12 desember, 2015

Sópraninn vildi komast hærra

Staður: Skálholtsdómkirkja
Tími: 11. desember 2015
Tilefni: Jólatónleikar

Framundan var flutningur kóra úr uppsveitum með einsöngvurum, orgeli, trompet og klarinett á verki efti Sigvalda Kaldalóns, Kirkjan ómar öll. Því verður ekki á móti mælt að einhverjir tenórar báru nokkurn kvíðboga fyrir einni nótu í umræddu verki.

Forsaga málsins var sú, að við upphaf æfinga á þessu verki var það eins og hvert annað verk sem æft var; tenórinn dansaði um nóturnar, áreynslulaust þó svo ein nóta undir lok hvers erindis hafi tekið nokkuð á. Það var ekkert annað en áskorun og þetta var hið besta mál. Með þessum hætti var verkið æft nokkrum sinnum og það var að komast góð mynd á það.
Við þær aðstæður gerðist það allt í einu að einn sópraninn tjáði þá skoðun sína að sópranlínan lægi of lágt. Einhverjir fleiri sópranar tóku undir þessa skoðun.
Það vita þeir sem hafa sungið í kór, að það er ekki hægt að hækka þá línu sem ein rödd syngur, nema hinar hækki líka. Þar sem þarna var um að ræða athugasemd frá þungavigtarsópran varð það að ráði að stjórnendur hækkuðu verkið um heiltón, sem er alveg slatti (leiðr. það var hækkað um þríund, sem mun vera umtalsvert meira en heiltónn, sem gerir afrek tenóranna enn meira). Sannarlega myndi þetta þá einnig hækka háu nótuna sem áður er nefnd um heiltón (leiðr. þríund) líka.
Nú er það þannig, að tenórar eru í eðli sínu miklir sjentilmenn og þrátt fyrir mögulegar afleiðingar hækkunarinnar, tjáðu þeir sig tilbúna að takast á við verkið heiltón  (leiðr. þríund) hærra.
Í stuttu máli varð það úr og ekkert annað að gera en freista þess að pússa röddina einu þannig að ekkert brysti þegar á reyndi. Á æfingum gekk þokkalega að takast á við nótuna, ekki síst vegna þess að engir voru áhorfendurnir, en það var auðvitað alltaf ljóst að þegar stundin rynni upp á tónleikum, yrðu áhorfendur.  Það þarf ekkert að fjölyrða um, að það er í eðli tenóra að leggja sig ávallt fram um að röddin komist sem best til skila til áheyrenda og þá oft á kostnað þess hvernig þeir birtast áhorfendum.

Þá vík ég aftur að tónleikunum sjálfum og flutningi verksins.

Í þeirri útgáfu verksins sem þarna var skyldi flutt, syngur kórinn þrjú erindi, en inn á milli syngja sópran og tenór einsöng í millikafla.
Þar sem flutningur verksins var að hefjast; einsöngvarar, hljóðfæraleikarar, stjórnandi og kór klár, gerðist það, að tenórinn sem átti að fara að syngja einsöngsþátt sinn, ákvað að segja áhorfendum lítillega frá verkinu, sem var í góðu lagi auðvitað. Hinu var erfiðara að kyngja, að í kynningunni bað hann áhorfendur  að fylgjast sérstaklega með tenórunum í kórnum, því þeir fengju sko að taka á honum stóra sínum. Þarna varð því ljóst, að áhorfendur myndu einbeita sér að framgöngu tenóranna í þessu lagi, sem er auðvitað alltaf eðlilegt, en þarna gæti kastljósið mögulega sýnt flytjendur raddarinnar einu á heldur viðkvæmu augnabliki.

Flutningurinn hófst með tenórraddirnar í ofangreindum forgrunni. Ég, sem fyllti þarna flokk allmargra glæsilega uppsveitatenóra, var búinn að fara í gegnum leikskipulagið að svo miklu leyti sem ég myndi geta haft stjórn á því.  Ég hafði engar áhyggjur af áheyrendum, en gerði mér grein fyrir því að áhorfendur gætu mögulega orðið fyrir nokkru áfalli, en mér tækist ekki að halda tjáningu minni og innlifun í flutningnum í lágmarki.  Þarna varð að finna einhvern þann  meðalveg sem gæti talist ásættanlegur.
Tónninn nálgaðist og ég fann mig vera að missa tökin á  meðalveginum. Ég fann hvernig mér hitnaði smám saman í andlitinu (sem fól væntanlega í því að roði færðist yfir það). Þar sem tónninn eini datt inn fannst mér eins og allt andlitið færi sínar eign leiðir við að fylgja tóninum eftir, ýta honum úr hálsinum og yfir til áheyrendanna án efa á  kostnað upplifunar áhorfendanna.

Á hápunktinum fannst mér, að ténórinn sem beindi svo ljúflega athyglinni að raddfélögum sínum í kórnum, hefði betur valið sópraninn, sem þarna fékk að taka meira á því en til stóð í upphafi, nú eða altinum sem hafði haft orð á því að línan sem kom í hans hlut væri orðin og há, eða bassanum, sem bassaðist eins og hann bassast.

Þrátt fyrir ofangreint voru tónleikarnir harla skemmtilegir og þrátt fyrir að einsöngstenórinn hafi beint athygli áhorfenda svo óheppilega að röddinni einu, voru foreldrarnir í sópran og tenór afar stoltir af framgöngu síns manns.

Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja þetta verk læt é hér fylgja myndband þar sem kór Glerárkirkju flytur það. Ég tek eftir því að þar syngja tenórarnir umrædda nótu aðeins í 2. erindinu.


Ég veit til þess að tónleikarnir voru teknir upp og vonast til að geta skellt upptöku af þessu verki hér inn í fyllingu tímans.

1 ummæli:

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...