11 september, 2016

Þessir kjósendur!

Dröfn Þorvaldsdóttir: (ónefnd fuglategund) 2016
Ég vil nú bara breyta því hvernig fólk velst á Alþingi. Ég veit að það vilja margir, en á ólíkum forsendum. Mig langar að hafa meiri bein áhrif á það hvaða fólk á mínum lista hlýtur kosningu.
Aðferðirnar sem eru notaðar við þetta núna, einkennast  af því að einhver fámennur hópur velur einhver frambjóðendapakka sem ég verð síðan að samþykkja, vilji ég kjósa einhvern flokk.
Þessar aðferðir stjórnmálaflokka til að velja fólk á lista fyrir kosningar eru gallaðar og stuðla hreint ekki endilega að því að kjósendur hafi nægileg áhrif á niðurstöðuna.

Prófkjör/flokksval
Sumir stjórnmálaflokkar halda prófkjör fyrir Alþingiskosningar. Þau fara eftir einhverjum reglum sem hver flokkur fyrir sig setur. Tilgangur þeirra er að velja fólk á lista fyrir kosningar. Prófkjörum er einnig ætlað að raða fólki á listana þannig, að sá sem flest atkvæði hlýtur í einhver tiltekin sæti fái það sæti. Þannig verður til pakki frambjóðenda, sem kjósendur geta síðan valið í kosningum. Þetta hljómar allt tiltölulega einfalt og lýðræðislegt. Við þurfum bara að ganga í einhvern flokk og þar með getum við haft áhrif á hvaða fólk fer í framboð og í hvaða röð í okkar kjördæmi.

Þetta er hinsvegar ekki aldeilis svona einfalt og þar kemur ýmislegt til.
1. Aðstöðumunur
Sitjandi þingmenn geta lagt verk sín í dóm samflokksmanna.
Sumir eru þekktari en aðrir.
Sumir eru snoppufríðari en aðrir (sigurvegari í prófkjöri í Suðurkjördæmi sagði aðspurður, að listinn hefði orðið "álitlegri" með konur ofar en reyndin varð :))
Sumir eru ríkari af veraldlegum auð en aðrir. Allir vita að peningar eru afl þess sem gera skal, líka í prófkjörum.
Kjósendur sumra flokka dást frekar að ákveðnum týpum af fólki (t.d. lögfræðingum eða körlum sem geta staðið í lappirnar, eins og það er kallað) og þar með getur listinn orðið ansi einhliða.

2. Smölun
Þeir sem hafa færi á því, vegna aðstöðu sinnar, að safna í flokkinn fólki beinlínis til þessa að þeir kjósi með tilteknum hætti og þá jafnvel gegn loforðum um eitthvað í staðinn.

3. Kynjakvótar
Þessir kvótar eiga að tryggja það að karla og konur skipist á lista í sem jöfnustum hlutföllum, sem getur þýtt að niðurstöðu prófkjörs verður breytt og þar með gengið gegn vilja kjósenda í prófkjörinu.
Mér finnst að aðall góðs eða öflugs þingmanns eigi að birtast í öðrum eiginleikum en kyni. Bæði kyn geta verið góðir og öflugir þingmenn.
Mér finnst reyndar margt fleira um þetta, en læt það bara ekki uppi.

4. Annað 
Fyrir utan þetta má örugglega tína til ótal flækjur í tengslum við þessi prófkjör.

Flokkurinn raðar
Einhver fámennur hópur flokksmanna raðar frambjóðendum á lista, sem er síðan samþykktur á einhverjum flokksfundi.  Fín aðferð fyrir svokallaða "flokksgæðinga", en síðri fyrir kjósendur.
--------
Ég vil hafa kosningar þannig, að ég þurfi fyrst að velja flokkinn minn og síðan þann sem ég vil sjá frá honum á Alþingi. Þetta myndi auðvitað gera ýmsum kjósendum erfitt fyrir þar sem þeir þyrftu að kjósa í tveim skrefum í stað eins: Fyrst að velja flokkinn og síðan þingmannsefnið. Sé þetta þeim ofviða, hafa þeir hreint ekkert að gera á kjörstað yfirleitt. 
Ég er kannski tregur, en ég átta mig ekki á hvaða vandkvæði myndu fylgja þessu fyrirkomulagi, enda myndi vilji kjósenda endurspeglast í því fólki sem fengi sæti á þingi. Þessi aðferð tel ég að myndi henta mjög vel í rafrænum kosningum: fyrst kæmi gluggi þar sem maður merkti við sinn flokk. Síðan kæmi gluggi þar sem maður merkti við sitt þingmannsefni. Loks kæmi gluggi sem tilkynnti þér, að atkvæðið væri komið til skila og þér þökkuð þátttakan.
Þetta myndi ég kalla lýðræðislegar kosningar.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...