05 september, 2016

Skeinipappír í jurtalitum

Ég byrja á því að afsaka notkun mína á þessu óheflaða orði í titlinum, en það var valið vegna þess að það taldist kalla á meiri athygli en önnur orð yfir sama fyrirbæri. En hvað um það, reynslan af því að upplifa útisalerni túrista (væntanlega) í þjóðgarðinum á Þingvöllum í gær, gerði manneskju, mér nákomna, talsvert hugsi. Síðan gerðist það skyndilega í dag að eftirfarandi spurningu var varpað fram í engu samhengi við annað sem var í gangi:
"Er það ekki góð viðskiptahugmynd að lita klósettpappír í felulitum og skylda alla túrista sem kom til landsins til að kaupa hann?"
Í framhaldinu átti sér stað nokkur umræða um framkvæmanleika þessarar hugmyndar og auðvitað varð niðurstaðan engin, enda hugmyndin bara hugmynd á þessu stigi.

Ég birti hér mynd af salernisaðstöðu túrista, sem er innan um berjalyng á Þingvöllum. Á vinstri helmingi myndarinnar má sjá aðstöðuna eins og hún birtist okkur. Hægri hluti myndarinnar sýnir síðan sama svæði eftir að pappírinn, sem er óhjákvæmilegur þáttur í athöfn af því tagi sem þarna er um að ræða, hefur verið litaður með jurtalitum. Það er engum blöðum um það að fletta, að jurtalitaður pappír myndi falla einstaklega vel að umhverfinu.

 Það má halda áfram að velta þessari hugmynd fyrir sér og hún verður ekkert nema betri, Grundvöllur hennar er auðvitað fyrst og fremst sá, að stór hópur þeirra ferðamanna sem hingað koma, telja þetta vera land sem er mikið til ósnortið af siðmenningunni, eins og þeir þekkja hana. Þeir telja að hér séu þeir frjálsir til að hleypa lausu dýrinu í sér, frummanninum sjálfum.   Þetta þurfa Íslendingar með snefil af viðskiptaviti auðvitað að nýta sér og hér hafa verið lögð fram frumdrög að lausn á þeirri sjónmemengun sem skjannahvítur (ja, smá  brúnn líka eftir notkun) pappírinn hefur óhjákvæmilega í för með sér.
Það má sjá fyrir sér atvinnu við að tína jurtir og vinna úr þeim lit sem síðan myndi nýtast við litun á þessum pappír; örugglega miklu umhverfisvænni aðferð en bleiking. Úrgangsefnin sem útiskitufólkið skilur eftir skolast bara ofan í jarðveginn í næstu rigningu og af honum spretta grösin græn og blómin blíð.  
Ekkert nema pottþétt plan.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...