01 desember, 2015

Í auga stormsins, í Laugarási eða úlfur, úlfur!

"Maður er kominn á þann aldur að fara ekkert að þvælast út í einhverja óvissu og vita síðan ekki hvort maður kemst aftur heim í dag".  Ætli þetta hafi ekki, efnislega, verið spekin sem rann upp úr mér í morgun, þar sem miðlar af öllu tagi vöruðu fólk við að ana út í óvissuna. Það var gengið ansi langt í lýsingum á þeim ósköpum sem framundan voru.
Undirtektir við þennan málflutning minn voru óvenju jákvæðar og þar með varð til sú niðurstaða að heima skyldi setið og óveðrinu leyft að leika lausum hala úti fyrir.
Ákvörðunin var tilkynnt á viðeigandi stöðum, í ágætu veðri, lítilsháttar golu og hita sem var að mjakast yfir frostmarkið. Fyrir landið í heild sinni var þessi veðurlýsing kannski ekki nákvæm, en hún var það fyrir Laugarás. Ég hafði síðan í hyggju að bregða mér út fyrir Þorpið í skóginum þegar birti til að gá til veðurs sem gæti samsvarað því sem fjölmiðlar höfðu lýst, en ég gerði það reyndar ekki.
Það leið á morguninn, það hlýnaði heldur og það var líka eina breytingin sem við urðum vör við.
Það leið að hádegi, tímanum sem veðrið var sagt mundu verða í hámarki, en í Laugarási var stinningskaldi, úrkomulaust og hiti um 3 gráður.

Það er ástæðulaust að fjölyrða frekar um þetta mál: Hér hefur verið ágætis veður í allan dag, og reyndar ekki bara hér heldur á öllu svæðinu sem Laugarás tilheyrir.

Ég leit sennilega ekki vel út á vinnustaðnum í dag.

Ég velti fyrir mér hvaða ákvörðun ég muni taka næst þegar fjölmiðlar flytja boðskap færustu manna um ofasaveður um allt land og að fólki sé ráðið til að "halda sig heima, sé þess nokkur kostur".  Ætli verði ekki úr að Qashqai verði tekinn til kostanna í fullvissu um að allt svoleiðis veðurtal sé bara enn eitt fjölmiðlabullið.

Mér finnst líklegt að það sé ástæða fyrir öllum þessum varnaðarorðum: það sé betra að vara við af fullum krafti en að gera  minna úr en síðan verður raunin og sita uppi með ásakanir um að hafa ekki varað nægilega mikið við.
Kannski verður fólk ekki jafn reitt eftir að veðrið reynist minna en spáð var og þegar spáin gerir ráð fyrir skaplegu veðri sem síðan reynist óvitum í umferðinni þungbært.

Þarna þarf einhvern milliveg.





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...