18 september, 2016

Rannsóknarblaðamenn LB

Eitt viðamesta málið sem blasir við ritstjórn Litla Bergþórs þetta haustið, er talsvert viðamikil úttekt á ferðaþjónustu í Biskupstungum, á mælikvarða blaðsins. Þarna að sannarlega að mörgu að hyggja, því margt er það í ferðaþjónustunni sem ekki blasir við í daglegu lífi Tungnamanna. Mikið liggur við að vandað verði til verka, og því varð úr að tveir aldursreyndustu blaðamennirnir voru sendir út af örkinni til að afla efnis. Þeir völdu sér þennan sunnudagsmorgun til að bruna út af örkinni.

Annar ók og gerði tillögur að tökustöðum. Hinn tók á tökustöðunum.
Ljóst er, eftir þennan tökuleiðangur, að verkið er jafnvel umfangsmeira en áætlað var í fyrstu og mögulegt, jafnvel, að einhverjum spurningum verði ósvarað eftir að vinnslu umfjöllunarinnar lýkur, en hún mun birtast í næst tölublaði, sem kemur um mánaðamót nóvember og desember, næstkomandi.

Vegna leyndar, sem óhjákvæmilega hvílir yfir verkefninu og samkeppnissjónarmiða, verða ekki birtar hér neinar myndir sem teknar voru í ferðinni, utan þrjár: af girnilegum brauðhleifum frá  Sindra bakara í Bjarnabúð, af öðrum blaðamanninum skyggnast um nærumhverfi sitt og sú þriðja af húsbyggingum í Biskupstungum, sem líklegt er að fáir hafi augum litið frá því sjónarhorni sem sýnt er.
Loks er birt ein mynd af afurðum einhvers svaðalegasta kleinubaksturs sem átt hefur sér stað í Kvistholti.


Hér lýkur þessari skýrslu um enn eitt þarfaverkið sem ritstjórn Litla Bergþórs ræðst í.  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...