10 desember, 2010

Stemmningsbræla



Það er eins með flatkökur og epli: í gamla daga voru þær ekki á borði manns hversdags. Hinsvegar var móðir mín mikill flatkökubaksturssnillingur og var komin út í heilmikinn bísness við að framleiða fyrir Verslun G. Sæland. Fram til þess tíma, að hóf var á flatkökubakstri, eða meðan hún bakaði aðeins fyrir heimilið, var þeim skellt á eldavélarhellu til bökunar. Þetta hafði í för með sér mikla brælu sem fór um allt hús. Mér fannst þessi bræla reyndar alltaf ágæt. Þegar framleiðslan fór að aukast átti sér stað þróun í framleiðslutækni. Hún fólst því að koma upp aðstöðu frammi í þvottahúsi. Þarna var komið fyrir bökunarplötu og fjárfest í gasbrennara sem tengdur var við kút. Með þessu móti hvarf brælan og það var hægt að hafa betri stjórn á bökuninni. Ég tók talsverðan þátt í að baka flatkökur með þessum hætti með henni, á tímabili.
Það hefur nú ekki komið oft fyrir, að við fD höfum skellt okkur í flatkökubakstur, ekki síst vegna þess, að það er svo auðvelt að kaupa þær úti í búð, fjöldaframleiddar í bakaríum. Þar er meira að segja hægt að fá hreint ágætar flatkökur sem þannig eru til orðnar.  Vandinn er bara sá, að þær eru orðnar daglegt brauð og því lítil tilbreyting.
Það var eiginlega þess vegna sem ég tók því ekki illa þegar fD stakk upp á að VIÐ skelltum okkur í flatkökubakstur á þessum hlýja desemberdegi á aðventu. Bökunaraðferðin sem varð fyrir valinu, þar sem ekki reyndist kostur á öðrum, var eldavélarhella. Það tók nokkrar kökur áður en hæfileg stilling á þykkt og helluhita náðist, en brælan sem gaus upp vakti upp gamlar minningar. Smám saman náðist talsverð leikni við virkið.

Uppskriftin að flatkökunum kemur úr fórum móður minnar, en gallinn við það er sá sami og með kleinuuppskrift sem hún lét í té, að aðferðir hennar við baksturinn voru orðnar svo þróaðar, að efnahlutfallið sem  notað var og aðferðirnar sem beitt var, byggðust alfarið á tilfinningu. Grammafjöldi af hinu og þessu sagði ekki alla söguna; það vantaði punktinn yfir i-ið, eins og sagt er - tötsið.

Kökur dagsins virðast hafa heppnast með ágætum, en þó svo þær hafi kannski ekki náð þeim flokki sem sóst er eftir, þá skilja þær eftir indælis bökunarilminn.

2 ummæli:

  1. lagboði: Á kaupmanninn rétt við búðarborðið....

    Við flatkökubaksturinn frúin stendur
    og flögrar í kring hennar maður
    þau fitla við deigið með fimar hendur
    og framleiðsluandinn er glaður.

    Þau ætla að selja mér ótal kökur og einnegin smjér sem mig vantar
    og nýstrokkað er það, skorið í skökur
    En skelfing sem okra þau - fantar.

    Hirðkveðill yrkir flatkökuljóð - helsýkt af öfund ;)

    SvaraEyða
  2. Ég man eftir gasbrennaraflatkökulyktinni - mjög góð. Maður finnur hana reyndar ennþá þegar maður kemur í anddyrið í hveratúni

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...