27 október, 2009

Skór og hamborgarar

Það sem tilgreint er í fyrirsögninni, er auðvitað bara einhvers konar tilvísun í það Ísland sem var og er og verður væntanlega áfram, nema eitthvað nýtt komi til.

Það getur vel verið að minnið bregðist mér, en hér á landi voru eitt sinn framleiddir skór, á Akureyri nánar tiltekið, í skóverksmiðjunni Iðunni. Þetta voru sjálfsagt ágætis skór; Iðunnarskór. Þar kom að skósalan dróst mikið saman og stefndi í óefni. Þá brá verksmiðjan á það ráð að skella nýju nafni á skóna. Nú hétu þeir Puffins. Það var eins og við manninn mælt, salan rauk upp. Svo héld ég að merkið hafi verið selt til útlanda, eða eitthvað þvíumlíkt. - líklega vegna þess að framleiðslukostnaður var of mikill hérlendis. Hverjum dettur eiginlega í huga að framleiða skó á Íslandi? Það er hægt að fá miklu ódýrari skó frá útlöndum.

1993 skelltu íslenskir athafnamenn sér í samstarf við stærstu hamborgarakeðju heims. Það var eins og við manninn mælt, landsmenn þyrptust að til að njóta þess að borða hamborgara með útlendu nafni. Ég verð að viðurkenna, að ég fór tvisvar þarna (ekki að eigin frumkvæði, reyndar) í því skyni að setja í mig þessa víðfrægu framleiðsluvöru. Fannst lítið til koma.
Nánast allir staðir sem selja hamborgara og flatbökur á þessu landi gera það í krafti einhvers erlends vörumerkis. Þeir eru þó til sem reyna við íslensk nöfn og ég veit ekki annað en einhverjir þeirra hafi af þessu þokkalegt lifibrauð.
Ég er nú svo mikið barn, að ég hélt að kjötið í þessum heimsfrægu borgurum kæmi frá íslenskum bændum (bara blandað með dónöldskum aðferðum) - annað fregnaði ég í gær, þar sem rætt var við eigandann sem er nú að loka búllunni. Hann kemur nú fram eins og drifhvít mjöll og talar um að nú muni íslenskir bændur fá mikil viðskipti frá honum.

Ég verð eiginlega að viðurkenna, í sambandi við þessi dæmi sem ég tek hér fyrir ofan og síðan ýmislegt það annað sem ég hef verið að fást við bæði hér og á öðrum vettvangi, að ég er að breytast ei nokkurs konar allsherjar mótmælanda.

Efst í huga ávallt er mér
allt sem styður lands vors fjós.
Nokkurskonar Helgi Hós.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...