13 nóvember, 2010

Jólamaturinn - prósaljóð


Ég er bara að njóta dagsins með félögum mínum.
Lenti í því morgun að verða vitni að því þegar frændi minn var skotinn.
Ég held að ég hafi ekki vit til þess að vera að velta mér mikið upp úr því.
Það voru einhverjir menn að þvælast þarna uppi á Laugarvatnsfjalli, klæddir í felubúninga, væntalega til að við sæjum þá ekki.
Auðvitað reyndum við að komast í burt þegar þeir nálguðust okkur.
Það er nú bara í eðli okkar.
Við erum nefnilega ekki eins og frændfólk okkar, sem maðurinn geymir í búrum og notar eins og hverja aðra þræla.
Við erum frjáls, en mennina langar samt að ná okkur og nota.
Þeir virðast vera svolítið skrýtnir.
Þegar við fundum skotin þjóta framhjá okkur hvað eftir annað í morgun, ákváðum við bara að fara eitthvað annað.
Við vorum þarna eitthvað um 30 saman í hóp og ætli við höfum ekki verið svona 14 sem flugum af stað í austurátt, hin lágu alblóðug á jörðinni - sum ennþá með lífsmarki.

Þegar við vorum búin að  fljúga í svona 10 mínútur sáum við trjálund.
Þarna var einnig hús, ljóst á litinn með brúnu þaki.
Við renndum okkur þar niður því við sáum enga byssumenn neins staðar í nágrenninu.
Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir rétt við húsið kom reyndar bíll akandi.
Ég ákvað að vera ekkert að fljúga strax af stað, svona til að sjá hvað gerðist.
Þegar bíllinn hægði á sér, í staðinn fyrir að reyna að keyra á mig, vissi ég að þetta yrði allt í lagi.
Það fór fólk úr bílnum og inn í húsið.
Skömmu síðar kom maðurinn út aftur, með eitthvað dökkt í höndinni.
Ég sá strax að þetta var ekki byssa.
Þetta var bara myndavél.
Mér sýndist að það stæði EOS550 framan á henni.
Þetta var í lagi.
Ég ákvað að stilla mér fallega upp hjá nýju sorptunnuskýlinu.
Ég heyrði smelli, aftur og aftur.
Þetta voru góðir smellir.
Ég stóð kyrr á meðan ég heyrði smellina.
Það sama gerðu félagar mínir.
Hér vorum við örugg.
Ég veit að við förum aftur héðan innan skamms.
Upp til fjalla.
Þar sem mennirnir með byssurnar bíða okkar.
Ég veit ekki hversvegna við gerum þetta.
Það er svo sem ekki skrýtið.
Við erum nú einu sinni bara rjúpur.

1 ummæli:

  1. Í Kvistholti er hvíldin góð
    hvergi hættur, ekkert blóð
    hoppar hér í haganum
    með heljarvél á maganum
    mannpersóna mikilúðleg, hljóð.

    Klikk, klikk, klikk
    klikkvél, klikkvél, klikkk

    Rjúpa yrkir um hvíld að Kvistholti,

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...