22 nóvember, 2010

Eigi er þetta til eftirbreytni

Það var dálítið óvenjulegt veður sem beið manns í morgun á þessum slóðum. Frostið var svona 7-8° í stillunni. Það er alveg hægt, svo seinnipartinn að klæða svona veðurfar í einhver rómatísk orð, þannig að maður sjái fyrir sér ævintýraheim, þar sem það skíðlogar í arni og rjúkandi heitt kakóið bíður manns þegar maður kemur heim eftir að vera búinn að skokka 10 kílómetrana sína, rjóður í kinnum með fullnægjuglampa í augum.

Það er sannarlega hægt að taka þennan pól í hæðina við þessar aðstæður - það er líka hægt að taka annan.

Svefndrukkinn staulast maður fram í eldhús og gjóar augunum á hitamælinn eftir að vera búinn að koma gleraugunum á nefið. Það er 8° frost úti. Fyrsti hluti dagsins ónýtur, þar sem maður veit hvað bíður. Fyrir utan stendur jepplingurinn/slyddujeppinn/jepplíkið hulið hnausþykku hrími. Það sést meira að segja á áferðinni að þarna er um að ræða það sem ég kalla "seigt hrím". Seigt hrím er þannig, að þegar maður reynir að skafa það af er eins og það vilji frekar klístrast á rúðuna en bara fara einfaldlega og áreynslulaust af.  Þeir einir skilja mig um þetta sem reynt hafa.
Þetta varpar ljósi á hugrenningar meðan neytt er lágmarks morgunverðar. Framundan er að koma sér 25 km leið í vinnuna, eftir að hafa skafið af rúðum eins og vera ber.

Það er víst ekkert val um að koma sér af stað. Út í froststilluna liggur leið, engin vandamál með að opna bíldyrnar, þreifað inn eftir skárri sköfunni, sem ekki finnst. Skafa er nefnilega ekki sama og skafa. Það er ekki um annað að ræða en grípa þá lélegu, slitnu, sem margoft hefur mistekist að sinna hlutverki sínu. Sköfunni er beitt á framrúðuna, en það er varla að far sjáist í frosthjúpinn seiga. Auðvitað gengur það ekki að láta við svo búið standa. Það verður að skafa meira og reyna fleiri aðfallshorn. Smám saman fer að glitta í gler, en það sést fyrst og fremst á því, að það myndast smám saman dökkur flötur. Þegar loksins er búið að búa til 10-15 cm op sem hægt er að sjá í gegnum og tíminn líður og klukkan tifar, er tekin sú afdráttarlausa ákvörðun að láta staðar numið. Óorðaðar forsendur ákvörðunarinnar eru þær að framundan sé akstur eftir vegi sem ekinn hefur verið kvölds og morgna síðan 1986. Hvað ætti svo sem að koma á óvart? Þar fyrir utan er nánast engin umferð á þessum tíma dags. Hver ætti svo sem að fara að leggja það á sig að skafa bílinn sinn nema tilneyddur?
Af stað.
Bakkað eftir minni. Ekki möguleiki að neitt óvænt sé þar fyrir, enda reynist það svo vera. Þegar komið er niður á veg er sagt sem svo, að maður hljóti að sjá bílljós gegnum hrímið á hliðarrúðunum, en samt mjakar maður sér fremur varlega inn á veginn til að gefa hugsanlegum, aðvífandi vegfarendum færi á að forða sér. Þá tekur við beinn vegur sem sést í gegnum gatið í framrúðunni, svona sæmilega fyrst, en síðan minna og minna. Það er nefnilega eðli hríms að byrja að myndast aftur meðan óbreytt hitastig er fyrir hendi. Þetta sleppur þó til. Eftir 5 km er hitablásturinn kominn í plús og smám saman léttist sýn í gegnum gatið. Á gatnamótum við Brúará þarf aftur að taka áhættuna á að aka inn á veg án þess að vita 
af fullkomnu öryggi hvað bíður. Eftir það er þetta ekkert mál. 

Auðvitað á maður ekki einu sinni að ýja að því að svona hagi maður sér, ábyrgur maðurinn. Á hinn bóginn er á það að líta, að eðli mannsins er að leita leiða til að velja hina einföldu leið að marki sínu svo lengi sem hann kemst upp með það. Þetta er dálítið eins og nemandinn sem sparar sér vinnu við heimaverkefnið og stelur verkefni samnemanda sín og skilar sem sínu, í trausti þess að kennarinn fatti það ekki. Ef hann kemst upp með það, þá er það bara fínt. Ef ekki? Den tid den sorg.

1 ummæli:

  1. Hjá Páli er ýmislegt til eftirbreytni
    en ekki það sem fjallað er um hér
    það væri bara bölvuð, árans skreytni
    að bera lof á hann,sem ekkert sér:
    út um glugga - agnarlítinn skjáinn -
    og ekur samkvæmt minni út í bláinn.

    Hirðkveðill tjáir sig um glæfralegt hátterni Kvistholtsbónda :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...