04 desember, 2010

Skoðanir - til hvers?

Ef maður er sammála því sem sagt er, eða gert, þá virðist það vera svo, að það sé harla lítil þörf á að tjá það að neinu verulegu marki. Ef maður er hinsvegar ósáttur við eitthvað, virðist vera einstaklega auðvelt að tjá það í orðum og æði. Svona erum við sýnist mér.





Ég er farinn að túlka líf mitt út frá þessu og með þessum hætti, til dæmis:
 - það lýsir sig aldrei neinn sig ósammála mér í bloggskrifum mínum og þessvegna er ég að tjá hinar einu réttu skoðanir.
- nemendur mínir kvarta ekki yfir mér og þess vegna er ég besti kennari "ever".
- það hefur enginn kvartað yfir smákökunum sem ég bakaði í dag og þessvegna eru þær aldeilis óaðfinnanlegar (vissulega hafði fD efasemdir um smjörlíkismagn og eitthvert bragð sem hún gat ekki staðsett, en ég kýs að telja það ekki með (í það minnsta ekki á þessum vettvangi)).
- ég á stundum erfitt með að fá sum systkini mín til að svara tölvupóstum frá mér (öll reyndar yfir fimmtugt), þannig að það sem ég er að braska á þeim vettvangi er frábært.
- það hefur enginn vegfarandi beinlínis sagt mér, að ljósaskreytingar mínar (sem fóru upp um síðustu helgi) skeri í augun og séu vanhugsuð á krepputímum. Þessvegna eru þær einstaklega smekklegar (eins og stundum er sagt) og glæsilega setteraðar og stíliseraðar (eins og sagt var á Innlits/útlits tímanum).

---------------------------

Nú þegja allir sem fá stórfelldar niðurfellingar eða niðurfærslur á skuldum sem í mörgum tilvikum er til orðnar vegna ótrúlegrar skammsýni og sjálfgæsku. Þeir sem eru ósáttir eru þeir sem eru búnir að sína ráðdeild og forsjálni. Þeir munu væntanlega láta í sér heyra.

Meðan maður heyrir ekkert er allt í þessu fína. 
Þannig er Ísland í dag.


2 ummæli:

  1. 4. des.'10

    Hirðkveðill ávarpar Kvistholtsbónda í frh.af skrifum:

    Allt sem gerir, allt sem bakar,
    allt sem kennir, ferst þér vel
    allt sem skreytir, allt sem kvakar
    allt sem skrifar frábært tel.

    SvaraEyða
  2. Sorglegt en þvímiður satt og rétt!

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...