03 apríl, 2016

Hungur

Þeir sem telja sig vera góða í að lesa á milli línanna gætu mögulega ályktað sem svo, að mig hungri í að sjá "ástsæla" leiðtoga þjóðarinnar falla af stalli vegna ósæmilegrar framgöngu fyrr og nú, eða mig hungri í að öðlast hugarró með uppljóstrunarþætti sem verður sýndur á RUV í dag kl 18:00.
Þetta má svo sem vera satt og rétt, að minnsta kosti að því leyti að það leiðir hugann frá hungrinu, við og við.

Það er margt sem getur valdið hungri

Nú er ég á öðrum degi hungurs og vonast til að komast af þar til sú stund rennur upp að fái aftur að borða fasta fæðu. Ég læt liggja milli hluta tilefni þess að ég er hungraður og læt þá sem eru góðir í að lesa á milli línanna og móta samsæriskenningar um að velta því fyrir sér eða upp úr því. Þetta hungur er í það minnsta ekki tilkomið vegna þess að peningasending frá Tortóla tafðist.

Þessi hungurlota hófst með því að við fD fórum í kaupstað til helgarinnkaupa, s.l. föstudag. Ef allt hefði verið með eðlilegum hætti, hefðum við gengið úr versluninni með troðna poka af matvælum til næstu viku: mjólk, kjöt, brauð, ávexti, grænmeti.... nenni ekki að tína fleira til, vegna hungurtilfinningarinnar sem að kallar fram.
Ég var sérlega einbeittur þessu sinni við innkaupin, enda bara að kaupa fyrir mig, þurfti ekkert að spá í hvort fD mundi mögulega hafa áhuga á hinu eða þessu. Það er nefnilega þannig, að þegar ég tek frumkvæði í matarinnkaupum þá gerist það alla jafna, að þau matvæli renna jafnvel fram yfir síðasta neysludag, þar sem ég hafði ekki gert grein fyrir, með skýrum hætti til hvers og/eða hvenær ég hafði hugsað mér að þeirra skyldi neytt. Stundum bara langar mig í eitthvað, án þess að velta hinni praktísku hlið málsins meira fyrir mér.  En nóg um það.

Í umræddri verslunarferð keypti ég eftirfarandi: te, drikkeboullion, eplasafa, tæra bollasúpu og gosdrykki.  Ég gekk einbeittur framhjá girnilegum steikum í kjötborði, sælgtisrekkunum, snakkinu, ostunum og nýbökuðum brauðum og kökum.  Þann hluta lét ég fD eftir, en það kom fljótt í ljós, að hún, meðvitað, eða ómeðvitað, stefndi á einhverskonar samúðarhungur.

Þessi hungurvaka mín hófst síðan á laugardagsmorgni og stendur fram á miðjan dag á morgun, ef allt fer eins og ætlað er.
Tilfinningin, nú á öðrum degi, birtist fyrst og fremst í einhverskonar tómleika og vangaveltum um tilgang þessa alls. Það sem léttir svona aðgerð einmitt núna er ákveðin spenna vegna þess sem framundan er. Ekki hjá mér, ef einhver skyldi nú hafa lesið það á milli línanna, heldur hjá þessari þjóð, sem fékk víst ekki allar upplýsingarnar síðast þegar hún kaus.

Þar sem ég reyni að leiða hugann frá djöflatertunni minni með bananakreminu og þeyttum rjómanum, reyni ég sannfæra mig um að sú áþján sem þetta hungur er, sé jákvæð fyrir mig og mína. Í huganum og meira að segja beinlínis hvet ég fólk til að leggja þetta á sig.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...