14 desember, 2010

Gegn straumnum

Það sem ég skrifa hér á eftir er ekki allra. 
Auðvitað er punkturinn sem ég vel til að senda þetta frá mér, af gefnu tilefni, sem enn skýtur stoðum undir áratuga skoðun mína á því hvernig námi verður best háttað. Ég er strax kominn með efasemdir um að rétt sé að leggja af stað í þessa vegferð, ekki síst vegna þess að hún virðist harla tilgangslaus. Ég er líklega kominn á það lífsskeið að það er auðvelt að afgreiða mig sem fastan í einhverri fortíð og að ég beri ekki skynbragð á nútíma skólastefnur.

Það má bara vel vera.

Á þessum tímapunkti nenni ég nú ekki að fara út í að skrifa langloku máli mínu til stuðnings, því enda þótt ég eigi nokkra trausta og rétthugsandi lesendur, þá lít ég bara á það sem of mikla vinnu fyrir ekki meira fjölmenni.

Í mínum huga felst traust nám í því af öðlast góða heildarmynd. 
Það er byrjað að mála þessa mynd strax í fæðingu í faðmi foreldra, síðan fer málningarvinnan fram með stöðugt skipulegri hætti í leikskóla og grunnskóla. Í framhaldsskólanum hefst ákveðin sérhæfing, en þó þannig, að mikilvægi almennrar þekkingar og færni fá að fylla út í málverkið og tengja þannig saman þá fleti sem fókusinn er mestur á. 
Í lok framhaldsskólans á að vera komin góð mynd á verkið. Þá tel ég eðlilegt að þess sé farið á leit að viðkomandi geti gert grein fyrir myndinni, lýst henni og því samspili sem á sér stað milli ólíkra þátta hennar. 
Til að vera nú ekki að týna mér í þessari samlíkingu þá þýðir þetta einfaldlega, að það er í mínum huga afskaplega mikilvægt í menntun ungs fólks að það öðlist heildarmynd af því samfélagi sem það á eftir að eyða ævinni í: sögu þess, menningu þess, reglum þess, samskiptum innan þess, ábyrgð sinni innan þess, og svo framvegis, og svo framvegis. 
Nú, þegar samfélagið er flóknara en nokkurn tíma og því enn meiri ástæða til að tryggja staðgóða þekkingu á því og færni til að komast af innan þess, er drifið í því, undir taktslætti útrásarvíkinga, að stefna að því leynt og ljóst að stytta nám í framhaldsskólum. 

Það voru sett ný lög.

Við erum búin að komast að því á undanförnum árum, að það er ekki allt með felldu í íslensku menntakerfi. Þetta bara fullyrði ég, og ætla ekki hér og nú að leiða að því rök, enda tel ég þess ekki þörf.

Kröfur eru stöðugt að aukast á skóla um innra eftirlit og skýra markmiðssetningu. Þetta er komið á það stig að ég, í það minnsta, fæ það á tilfinninguna, að eftirlitið og markmiðssetningin séu að verða mikilvægara í skólastarfi en að koma unga fólkinu til manns. Það má halda því fram, að skólum sé ekki lengur treystandi til að sinna meginhlutverki sínu af bestu getu.

Það hefur verið að aukast stemning fyrir því að búta námið niður í vel skilgreindar einingar, án þess að úr því myndist hin nauðsynlega heildarmynd. Svo ég taki aftur samlíkinguna við málverkið. Bútanámið felur í sér, að það er málað þetta fína græna hús í hægra hornið. Svo er það bara búið. Því næst er máluð rauð glæsibifreið í vinstra hornið. Svo er hún búin. Þá kemur þessi dásamlega manneskja í óræðum lit efst fyrir miðju. Henni er þar með lokið.  Það sem vantar í þessa mynd er samhengið milli þessara þátta. Hvernig tengist t.d. bíllinn húsinu, eða manneskjan bílnum? Hvernig leiðir liggja þarna á milli? Það er sem sagt talsverður skortur á bakgrunni í þessa mynd.

Skyldi það vera svo, að hraðnámið sem hefur verið til umræðu undanfarna daga sé eitthvað í likingu við svona mynd. Er ekki hætta á að myndin sem verður máluð með styttra námi í framhaldsskólum verð jafn brotakennd.

Í stuttu máli:
Ég vil 4 ára námí framhaldsskóla þar sem náminu lýkur með því að nemandinn geti lýst allri myndinni sem hann er búinn að vera að mála undanfarin 20 ár. 

Þá er hann tilbúinn til að halda áfram.

1 ummæli:

  1. Málarakúnstin er mikil list
    og margur finnur sig knúinn
    að byrja á endinum allra fyrst
    og áður en hann er búinn.

    Með pensilinn hamast pottormar,jú
    potandi hérn' og svo þarna
    og kennarasveitin kramin á trú
    kann lítil ráð við því arna.

    Hirðkveðill yrkir um götótt nám og gæði rýr.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...