28 nóvember, 2010

Enn um þessa þjóð.

Ég mun hafa látið frá mér fara yfirlýsingu fyrir nokkru um að það væri borin von að ég færi að taka þátt í nýafstöðnum kosningum. Það var nú bara yfirlýsing. Auðvitað settist ég niður og fór í gegnum frambjóðendahópinn fram og til baka, út frá ýmsum forsendum og fann loks 21 stykki sem ég taldi að myndu sinna verki sínu á stjórnlagaþingi í samræmi við það sem ég vil sjá gerast þar.  Sannarlega skorti talsvert á að ég nennti að standa í þessu, en ég stóð frammi fyrir þeirri grundvallarskoðun minni, að rétturinn til að kjósa sé nánast helgur réttur sem manni ber að nýta sér. Manni finnst hann reyndar oftast vera til lítils, en ef hann væri ekki til staðar væri samfélagið með öðrum hætti. Það er, í mínum huga lítilsvirðing við þau forréttindi sem við njótum og sem eru hreint ekki sjálfgefin.

Þátttaka í þessum kosningum var slök. Ég hef mína skoðun á ástæðum þess. Sú skoðun er örugglega ekki allra. Sé hún rétt, er ástæða til að hafa nokkrar áhyggjur. Telji menn það sem ég ætla að bera á borð, bera vott um hroka af minni hálfu, þá verður bara svo að vera, enda er það sjálfsagt rétt.

Það er hreint ekki af ástæðulausu sem fjölmiðlar eru kallaðir fjórða valdið. Í gegnum þá mótast skoðanir stórs hluta þjóðarinnar. Þar fáum við myndir að ýmsum hliðum þjóðlífsins og þeir geta auðveldlega, með  því að matreiða fréttir með tilteknum hætti, plantað skoðunum í höfuð fólks. Þetta gera þeir. Þetta vita stjórnmálamenn. Það er bara mannlegt að líta upp þegar maður heyrir hávaða. Maður lítur þangað sem hávaðinn er mestur. Skilboðin í hávaðanum þurfa að vera einföld. Þannig hefur hávaðinn, sem verður til við sprengingu, meiri áhrif en umferðarniður af sama styrkleika. Það þarf að vera sensasjón.

Þetta tel ég vera aðra meginástæðu þess, að þessi stóri hluti þjóðarinnar kaus ekki í gær. Hann heyrði, jú, umferðarniðinn, en fannst erfitt að staðsetja hann. Með öðrum orðum, það kom enginn beinlínis fram og sagði fólkinu hvernig kjósa skyldi. Bara hvort menn ættu að kjósa eða ekki. Það komu sannarlega fram skilaboð frá ákveðnum stjórnmálaöflum um það, að svona kosningar væru tilgangslausar. 

Hin meginástæðan er jafnvel alvarlegri. Þjóðin vill hafa skýrt val þannig að hún geti merkt við með krossi í stað þess að þurfa að fara skrifa aðra stafi á kjörseðilinn. Maður á ekki að þurfa að kunna neitt annað en X til að geta kosið. Hitt er hreinlega og flókið fyrir hinn "ópólitíska" hluta þjóðarinnar (Ég veit alltaf hvernig sá kýs sem segist vera ópólitískur). Í stað þess að viðurkenna bara að þetta sé flókið, og þannig afhjúpa leti sína eða þekkingarskort og skilningsleysi (jafnvel h-----u), hrópa menn:"Þetta er þvílíkt bull og vitleysa! Mér dettur ekki í hug að taka þátt í því!"

Ég held að það séu talvert mikil mistök að ætla sér að fara að fjölga þjóðratkvæðagreiðslum um hin og þessi málefni. Niðurstaða slíkra atkvæðagreiðslna mun ráðast af hávaðanum í fjölmiðlum. Hinum einfölduðu skilaboðum. 

Það stefnir í, að þjóðin greiði atkvæði um inngöngu í ESB á næstu árum. Hvernig væri nú að gera það að skilyrði fyrir þátttöku í slíkri atkvæðagreiðslu, að menn hefðu staðist próf í innihaldi samningsins. Hver ætli þátttaka í þeim kosningum yrði?

1 ummæli:

  1. Ó þjóð- mín þjóð
    sem þóknast seint að læra
    að þitt er valið ef þú hugsar grannt
    eins má geta ótal tækifæra
    sem áttu hér ef hlusta vel þú kannt
    og réttur þinn að velja vænstu menn
    er vissulega dýr - Það sannast enn.

    Hirðkveðill yrkir hvatningarljóð fyrir hönd okkar sem nýtum kosningaréttinn!! - Yessss!

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...