28 mars, 2016

Að liðka til við Hliðið


"Þú ert að liðka til við Hliðið" varð föður mínum að orði fyrir allmörgum árum þar sem við sátum yfir kaffibolla og það kom til tals, að framundan væri messusöngur, eða "gigg" eins og það stundum  verið kallað nýlega. Síðan gamli maðurinn lét sér þetta um munn fara hefur það oft komið upp í hugann og hver veit nema í þessum orðum sé að finna eina ástæðu þess að ég komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hefja aftur þátttöku í kórstarfi á þeim vetri sem nú gefur hægt og rólega eftir fyrir enn einu vorinu.
Í gær, á páskadag lauk einhverri mestu kórsöngslotu sem ég hef tekið þátt í, og er þá langt til jafnað.
Ekki svo að mér hafi borið skylda til að mæta í öll þau skipti sem talin verða hér á eftir, en við fD ákváðum að taka þetta bara alla leið, ekkert hálfkák.
Mér þykir rétt að halda því til haga að þessi ákvörðun var ekki meðvitað tekin vegna þess að við værum svo gott fólk, heldur einhver önnur, sem erfiðara er að útlista og sem ég kýs að láta liggja milli hluta að mestu leyti.  Möguleg ástæða er sú, að á þessum vetri höfum við fundið aftur örla á því að kórfélagar taki þetta áhugamál sitt það alvarlega að þeir mæta öllu jöfnu á æfingar. Við vitum að öll, að til þess að kór nái að hljóma vel saman, þurfa kórfélagar að mæta á æfingar og skiptir þá engu hversu vel menntaðir eða færir þeir eru í tónlist.  Fyrir utan það, að með góðri æfingasókn verður til einhver samhljómur, þá verður einnig til ákveðin samkennd sem síðan leiðir til þess að fólki finnst ekki slæmt að vera í samvistum hvert við annað og hlakkar frekar til kóræfinga en eitthvað annað.

Hvað um það, lotan sem nú er búin, var svona:
Laugardagur 19. mars. kl. 14 -  Útför Gunnars Haraldssonar og hann var síðan jarðsettur á Stóru Borg í Grímsnesi.
Þriðjudagur 22. mars kl. 20 - Æfing fyrir  vikuna framundan og var þar, vegna fjölda verka sem framundan var að syngja, farið á hundavaði yfir sumt, sem ég reikna með að hafi tekið á hjá þeim kórfélögum sem ekki eru búnir að vera í bransanum árum saman.
Miðvikudagur 23. mars kl. 20 - Æfing með Söngkór Miðdalskirkju fyrir fermingarmessu á skírdag. Það kom til þar sem óskað hafði verið eftir  viðbótarfólki í þann kór, sem er smám saman að mjakast þá leið sem bíður allra á öllum tímum.
Fimmtudagur 24. mars kl 11 - Fermingarmessa það sem tveir piltar úr Laugardal staðfestu skírn sína.
Fimmtudagur 24. mars kl 20:30 - Messa/guðsþjónusta með svokallaðri Getsemanestund.
Föstudagur 25. mars kl. 16 -  Messa/guðsþjónusta í tilefni dagsins þar sem skiptust á lestrar út ritningunni og kórsöngur.
Laugardagur 26. mars kl. 14 - Útför Jóns Karlssonar frá Gýgjarhólskoti, en hann var jarðsettur í Haukadalskirkjugarði.
Sunnudagur 27. mars, páskadagur, kl. 14 - Hátíðarmessa.

Eins og hver maður getur talið þá lögðum við leið okkar átta sinnum í Skálholt á þessum tíma (tíu sinnum ef með eru taldar heilsubótargöngur).  Þar söng kórinn um það bil 30 mismunandi verk (sálma og aðra tónlist).

Það er fjarri mér að láta það líta svo út hér, að ég sé að kvarta yfir þessari miklu tónlistarviku. Þetta var bara ágætt og enn einusinni áttaði ég mig á því að ég væri lifandi hluti að einhverju.

Það var gott hjá sr. Agli, í upphafi messunnar í gær, að geta um og þakka fyrir framlag kórsins í vikunni, því þó fólk sinni kórstarfi vegna áhuga síns á söng þá er mikilvægt að það finni að það sem gert er sé þakkarvert.
-------------
Tenórröddin er auðvitað orðin enn mýkri og fegurri en hún hefur veið um langa hríð, þrátt fyrir að sá staður sem tenórnum er ætlaður hæfi ekki svo mikilfenglegri og mikilvægri rödd.  Það er eiginlega með eindæmum að hann hafi þurft að búa við svo slakar aðstæður svo lengi. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þær með svofelldum hætti:
Að baki organleikaranum er trébekkur, um það bil 30 cm hár.  Þessi baklausi trébekkur er fyrir aftan vel viðunandi stóla sópransins, en setan á þeim er um það bil 45 cm frá gólfi.  Augljóslega hefur þetta það í för með sér að mikið ójafnvægi myndast. 
Til þess að fegursta röddin fái notið sín verða þeir sem yfir henni búa, að príla upp á baklausan trébekkinn og standa þar með eins og turnar upp úr kvennafansinum fyrir framan.  Fyrir utan það að svo er háttað, getur hver maður ímyndað sér að príl upp og niður af trébekk í athöfn þar sem ekkert má fara úrskeiðis, er áhættuatriði, ekki síst þegar eigendur raddarinnar einu eru komnir á sjötugsaldur. Á þeim aldri vilja menn síður vera að príla mikið fyrir framan fulla kirkju af fólki. Það er fremur óvirðulegt, hæfir ekki röddinni og dregur athygli kirkjugesta frá henni yfir á prílið. Það má ætla að áheyrendur bíði frekar í spennu eftir því að prílið upp á eða niður af bekknum, endi með ósköpum, en að þeir hlakki til að heyra röddina hljóma og það er skaði..
Ég birti hér fyrir neðan tillögu mína að bekk sem hæfa myndi tenórum við þessar aðstæður. Þó það sjáist ekki á teikningunni, þá er, að sjálfsögðu gert ráð fyrir að bekkurinn sé vel bólstraður í bak og fyrir, til að tryggja nauðsynleg þægindi, því ekki viljum að að mikilvægasta röddin gjaldi þess að búa ekki við bestu aðstæður. 

Myndirnar sem notaðar eru til að lífga upp textann voru teknar fyrir og í lok páskamessu. Sú síðasta af Jóni Bjarnasyni leika útgöngutónlist.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er góð lýsing af kórstarfinu og framlag einstaklingar til þess. Þið stóðu ykkur með prýði og þakkir hlustanda eru öruggt. Hvað sætinn snerti þá mætti virkilega hafa betri atöðu fyrir ykkur. Sjálf hef ég oft setið þar og hlakkað í hvert skipti til þegar mátti standa upp til að syngja.

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...