðstoða, aðrir sjá skólann sem óvin barnanna sinna og leggja sig fram um að krefjast þess sem þeir telja barni sínu vera fyrir bestu þó svo það geti komið barninu fremur illa þegar upp er staðið.

Hver kassi um sig, reynir að verja sig, og gefur ekkert annað út til kassanna sem hann er í, en að hann sé algerlega með þetta, fremstur á sínu sviði, allir ánægðir, allir í bullandi menntagír, hann sé að gera allt rétt. Það er í eðli okkar að verja það sem okkar er. Ekki efa ég það, að á öllum stigum eru margir að gera margt rétt, en ég fullyrði einnig að á öllum stigum eru margir að gera ýmislegt sem hægt er að segja, út frá þeim lögum og reglum sem sett eru, sé rangt.

Við tölum um að menntunarstig þjóðarinnar sé hátt, sem er nú dálítil klisja, sem ekki hafa endilega verið færðar sönnur á. Miðað við hvað er menntunarstigið hátt?

Þegar upp er staðið spyr ég mig hvort þetta menntakerfi okkar sé að senda frá sér afurð sem hægt er að vera stoltur af, svona í alþjóðlegum samanburði.
Ég spyr mig oft, hvort skólakerfið er að gera það sem það segist vera að gera.
Leikskólinn segist sinna málörvun barna af krafti, en er hann að gera það? Getur hann gert það?
Grunnskólinn segist vera að kenna börnum að lesa. Er hann að gera það?  Er hann kannski að kljást við börn sem koma úr leikskóla mállítil vegna örvunarleysis?
Framhaldsskólinn kveðst vera fyrir alla. Er hann það í raun?
Háskólar útskrifa meistara og doktora sem aldrei fyrr. Hefur innihald slíkrar menntunar haldið gildi sínu?

Ég þykist ekki hafa svörin, frekar en fyrri daginn, en það þarf að spyrja.

Á öllum skólastigum starfar úrvalsfólk, miðlungsfólk og fólk sem ætti frekar að sinna öðrum störfum og hentugri, rétt eins og annarsstaðar. Ég tel, að mestu máli skipti í menntun barna og ungs fólks sé það sem gerist innan veggja skólans (kassa 4) og innan veggja skólastofunnar (kassa 5). Hinir kassarnir, hversu fallegir sem þeir kunna að vera, eru til lítils ef þessir tveir kassar klikka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...