29 október, 2016

Dagurinn í dag

Þar sem ég er búinn að segja allt sem ég ætla að segja um þessar kosningar til Alþingis ætla ég bara að taka eitthvað annað fyrir.

Flest það sem mér dettur í hug á þessum þungbúna degi, eftir að hafa farið í hraustlega kraftgöngu klukkan 11, undir regnhlíf sem varla dugði til að koma í veg fyrir að ég yrði holdvotur og eftir að hafa komið til baka, stoltur yfir því að hafa gengið þrjá og hálfan kílómetra, stoltur yfir því að geta bara yfirleitt verið stoltur yfir einhverju, er fremur þunglamalegt. Ég ætla þó að freista þess að dæla þeim þyngslum ekki yfir annað fólk; fólk sem í sakleysi sínu hrasar inn á þessi skrif.
Þó þetta sé dagur sem kann að ráða úrslitum um hvernig lífi okkar næstu árin verður háttað og fátt jákvætt virðist þar vera í kortunum, þá er þetta einnig dagur fyrir ofurlítið ljóð.

Þetta er dagurinn í dag.


Dagurinn, þar sem einmana músarrindillinn hoppar og skoppar, rennblautur milli trjágreinanna og hefur ekki vit á að koma sér í skjól, ekki frekar en of stór hluti okkar hefur ekki vit á að kjósa rétt.

Dagurinn, þegar hálfaumkunarverðir túristar á bílaleigubíl stoppa við götukortið af Laugarási og botna hvorki upp né niður í því áður en þeir halda áfram inn í rigningun, svona eins og kjósendur sem nenna ekki að velta neinu fyrir sér.

Dagurinn, þegar ekki var slegið met í fjölda fólks í heilsubótargöngunni, svona eins og........já.

Dagurinn, þegar rennurnar á húsinu höfðu ekki undan að flytja regnvatnið alla leið niður í skurð, rétt eins og heilinn í okkur ræður ekki við að meðtaka allt áreitið sem hann verður fyrir, hvort sem hann vill eða ekki.

Dagurinn, þegar Laugarásbúar kíkja út úr skógarþykkninu til að kjósa yfir sig nýtt þing til næstu fjögurra ára. Það er eins gott að þeir kjósi nú rétt.

Dagurinn, þegar ég þurfti að velta fyrir mér stöðu fjölskyldna og skóla og vorkenndi bæði fjölskyldunum og skólunum.

Dagurinn, þegar álftirnar á Hvítá, einnig þessi vængbrotna, höfðu fært sig um set.

Dagurinn, þegar kjósendur þurfa að réttlæta atkvæðið sitt opinberlega á samfélagsmiðlum.

Dagurinn, þegar ég stillti sprittkertu upp á bakvið bing af hreindýramosa áður en ég tók mynd af herlegheitunum.

Dagurinn, þegar ég velti fyrir mér hvar best er að setja krossinn þannig að líkurnar á því að eitthvað jákvætt komi út úr því aukist.

Dagurinn, þegar mig langar dálítið í heitt kakó og rjómapönnukökur.

Dagurinn, þegar regninu slotar, droparnir úr yfirfullum rennunum þagna og fyrirheit eru gefin um að framtíðin verðir björt.

Þetta er svona dagur.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...