18 ágúst, 2012

Að standa með sínu í þraut bæði' og pínu.

Lífið sem við mennirnir (bæði karlar og konur eru menn), lifa, er margslungið, eins og öllum má vera ljóst.  Við erum sagðir vera komnir að endimörkum greindarinnar.
Ég hef áður, í lítillæti mínu eða hroka, lýst þeirri skoðun minni, að greind sé ekki að plaga ríflega helming þessarar þjóðar.  Með því er ég ekki að fullyrða að hún sé neitt sérstaklega að birtast í mér frekar en ýmsum öðrum.

Það þekki ég af sjálfum mér, að þegar ég tek ákvörðun af einhverju tagi, þá stend ég með henni svo lengi sem stætt er, þó svo hún reynist hafa verið einstaklega vanhugsuð. Þetta getur átt við ótal atriði, smá og stór:

Ég hef keypt mér sokka, sem síðan reyndust detta í göt eftir eina eða tvær íverur. Ég henti þeim þegjandi og hljóðalaust, en viðurkenndi ekki að ég hefði átt að kaupa vandaðri sokka.
Ég hef keypt mér skyrtur sem síðan reyndust ekki hæfa vaxtarlagi mínu, í stað þess að viðurkenna að ég hefði betur athugað hvort þær væru aðsniðnar, og velt kaupunum betur fyrir mér að öðru leyti, hef ég þagað tilveru þeirra, þar sem þær hanga í fataskápnum, í hel.
Ég hef farið í bíó, í leikhús eða á tónleika, sem reyndust hreint ekki standa undir væntingum, en fjandinn fjarri mér að ég hafi farið að viðurkenna, að sýningin/tónleikarnir hafi veið hundléleg.
Ég hef keypt mér utanlandsferð sem var hálf glötuð, hún var samt frábær í frásögninni, og ég hélt áfram trúnaði við ferðskrifstofuna.
Ég hef stutt menn og málefni sem hafa reynst vera lítið annað en yfirborðið. Jafnvel þó þeir hafi skaðað hagsmuni mína hef ég staðið með þeim til að þurfa ekki að viðurkenna að ég hafi haft rangt fyrir mér.
Ég hef úthúðað manneskju, sem síðan reyndist gull af manni, það hefur litlu breytt í afstöðu minni, því ég hef alltaf getað fundið einhverja galla á henni.

Ég hef, eins og við flest, tekið ákvarðanir af ýmsu tagi, sem hafa reynst rangar, og ekki fengið af mér að viðurkenna að væru rangar. Þess í stað hef ég staðið með þeim, en kosið að fara hljótt með stuðninginn eftir að ljóst varð hver raunin var.

Fyrir fleiri árum en ég kýs að nefna ákvað ég að kjósa tiltekið forsetaefni..........

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...