31 október, 2009

Myndir og messa

Það þykir við hæfi að efna til fagnaðar til að rifja upp skemmtilegheit sem fólk hefur upplifað eða afrekað í sameiningu. Þessar samkomur kallast líklega oftast myndakvöld. Í fullkomnum heimi myndu þeir sem þátt tóku í hinu eftirminnilega afreki tína saman nokkrar bestu myndirnar sínar, af þeim hundruðum sem teknar voru, og senda á einn stað, þar sem samræmingaraðili tæki við þeim og setti saman í skemmtilega, hóflega langa sýningu, sem næði að fanga allt það helsta sem fyrir bar. Síðan fælist sýningin í því, að rennt væri í rólegheitum gegnum sýninguna og tökumönnum hverrar myndar fyrir sig gæfist færi á að tjá sig með hnyttnum hætti um tilurð sinna mynda.


Það var myndakvöld í gærkvöld til að rifja upp för fyrrverandi félaga í Skálholtskórnum til Berlínar í byrjun júní s.l. Hér er lítil upptaka frá þeirri för.
Ég segi ekkert um það hvort fyrirkomulag myndasýningar var með þeim hætti sem að ofan er lýst, en við eigum hinsvegar að vera farin að átta okkur á því, eftir niðurbrot samfélagsins að undanförnu, að heimurinn er ekki fullkominn og verður það ekki svo lengi sem mannkynið ræður einhverju á þessari jörð.
Hvernig svo sem myndasýningunum var háttað, var samkoman afskaplega skemmtileg; hófst með kóræfingu þar sem æfðir voru sálmar og katólsk messusvör. Ástæða þessa er sú að á morgun (sunnudag) hyggjast félagar úr þessum fyrrverandi kór, leggja land undir fót og syngja við messu í Kristskirkju í Landakoti. Hér er um að ræða loforð sem var gefið í tengslum við undirbúning Berlínarferðarinnar.


Æfingin reyndist hefjast allnokkru seinna en til stóð. Seinkunartímann nýtti kórfólkið til athafna sem fH hefur síðan kallað 'að laumast í músakornið'. Af þeim sökum eða öðrum, gekk æfingin einstaklega vel og var talin nægur undirbúningur fyrir biskupamessuna. Kórfólkið kann allflest hin katólsku messusvör frá því það tók þátt í katólskri messu á Skálholtshátíð og söng síðan nokkrar messur í Ítalíuför sinni skömmu síðar.

Ótrúlegu samsafni af ýmsu matarkyns, voru gerð skil á meðan áðurnefnd myndasýning hófst.
Að henni lokinni og meðan á henni stóð, hóf hljómsveit leik sem stóð síðan fram eftir.

Allt þetta gerðist í sérlega skemmtilegum húsakynnum Gistiheimilisins á Geysi.




1 ummæli:

  1. Mér dettur í hug málshátturinn: lengi lifir í gömlum glæðum :) Og það er vissulega ekki meint á neinn neikvæðan hátt.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...