Þar kom að því, og þó ekki, að ég finn mig hafa harla fátt fram að færa á þessum stað. Auðvitað á ég ekki við það að ég hafi ekkert að segja, fjarri því. Ég gæti fjallað í löngu máli um t.d. krepputengd mál, skólamál, uppeldismál, söngmál og útgáfumál. Það sem þessi mál eiga helst sameiginlegt í mínum huga er, að það er auðvelt að finna á þeim fremur neikvæðar hliðar. Það er nefnilega svo, að ef maður vill vera neikvæður þá er af nógu að taka. Það vita allir. Ég nenni bara ekki að ganga þá göngu um þessar mundir. Á göngunni þeirri er nóg af mannskap sem hægt er að vera sammála eða ósammála. Það sem þeir allir eiga sameiginlegt er, að þeir eru fulltrúar einhvers hagsmunahóps eða stefnu og þessvegna ekkert að marka þá, nema maður sé sammála og jafnvel ekki þá heldur.
Það er flóknara að sýna á sér jákvæðu hliðina þó vissulega sé þar af ýmsu að taka. Þar má t.d. nefna: krepputengd mál, skólamál, uppeldismál, söngmál og útgáfumál.
----------------------
Á þessum sólríka og milda laugardegi er verið að hamast við að ná sér eftir sérlega strembna vinnuviku og undirbúa sig með þeim hætti undir aðra svipaða sem hefst frá og með mánudagsmorgni. Þar sem ég hef það að markmiði að fjalla ekki um vinnuna hér, þá segi ég ekki orð um hana frekar .
Laugardagurinn þessi kallar ekki á neinar sérstakar athafnir, utan það sem er orðið hefðbundið á þessum bæ. Þar á milli er ekkert annað að gera en sem allra minnst og gera ráð fyrir að það dugi.
Það er á svona degi sem auðveldara er að komast að þeirri niðurstöðu, að það geti verið skynsamlegt að skella sér í göngutúr.
Laugardagurinn hefur það umfram marga daga, að daginn eftir er líka frí frá önnum hversdagsins.
Laugardagurinn felur í sér loforð um ákveðið frelsi til að gera eitthvað eða ekkert.
Laugardagurinn felur í sér flest það sem rétt er að ætlast til af einum degi.
Laugardagurinn er vel þolandi í yfirlætisleysi sínu og skorti á tilætlunarsemi.
Laugardagurinn er dagurinn, þessa vikuna, í það minnsta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli