16 nóvember, 2010

Borin von

Það hljómaði hreint ekki illa þegar fólki var gefinn kostur á að bjóða sig fram til stjórnlagaþings, algerlega á eigin forsendum. Það þurfti bara að safna nokkrum meðmælendum, skrifa einhver falleg orð um sjálfan sig og bíða svo rólegur í þeirri von að nægilega margir heilluðust af andlitinu á manni eða fallegu orðunum, til að maður næði kjöri. Jú, maður mátti eyða tveim milljónum að hámarki í kynningu á sjálfum sér (þar með væntanlega margir ófærir).

Mér barst í gær 'kynningarbæklingurinn' sem allir þekkja væntanlega. Ég flétti honum, æ hraðar eftir því sem blaðsíðunum fjölgaði. Fullt af andlitum og nöfnum og gráðum og störfum og stefnumálum. Stefnumálin var það fyrsta sem ég hætti að nenna að lesa, síðan gráðurnar og störfin og loks nöfnin. Eftir sátu myndirnar. 

'Já, þessi er frægur, þennan hef ég séð áður, þessi var með mér í skóla, þessi var nemandi minn, þessi var með mér í pólitík, þessi.......'

Eftir hálftíma flettingu lét ég gott heita og hugsaði með mér, að ef ég á annað borð ætla mér að sinna þessu kjöri til stjórnlagaþings, þá verði ég að móta mér einhverja stefnu í málinu. Ég var búinn að heyra af því að eitt vefdagblaðið gæfi manni kost á því að komast að því, með því að svara einhverjum slatta af spurningum, hvar væri helst að finna samhljóm milli skoðana manns og frambjóðenda. Ég skellti mér í að svara spurningunum. Þegar því var lokið birtist mér listi af fólki sem komst næst skoðunum mínum, enginn var þó nær en 83%.
Mér varð það á að hugsa hvort frambjóðendurnir hafi, í öllum tilvikum verið alveg vissir um hvernig þeir ættu að svara einstaka spurningum. Voru þeir t.d. alltaf með það á hreinu hvort þeir væru frekar vissir, eða alveg vissir. Hvað áhrif gat það haft á samsvörunina?
Þá varð mér það á að hugsa hversu mikið málafylgjufólk þarna væri um að ræða. Getur maður ekki reiknað með því, að þeir sem fara þarna inn, í hóp sem hefur ekkert skilgreint bakland, þurfi að vera talsvert ákveðnir og fylgnir sér? Verða það ekki bara allir lögfræðingarnir sem leggja línurnar?

Ég er kannski óþarflega svartsýnn á þetta, en eins og staðan er nú, get ég með engu móti sannfært sjálfan mig um, að það sé einhver skynsemi fólgin í því af minni hálfu að taka þarna þátt - það vil ég ekki gera nema vita hvað þessir einstaklingar standa fyrir - ekki hvort þeir eru lögfræðingar eða prestar, heldur hverskonar manneskjur þeir eru. Ég sé ekki fram á að ég hafi tíma, nennu eða tækifæri til að kynna mér það að einhverju marki.

Einhvern veginn grunar mig að ég sé ekki einn um að hugsa eftir þessum brautum. Ég held, í ljósi þess sem ég hef áður sagt um þjóð mína, að þarna setjist inn andlitin sem allir þekkja. Það endar alltaf þannig.

Kannski skipti ég um skoðun þegar nær líður.

1 ummæli:

  1. .alltof sammála Páli-gat nú verið!

    Á stjórnlagaþingið ég stefna vil mannlegu safni
    af sterklegum, skapandi hugum og hjörtunum hreinum
    og nú bið ég alla í lausnarans ljúfasta nafni
    að leggjast gegn poturum, bragðvísum refum í leynum.

    Landið hér vantar ljúfmennsku, skynsemi og hjörtu
    sem láta sig hag okkar varða í dimmu sem björtu.

    Óskir hirðkveðils vegna kjörs til stjórnlagaþings

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...