28 mars, 2016

Í villum á páskadagsmorgni

Ég veit ekki hvað varð til þess að ég villtist í skóginum í gær. Ég hélt að það gæti ekki gerst og er ekki enn sannfærður um að það hafi gerst. Það gerðist samt mögulega. Hvernig gat það gerst? Er ég líklega farinn að missa eitthvað? Veit ekki.
Á páskadagsmorgni varð haldið í heilsubótargöngu eins og kveðið er á um.
"Ég er að fara út að viðra mig. Ætlar þú?" Þetta er nokkuð algengur aðdragandi að því að við fD höldum af stað í kraftgöngu út í ægifagurt umhverfi Þorpsins í skóginum. Í þetta sinn tók dóttirin á bænum þátt í göngunni, en að öðru leyti stefndi í ósköp hefðbundinn lið í heilsueflingunni. Ég tók reyndar með mér EOS-inn ef vera skyldi að ég fyndi færi á því, eina ferðina enn að festa á minniskort hans þá endalausu fegurð sem við blasir hvert sem litið er.
Þessu sinni lá leið í átt að brúnni, en þegar við komum að götunni sem liggur inn í Vesturbyggð (Skyrklettagata eða Ásmýri) gaf fD skýrt til kynna að hún hefði ákveðið að ganga þá leið, og gaf okkur hinum kost á að fara hana líka, en því réðum við að sjálfsögðu. Við fylgdum henni.  Leiðin lá framhjá Slakka og síðan upp götuna sem kallast Ásmýri á Google maps en Holtsgata á ja.is (svona er það með margar götur í Laugarási).

Þegar við vorum komin upp á brún brekkunnar í Holtsgötu ákvað fD að snúa við og ganga niður að á og þar einhverjar krókaleiði heim á leið. Ég ákvað hinsvegar að fara aðra leið, enda með EOS-inn með mér og 70-300 linsuna. Þarna skildi leiðir.  Ég og uG héldum þarna áfram, yfir brú á skurði og inn á Krosslandið (þar sem barnaheimili RKÍ var áður). Þaðan er einstakt útsýni yfir Hvítá og Vörðufell og ég skellti í panorama-mynd.

Síðan gengum við niður í kvosina þar sem barnaheimilið stóð, en minjar um það eru nánast engar, utan það sem ég tel hafa verið rotþró og sem sjá má á meðfylgjandi mynd.  Í framhaldi af rotþrórskoðuninni héldum við upp brekkuna í átt að Kirkjuholti, en þar uppi á brekkubrúninni má sjá fyrrum hliðstaur, veglegan, steyptan, sem markaði innkeyrsluna að Krossinum.


Það var eftir þetta, sem svo virðist sem ég hafi tapað áttum. Við ákváðum að ganga frá hliðstaurnum, og niður holtið, heim. Gekk vel til að byrja með. Á ákveðnum tímapunkti skildi þó leiðir, ég ákvað að fara aðeins sunnar og koma niður að Kvistholti þeim megin.  Áður en ég vissi af var ég kominn inn í skóginn og við mér blöstu feikna mikil grenitré og mörg þeirra  voru brotin eftir vetrarstorma, Eitt leiddi af öðru, ég sá sífellt fleiri brotin tré, hugsaði mér mér að það þyrfti nú að fara þarna upp með keðjusög og taka til. Það undarlega var, að þó svo mér fyndist þetta óvenju stór tré miðað við að ég væri í landi Kvistholts, kom það ekki upp í huga mér að ég væri bara hreint ekki þar.
Það var ekki fyrr en ég var kominn enn sunnar, að það blöstu skyndilega við mér byggingar, sem við nánair skoðun reyndust vera í Laugargerði. Þarna var eins og ég vaknaði upp úr einhverri leiðslu og snéri við á punktinum og hélt til baka í gegnum skóginn, sá glytta í íbúðarhúsið í Lyngási, en Lyngási tilheyra öll þessi brotnu tré. Enn hélt ég áfram og kom út á autt svæði. Það var eiginlega ekki fyrr en þá, að ég kveikti á því sem aldrei hefði átt að slokkna á: Það eru nánast engin tré efst í landi Kvistholts. En þarna var ég kominn heim og engin leið að villast eftir það.



Hér má sjá leiðina sem farin var í þessum villum:
Leiðin. Upphafspunkturinn er rotþróin sem um er rætt.

1 ummæli:

  1. Þetta var góð ganga hjá ykkur frábær yfirlitsmynd af umhverfinu. Sakna þess að geta ekki lengur farið á sama slóðir.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...