09 desember, 2010

10:00-12:00 &13:00-14:15

Fyrirsögnin þessu sinni felur í sér afleiðingar kreppu, geri ég ráð fyrir. Með þessu móti þurfum við, þjóðin (það er að segja sá hluti hennar sem greiðir skatt á annað borð, sem eru all of fáir) að greiða minna fyrir reksturs hins opinbera, væntanlega.
Fyrirsögnin felur í sér raun opnunartíma Sýsluskrifstofunnar á Selfossi, ef maður þarf að erinda þar eitthvað annað en að borga skattinn eða ná í ökuskírteini. Auglýstur opnunartími gerir ekki ráð fyrir að lokað sé milli kl. 12:00 og 13:00, eins og rauntíminn leiðir í ljós.
Þegar upp er staðið, er hægt að ná sambandi við fólk á þessari opinberu þjónustustofnun í 3 klukkustundir á dag, ef það er þá ekki veikt (bara einn sem sinnir hverri tegund erindis - ef um er að ræða veikindi þess starfsmanns bíða málin þar til hann kemur aftur til starfa), eða bundið við skyldustörf  úti á akrinum, eins búast má við þegar um er að ræða löglærða fulltrúa sýslumanns.

Ég átti, sem sé, leið á Sýsluskrifstofuna á þessum góða degi. Ég ákvað að vera kominn tímanlega til að ná góðu sambandi við fulltrúann, sem ég reiknaði með að sæti og biði mín. Ekki lá leið mín þangað til að borga skatta og ekki til að ná mér í ökuskírteini og ekki í yfirheyrslu (eins og einhver óvelviljaður gæti freistast til að álykta). Ég þurfti að eiga orð við löglærðan fulltrúa sýslumanns um til tekið málefni. Sá fulltrúinn sem sér um mál af þessu tagi var og er veikur. Málin bíða hans í stöflum. Óvíst um hvernig honum tekst að hressast. Hinn löglærði fulltrúinn var upptekinn fyrir Héraðsdómi Suðurlands og ekki væntanlegur fyrr en eftir hádegið  (þetta var haft eftir honum). Þetta gerðist kl. 12:15.  
Ég beitti fyrir mig lítilsháttar kaldhæðni í fullri kurteisi, sem hitti hreint ekki í mark hjá starfsmönnunum tveim sem þarna voru fyrir til að taka við peningum fólks. Það var ekki einu sinni með góðum vilja hægt að greina brosviprur þegar ég lét saklaus orð falla, sem að öðru jöfnu hefði kallað fram lítið jólabros.  Ég treysti mér ekki til að hafa eftir þau orð sem fD lét sér um munn fara við þessar aðstæður.

Þarna varð niðurstaða um að sinna öðrum erindum í höfuðstað Suðurlands og koma síðan aftur þegar sá tími væri upp runninn að von væri til að óveiki löglærði fulltrúinn væri viðstaddur. Sá tími rann upp. Fulltrúinn kominn og farinn og ekki við meira í dag. Skilaboð fékk ég frá honum um að það væri reynandi að hringja til hans og panta tíma síðar.  Orð féllu þó ekki væri úr mínum talfærum.

Auðvitað langaði mig að brjóta allt og bramla í þessari óþjónustustofnun, en hef meiri stjórn á mér en svo. Auðvitað var ekki við það starfsfólk sem þarna var að sakast. Það er ekki í öfundsverðum störfum. Aðrir ollu því að skorið var niður. Megi þeir r****a í h*****i, eða þannig.

Nú liggur fyrir að freista þess að ná sambandi við hina löglærðu fulltrúa eftir öðrum, tiltækum leiðum.. 

------------------------

Þessi vísa léttir manni skapið þótt ekki sé umfjöllunarefnið fallegt. Hana sá ég skrifaða niður eftir gamla unglingnum, en hef ekki getað fundið út hver höfundurinn er.

Dimm og þung er dómsins raust,
dæmt, frá engu' er þokað.
Helvíti er hurðalaust
en himnaríki lokað.

1 ummæli:

  1. Hvernig fóru framhjá mér
    fjandans" góðu skrifin þín
    alltof seint ég yrki þér
    argandi í blessan mín!

    "Lokað, veikur langt í burt,
    í leyfi vegna ferðar"
    má ég segja af mestri kurt:
    mér finnst þetta óþolandi.......

    Hirðkveðill tekur undir gremju hP vegna erffiðleika við að "komast að".

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...