11 desember, 2010

5,49

Alltaf er nú jafn skemmtilegt og gefandi að fara yfir blessuð prófin, ekki síst vegna tilfinningarinnar sem hellist yfir mann að því verki loknu.
Ég er nú búinn að ljúka mínum þætti í slíku verki á þessari haustönn.

Þannig er með einkunnagjöf í framhaldsskólum, að kennurum ber að gefa einkunnir í heilum tölum, þ.e. 3,4,5,6.... o.s.frv. Ég segi nemendum mínum, að þegar endaleg einkunn lendir einhversstaðar mitt á milli heilla talna þá leyfi ég mér að horfa á nemandann, ekki bara út frá þeirri hæfni eða hæfnisskort sem hann sýnir í greininni, heldur þeim eiginleikum öðrum sem hann býr, eða býr ekki yfir. Þarna koma til athugunar svo ófrumlegir þættir sem tímasókn, framkoma, viðhorf, holning, skipulag á námsgögnum, og margt annað sem ekki verður upp talið hér, en fellur undir huglægt mat mitt. 
Því miður kemur það ekki oft fyrir, að lokaniðurstaðan, þegar allt hefur verið reiknað saman, lendir á þessum óskastað mínum á einkunnaskalanum. Það kemur þó fyrir. Við þær aðstæður lendi ég oftar en ekki í þeim klassísku aðstæðum kennarans, að fara að vorkenna ræflinum, eftir að hafa haft í heitingum með sjálfum sér, aftur og aftur, að meta niður frekar en upp ef aðstæðurnar yrðu þannig.

Skyldi ég nú hafa fengið langþráð tækifæri til að færa nemanda niður samkvæmt þessum viðmiðum?
Skyldi ég hafa gert það með góðri samvisku?
Skyldi mér bara líða nokkuð vel með það?

Jah, ætli maður verði ekki, í ljósi meðferðarinnar sem sálfræðilektorinn fékk þegar hann lét í ljós frústrasjónir sínar á fésbók, vegna óþolandi lélegrar námsvinnu verðandi sálfræðinga, að láta lesendum eftir að giska á hver niðurstaða mín varð.

1 ummæli:

  1. Almáttugur, þetta minnir mig á pabba með pappíra úr Kennaraháskólanum og H.Í. - og aðra pappíra. "Æ, hann X skinnið er að reyna, en hann veit bara ekki hvað hann átti að reyna núna"!

    Löngum hafa leiðst mér próf
    löngum stunið þungan
    Þeirra leitt er litaróf
    lamast penni og tungan.
    ************************

    Þetta er nú þrifleg vísa
    þá skal tilfinningum lýsa...
    kvíði í hjarta, kveisa í görn
    hverri fylgdi prófatörn.



    Hirðkveðill lýsir viðhorfi sínu til prófa.... sem enginn hefur nokkru sinni skilið!

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...