07 apríl, 2016

Góður biti í hundskjaft

Orðtök geta verið skemmtileg og til þess fallin að skerpa á því sem sagt er. Mér hafa dottið nokkur í hug að undanförnu.
Í dag tók Sigurður Ingi Jóhannsson við embætti forsætisráðherra í þessu, að mörgu leyti undarlega þjóðfélagi okkar. Hve lengi honum tekst  að gegna því, veit ég ekki, auðvitað. Þetta getur verið upphafið að endinum á stjórnmálaferli Hreppamannsins eða upphafið á löngum og farsælum ferli. Það kemur allt í ljós og veltur á ótal fyrirsjáanlegum og síður fyrirsjáanlegum þáttum.

Það vill svo til að ég hef átt samleið með þessum pilti á tvenns konar vettvangi. Annarsvegar áttum við ágætt samstarf þegar uppsveitahrepparnir ákváðu að efna til kosninga um sameiningu sveitarfélaga í uppsveitum á 10. áratugnum. Þar sátum við báðir í nefnd sem hélt utan um undirbúning og kynningu á því verkefni. Hinsvegar hafa leiðir legið saman í gegnum aðkomu Sigurðar Inga að málefnum Menntaskólans að Laugarvatni, en þar hefur hann átt sæti í skólanefnd í óskaplega mörg ár og var formaður nefndarinnar um alllangt skeið. Velferð skólans hefur skipt hann miklu máli.

Sigurður Ingi er vandaður maður, traustur og svona eiginlega gegnheill, ef mér hefur tekist að lesa hann rétt. Ætli megi ekki lýsa honum einnig sem svo, að hann hafi virkað á mann sem þungavigtarmaður í bæði eiginlegum og óeiginlegum skilningi.

Ég varð hugsi þegar ég frétti af því að hann væri kominn í framboð fyrir þann flokk sem hann síðan hefur unnið sig upp innan. Það kom mér nokkuð á óvart, því hann hafði ekkert ýjað að hneigingu til stuðnings við neinn sérstakan flokk, eins og lenskan hefur verið meðal sveitarstjórnarmanna í uppsveitum. Ég var aldrei búinn að staðsetja hann í þeim flokki sem reyndin varð.

Við þær aðstæður varð mér á orði, í huganum, svo orðvar sem ég nú er: "Þar fór góður biti í hundskjaft!"
Áður en við var litið tók Sigurður Ingi síðan að rísa hærra og hærra innan þessa flokks, að mínu mati að stórum hluta í hópi sem var honum ekki sæmandi. Það var bara mitt mat auðvitað, þar sem ég fylgdist með eins og hver annar, litaður að eigin lífsskoðunum og getu til að lesa í fólk, sem auðvitað er umdeilanleg, eins og flest annað.
Framinn var hraður, miklu hraðari en venjulega gerist innan stjórnmálaflokka. Áður en við var litið var hann kominn á þing, orðinn varaformaður og síðan ráðherra og nú síðast forsætisráðherra.   Þá datt mér í hug annað máltæki: "Í landi hinna blindu er sá eineygði kóngur".

Ég hef haft það á tilfinningunni, að sá stakkur sem maðurinn hefur verið settur í, innan þessa flokks hvorki fari honum vel, né virðist þægilegur.  Þar sem hann stóð í stiganum í gærkvöld, við hlið viðskiptamanns sem var bólginn af hroka og ekki í jafnvægi, fann ég þessa tilfinningu enn skýrar.

Það sem ég óttast er, að ítök þess sem þurfti að hrökklast frá, verði til þess að koma í veg fyrir að Sigurður Ingi fái að njóta sín eins og hann er. Vonandi ber hann gæfu til að hrista þann skugga af sér.
Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...