08 ágúst, 2012

Ekkert dass, sko - bara meðfædd snilldin.

Í tilefni dagsins, sem fD fagnar með sjálfri sér og öðrum heimilismönnum, eftir því sem þurfa þykir, er ég viss um, ákvað ég með sjálfum mér að henda í eins og eina brúna. Inni á þessum vef fann ég viðeigandi uppskrift, en þá kom í ljós, að ekki var allt sem þar var gert ráð fyrir til á bænum. Hjá mér er ekkert til sem heitir "næst best" og því hófst baksturshrinan á verslunarferð í Bjarnabúð.
Þegar heim var komið allt gert klárt með aðstoð ungfrú Júlíu. Fyrst fóru þessi venjulegu efni í hrærivélarskálina þar sem þau voru hrærð þar til nát var takmarkinu sem kallast "létt og ljóst" og sem hefur áður borið á góma í skrifum hér. Meðan hrærivélin vann sitt verk var svokölluðum þurrefnum blandað saman af fagmennsku, nema ef til vill að því leyti, að á tímabili voru áhöld um hvort gert væri ráð fyrir hveiti í uppskriftinni og það kostaði uppflettingu á vefnum til að komast að því að svo væri.

Þurrefnin voru síðan sigtuð út í hið létta og ljósa og öllu hrært vandlega saman, áður en ægifögru deiginu var hellt í mótið, sem síðan hvarf inn í fagnandi ofninn, fumlausum höndum.

Þegar leið að lokun tilskilins bökunartíma hóf ég vinnu við kremgerðina og leyfði mér, sem ég gerði ekki að öðru leyti, að víkja frá skrifaðri uppkriftinni, með því að bæta við "dassi" af sýrópi.

Það þarf í rauninni ekkert að fjalla um þennan kökubakstur: hann gerði ekkert nema sanna enn einu sinni, að þessi tegund starfsemi, svo sem raunar margar aðrar, leika í höndum mér.

Kakan reyndist ein sú besta sem bragðlaukarnir hafa fengið að kynnast, að sjálfsögðu, en hér eru myndir af dýrðinni.

Það er hægt að segja langa sögu af því þegar fD uppgötvaði, að "kaffistellið"
sem við fengum í gjöf  á þeim degi sem brúðkaup okkar var gjört á sínum tíma,
var nákvæmlega eins og það sem birtist okkur í frægum sjónvarpsþáttum
Ómars Ragnarssonar, þar sem hann tók Gísla á Uppsölum tali.
Það var fyrir handvömm mína að diskurinn lenti á þessari mynd.
Ég bara gleymdi.
Vonandi varpar diskurinn ljóma, fremur en einhverju öðru , á glæsilega
framborna tertusneiðina.


6 ummæli:

  1. Svona líta aðeins bragðgóðar kökur út; þær sem kalla til manns: "fáðu þér aðra sneið, fáðu þér aðra - og meiri rjóma, meiri rjóma með"

    Leikur allt í loppum hans
    líka bakstur kakna;
    í bragðskyninu er blíður sans
    og bragðlaukarnir vakna.

    Sárt er að sakna ;)


    Hirðkveðill skilar af sér harmljóði yfir að fá ekki að bragða kökuna.

    SvaraEyða
  2. Já, fH, ég skil vel að hugur þinn hafi kallað fram harmljlóðið. Það er þrungið einhverri óskýranlegri kaknaþrá.

    SvaraEyða
  3. Er hægt ad leggja fram pöntun á svona köku næst thégar ég læt sjá mig í Kvistholti? :o)

    SvaraEyða
  4. Ég er nú hræddur um það Ása - meira að segja á stellinu hans Gísla.

    SvaraEyða
  5. Mér líst vel á thad :o)

    SvaraEyða
  6. Þetta lítur alveg frábærlega vel út hjá þér Páll, efast ekki um að hún hafi bragðast dásamlega. Getur lagt þetta fyrir þig þegar þú sest í "helgan stein" sem styttist í :)
    Bestu kveðjur úr borginni.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...