08 desember, 2010

Áskriftarþjóð

Ég verð víst að hefja mál mitt á að viðurkenna að ég hef umgengist hugtakið "þjóð" nokkuð frjálslega á þessu svæði mínu, undanfarin ár. Notkun mín á hugtakinu hefur falið í sér tiltekna sýn á tiltekinn hluta þess hóps fólks sem telst tilheyra hinni íslensku þjóð. Oftar en ekki hef ég gert þetta í þeim tilgangi að gera fremur lítið úr fyrirbærinu, sem er til komið vegna einhverra eiginleika þess, sem mér falla ekki í geð.

Vissulega tala stjórnmálamenn fjálglega um hvað þjóðinni finnst um hitt og þetta, eða hvað þjóðinni kemur best í hinum eða þessum málaflokknum, jafnvel þegar þeir eru að tala um tiltölulega fámenna sérhagsmunahópa. En stjórnmálamenn eru nú bara stjórnmálamenn. 

Það er full ástæða til að endurskoða leyfilega notkun á þessu ágæta orði. 

Hvenær er hægt að tala um þjóð þannig að um geti verið að ræða alla þá sem byggja þetta land og teljast vera íslenskir ríkisborgarar?  Hreint ekki svo augljóst.

Er hægt að segja: "Í dag gengur þjóðin að kjörborðinu"?
Já, ef skilgreiningin á þjóð í þessu samhengi eru þeir sem hafa kosningarétt samkvæmt lögum, að öðrum kosti er hér ekki um að ræða nema hluta þjóðarinnar. Hér væri væntanlega nákvæmar að segja: "Í dag geta einstaklingar með kosningarétt gengið að kjörborðinu"

Er hægt að segja: "Þjóðin mótmælti við Alþingishúsið"?
Já, ef þannig er litið á, að öll þjóðin hafi haft sömu möguleika á að skunda á Austurvöll, eða ef menn líta svo á að hægt sé að tala um fulltrúa einhvers tiltekins hóps þjóðarinnar sem þjóð. 
Þetta verður hinsvegar að teljast sérlega frjálsleg notkun á hugtakinu. 
Réttara væri að segja: "Sá hluti þjóðarinnar sem nennti, eða átti um sárt að binda, var reiður, eða komst yfirleitt til höfuðborgarinnar, mótmælti við Alþingishúsið"

Þá er ég kominn að tilefninu, en það er þetta:

Þjóðin sameinast dagana 13. - 30. janúar fyrir framan skjáinn til að hylla strákana okkar og alla leiki liðsins getur þjóðin séð á Stöð 2 Sport. (kynning á vef Stöðvar 2)

Nú veit ég, að þetta mál var komið inn á borð Mennta- og menningarmálaráðherra. Hvort, eða þá hvað hún hefur aðhafst í málinu, veit ég ekki, en sé engin merki þess á vef ráðuneytisins.
Auðvitað vill hin einkarekna sjónvarpsstöð að öll þjóðin kaupi sér áskrift til að fylgjast með, en það gerist varla. Því er orðavalið heldur frjálslegt. Betur færi á að segja: "Áskrifendur sameinast....." og "...geta áskrifendur séð".

Eins og við vitum nú öll þá greiðir þjóðin fyrir áskrift að einni sjónvarpsstöð. Þjóðin getur horft á það sem þar fer fram ef hún svo kýs. Fyrir þessa áskrift greiðir hún hóflegt gjald á ári hverju. Þessi sjónvarpsstöð gæti auðveldlega notað kynningartextann hér fyrir ofan, með réttu.

Í mikilli kynningu á dýrðinni, í áskriftarstöðinni í gær, var mikið gert úr mikilvægi þess fyrir þjóðina á krepputímum, að geta sameinast og fylgst með þessu eina íþróttaliði sem þessi þjóð hefur fylgst með af kappi undanfarin ár. 
Það stefnir í það að sá hluti þjóðarinnar, sem helst hefur þörf fyrir að létta lundina í skammdeginu og horfa um stund upp úr fjárhagsbasli, þar sem búið er að skera niður allt sem hægt er að skera í útgjöldum, þar á meðal fjölmiðla, verði af því að fylgjast með heimsmeistarakeppninni í handbolta í janúar, þar sem "strákarnir okkar" berjast fyrir hennar hönd, í hópi sterkustu handknattleiksliða heims.

Mér þykir þessi tilhugsun þyngri en tárum taki og enn eitt dæmið um það hve vanhugsað það er, þegar fjármagnið eitt er látið ráða hver fær.  Mér liggur við að segja að þetta sé ekki hægt að sætta sig við, síst á þessum tímum og reyndar aldrei. Áskriftarstöð má mín vegna sýna áskrifendum sínum leiki úr öllum heimsins íþróttadeildum, en þegar um er að ræða landsleiki af þeim toga sem hér er um að ræða, eiga allir að hafa sömu möguleika, öll þjóðin, án tillits til þess hvernig þeir eru staddir fjárhagslega.

Sé ráðherrann búinn að taka þarna í taumana, og það farið framhjá mér, þá lætur mig einhver vita af því og þá mun ég auðvitað gleðjast. Þangað til ríkir gleðiskortur að þessu leyti.

1 ummæli:

  1. Mér dettur bara eitthvað ljótt í hug að segja um þetta enda nokkuð forfallinn "stórmótahamboltafíkill".
    Get engu bætt við en er algjörlega sammála þér.
    Það verða þá "Strákarnir þeirra" eða "Strákarnir hinna" eða þá kannski "Strákarnir sumra" sem taka á því í janúar.
    Ég er pirruð yfir þessu svo ekki verði meira sagt.
    Kv. Heiða

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...