23 október, 2016

Hvar setur maður krossinn? (2)

Hér er framhaldið leiðbeiningum mínum til lesenda, eftir allmargar áskoranir, um það hvar þeir ættu að setja krossinn sinn á kjördag, þann 29. október.  Í fyrri hluta leiðbeininganna renndi ég mér yfir fimm þeirra flokka sem bjóða fram á landsvísu. Það þýðir að ég á eftir að afgreiða fjóra sem þannig háttar um og síðan eina þrjá, sem bjóða ekki fram allsstaðar.
Ég tek eftirfarandi fram aftur, svo enginn verði misskilningurinn: 
Við vinnsluna hef ég ekki aðrar heimildir en annað eyrað, sem ég hef notað til að hlusta á stjórnmálaumræður, og annað augað sem ég hef notað til að renna yfir helstu fyrirsagnir fjölmiðla (utan eins sem ég hef ekki augum litið nema í fjarska síðan árið 2009). Við ofangreindar heimildir bæti ég síðan skvettu (dassi) af eigin reynslu og hyggjuviti. 
Þá er bara að vinda sér í þetta:

P-listi: Píratar

Þú kýst Pírata ef:
- þú vilt grundvallarbreytingar á samfélaginu.
- þú veist fátt verra en fjórflokkinn.
- þú ert tölvunörd
- þú vilt nýja stjórnarskrá.
- þú er fyrrverandi stærðfræðikennari við framhaldsskóla í uppsveitunum.
- þú vilt flokk sem er hvorki hægra megin né vinstra megin, en ert ekki viss.....
- þér finnst geðveikt kúl að kjósa flokk með útlenskt nafn.
- þú "notar" en hefur samt rænu á að mæta á kjörstað.
- þú kýst alltaf flokka sem fá mikið fylgi í skoðanakönnunum.
- þú ert áhættufíkill.
- þú ert búin(n) að fá upp í kok af þessu ógeðslega samfélagi.
- þú er áhugmanneskja um að kjósa oft um flest.
- karlþingmaður flokksins hefur alveg náð þér (meira að segja þó hann sé ekki í framboði).
- þú er fyrir dálítið kaótíska aðferð við að taka ákvarðanir.
- þig langar að segja fokk við fjórflokkinn.
- þú ert tölvulistaspíra.
- þú starfar hjá tölvuleikjafyrirtæki.
- gegnsæi er lykilorðið í þínum huga.

S-listi: Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands

Þú kýst Samfylkinguna ef: 
- þú talar um flokkinn sem Samfylkinguna en ekki Samfó.
- þú ert jafnaðarmanneskja af gamla skólanum.
- þú studdir Alþýðuflokkinn í denn.
- þú vorkennir forystufólki í Samfylkingunni vegna þess hve illa flokkurinn kemur út í skoðanakönnunum.
- þú ert hlynntur aðildarumsókn að ESB.
- þú ert krati og stolt(ur) af því.
- þér líkar jarðbundinn og látlaus stíll formannsins.
- þú skilur ekki hversvegna flokkurinn er talinn vera hluti fjórflokksins.
- þú getur ekki fyrirgefið Bjartri framtíð að hafa hlaupist undan merkjum.
- þér finnst skemmtileg áskorun að skilja málefnin sem flokkurinn berst fyrir.
- þú ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en ruglast. Er Flokkurinn ekki örugglega með S?

T-listi: Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði

Þú kýst Dögun ef:
- þig langar að segja "fokk" við fjórflokkinn.
- þú manst ekki hvort þú ætlaðir að kjósa þennan flokk eða Flokk fólksins og setur bara krossinn hér.
- þú ímyndar þér að þessi flokkur muni komast í aðstöðu til að gera eitthvað, annars er þér bara alveg sama.
- þú vilt refsa öllum flokkum á Alþingi nema Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
- þú telur Ingu Sæland vera í þessum flokki. Þér finnst hún svo frábær.
- þú vilt senda fjórflokknum skýr skilaboð um óánægju þína.
- þú ert ofurhörð baráttumanneskja fyrir bættum kjörum þeirra sem minnst mega sín.
- þér finnst að flokkurinn berjist fyrir öllu sem bæta mun hag þjóðarinnar.
- þú vilt ekki skila auðu og ekki gera ógilt.
- þú ert þessi nörd sem gaumgæfir stefnur allra flokka og finnur hjá þessum flokki nákvæmlega það sem þú vilt sjá gerast í samfélaginu.
- þú horfir á Friends í endursýningu.
- þú varst á Austurvelli veturinn 2008-9.
- þú setur krossinn bara hipsum hapsum og hann lendir á þessum flokki.
- þú ert kjósandinn sem styður minnimáttar.

V-listi: Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Þú styður Vinstrihreyfinguna - grænt framboð ef:
- þú ert femínisti
- þú ert öfgafemínisti, en samt ekki ein(n) af þeim sem hættu í Sjálfstæðisflokknum. Það væri of rosalegt.
- þú skilgreinir þig sem sósíalista.
- þú studdir Alþýðubandalagið í denn.
- þú ert heilluð/heillaður af formanninum.
- þú ert pólitísk(ur).
- þú hefur einstrengingslegar skoðanir á flestum málum.
- þú ert vinstrivinstrikrati.
- þú ert á móti aðild að ESB.
- þú ert listaspíra.
- þú trúir því að það þurfi að hafa hugsjónir í pólitík.
- þú þolir hreint ekki spillingu og baktjaldamakk.
- þú ert baráttumanneskja fyrir náttúruvernd.
- þú vilt "eitthvað annað" en stóriðju til að efla atvinnulíf.
- þú ert sérstök baráttumanneskja gegn kúgun auðvaldsins.

Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmum norður og suður:

R-listi: Alþýðufylkingin

Þú kýst Alþýðufylkinguna ef:
- þér finnst VG ekki vera nægilega vinstrisinnaður.
- þú varst félagi í Fylkingunni í den, og vilt bara vera þar ennþá.
- þú telur svona flokk eiga erindi við nútímafólk með síma.
- þú vilt gefa skít í fjórflokkinn, sama hvað.
- þú ert dálítill byltingarsinni í þér.
- þú varst hrifin(n) af liði Fljótsdalshéraðs í Útsvari í fyrra.
- þú þekkir ekki muninn á þessum flokki og Þjóðfylkingunni. Skellir krossinum bara hér.


Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi:

E-listi: Íslenska þjóðfylkingin

Þú kýst Íslensku þjóðfylkinguna ef:
- þú ert á "E"
- formaðurinn hefur ekki verið rekinn úr flokknum.
- þú ert rasisti í þeim skilningi sem lagður er í það orð á samfélagsmiðlum.
- þú vilt loka landamærum.
- þú hefur andúð á múslimum.
- þú ert á móti mosku.
- þú varst einu sinni Hægri græn(n), en þurftir að samþykkja að aðhyllast skoðanir Þjóðfylkingarinnar til að lifa af.
- þú hlustar á útvarp Sögu allan daginn.....alla daga.
- þú varst einusinni í Fylkingunni og fyrir þér er fylking bara fylking.
- þú uppfyllir ofangreind skilyrði og ert á kjörská í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi og setur krossinn ekki óvart á Alþýðufylkinguna.

Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Reykjavíkurkjördæmi suður:

H-listi: Húmanistaflokkurinn

Þú kýst Húmanistaflokkinn ef þú ert á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður og ef:
- þú telur þig vera meiri húmanista en annað fólk.
- þér finnst mikilvægt að flækja málin.
- þér finnst mikilvægt að hafa langan aðdraganda að inntaki stefnu flokksins.
- þú vilt að fjölmiðlun virki eins og um 1960.
- þér finnst formaðurinn ljúfur og staðfastur karl.

------------------------------------------------------------
Þá er komið að niðurstöðunni.
Nú er ég búinn að taka fyrir öll framboð til Alþingis í komandi kosningum. Nálgun mín af verkefninu felst að stórum hluta með því að skella einhverjum merkimiðum á framboðin, sem taka mið af tvennu:
- einhverjum þeirra stefnumála sem ég hef séð fljóta framhjá þar sem ég hef hlustað með öðru eyranu og horft með öðru auganu.
- alhæfingum, sem byggja að stærstum hluta á myndum (misskýrum) sem koma í hugann þegar ég leiði hugann að viðkomandi framboði.
Þetta er ein leiðin til að velja sér fulltrúa á Alþingi.

Það eru til fleiri leiðir.
Ég finn sjálfur engan flokk sem hefur allt það sem mér finnst að minn flokkur þurfi að hafa. Ég ætla samt að kjósa, að sjálfsögðu, því ef ég hefði ekki rétt til að taka þátt í að kjósa til Alþingis eða sveitarstjórnar, hver væri staða mín þá?
Svona set ég dæmið upp:
1. Hverjar eru lífsskoðanir mínar? Hvernig samfélag vil ég?  Hver er ég? Ég byrja á að svara þessum spurningum. Þetta eru engar smá spurningar.
2. Búinn að svara spurningunum. Þá spyr ég: Hverjum þessara flokka sem bjóða fram TREYSTI ég best (reynslan) til að vinna að óskum mínum?  Það getur vel verið að þá komi ekki nema einn flokkur til greina, en þeir geta einnig orði einir fjórir eða fimm. hvað geri ég þá?
3. Hver þessara flokka er líklegur til að koma manni á þing? Það er nú heldur lítið gagn í því að kjósa einhvern flokk sem mun ekki eiga fulltrúa á Alþingi eftir kosningar, er það? þarna get ég verið búinn að þrengja valkostina talsvert mikið.
4. Nú er komið að lokaatrennunni og það gerist með því að bera saman valkostina sem eftir standa.  Þar kann eitthvað að koma fram sem hljómar betur en annað og leysir þannig málið.
5. Ef enn er vandi með valið, þá er bara að bíð þar til í kjörklefanum. 

Ég hef eiginlega bar eitt megin ráð til kjósenda: "Ekki kjósa bara "af því bara". Það er ábyrgðarleysi. Þú ættir að reyna að sjá fyrir þér hvernig samfélag þú vilt og kjósa að því búnu. Þá hefur þú kosið rétt.
________________________


Svona rétt í lokin, til að bjarga mannorðinu, ef það er þá til staðar.  
Ef einhver ykkar hafa ekki húmor fyrir kosningaleiðbeiningum mínum í þessum skrifum, þá bið ég þá að láta bara vera að kíkja á bloggskrif mín yfirleitt og leita fanga frekar þar sem þeim líður betur með málflutninginn. 
Megum við öll kjósa rétt.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...