12 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (3)

Ég ætla að helga Laugarási þennan síðasta hluta upphátthugsana minna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.  
Ég er sem sagt búinn að henda frá mér tveim hlutum. (1) og (2).

Laugarás er afskaplega sérstakur staður og yndislegur og byggðin þar bráðung á mælikvarða byggðar í landinu að öðru leyti.

Örsaga

Árið 1922 komst Laugarásjörðin í eigu... já, í eigu hvers og hvernig?  Enn sem komið er virðist mér sýslunefnd Árnessýslu hafa keypt jörðina, en vil ekki fullyrða um hvort eða hvernig, eða með hvaða skilyrðum uppsveitahrepparnir eignuðust hana undir héraðslækninn sem þá settist að í Laugarási. Hann hafði þá búið í Skálholti í einhver ár og þar áður í Grímsnesinu. Í samræmi við það kallaðist héraðið sem þessi læknir þjónaði, Grímsneshérað. Nafninu var síðan breytt á fimmta áratugnum, í Laugaráshérað, eða Laugaráslæknishérað.
1941 hófst uppbygging í Laugarási, að öðru leyti. Hún var mjög hröð á sjöunda og fram á áttunda áratuginn, eftir að Hvítárbrúin hafði verið byggð. Hvert garðyrkjubýlið af öðru var stofnað.

Þetta átti nú ekki að vera sögustund, sérstaklega, en mér fannst rétt að setja þetta í samhengi við það sem á eftir fer.

Hluti af uppsveitum

Laugarás er, landfræðilega í miðju byggðarinnar á svæðinu sem í daglegu tali er nefnt Uppsveitir Árnessýslu. Það var því ekki að ástæðulausu að læknissetri var valinn staður hér. Þessi staður virtist hafa möguleika til að vaxa og dafna á ýmsa lund og forystumenn í uppsveitum töluðu sumir fjálglega um alla þá möguleika sem blöstu við.

Þetta átti hinsvegar aldrei að verða og hefði svo sem átt að vera fyrirsjáanlegt.
Í staðinn fyrir að verða þessi blómlegi bær, reyndist Laugarás verða heit kartafla, sem enginn vildi afhýða. Hver hreppur fyrir sig hóf uppbyggingu síns þéttbýliskjarna og það þykist ég viss um, að allir hafa þeir, í gegnum tíðina litið á Laugarás sem nokkurskonar ógn.
Engan úr þessum sveitarfélögum hef ég nokkurntíma heyrt tala um, í einhverri alvöru, að uppbygging af einhverju tagi í Laugarási væri mikilvæg fyrir uppsveitirnar, enda væru þeir með slíku tali að grafa undan uppbyggingu innan eigin hrepps.

Það sem þó hefur verið reynt að gera, hefur ekki verið af heilum hug og yfirleitt rifið niður á endanum. Þar má til dæmis nefna fyrirhugaða byggingu á þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara á 10. áratugnum, í landinu þar sem barnaheimili Rauða krossins stóð áður. Þarna var um að ræða metnaðarfullar fyrirætlanir, sem á endanum voru talaðar svo niður að ekkert varð úr. Nágrannarnir vildu allir fá þetta til sín.
Nýjasta dæmið um þetta eru síðan hugmyndirnar um byggingu hjúkrunarheimilis, sem fóru af stað að frumkvæði kvenfélaga fyrir 2-3 árum. Sú umræða fór af stað af krafti, en áður en við var litið upphófust úrtöluraddirnar og ekkert varð úr neinu.

Að óbreyttu mun Laugarás halda áfram að byggja á því einvörðungu, sem íbúarnir skapa sér sjálfir, sem er að mörgu leyti ágætt. Ég fæ ekki betur séð en eigendum jarðarinnar sé talsvert í mun að tryggja að Laugarás fái ekki að vaxa og dafna að þeirra frumkvæði.

Forsenda eignarhalds brostin

Nú er Laugaráslæknishérað ekki lengur til og heilsugæslan orðin hluti af Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Með þessu má segja að forsendan fyrir eignarhaldi uppsveitahreppanna sé horfin og þeir hafa enga ástæðu til að eiga Laugarásjörðina lengur.

Biskupstungnahreppur áður og Bláskógabyggð nú, hefur það hlutverk að halda utan um þessa sameign og ber á henni ábyrgð, enda jörðin landfræðilega í því sveitarfélagi.
Það má í raun segja alveg það sama um Bláskógabyggð að hina eigendur jarðarinnar. Sveitarfélagið vill sem minnst af Laugarási vita, telur sig (auðvitað ekki í orði) eiga nóg með hina þéttbýliskjarnana sína tvo.  Nú hefur þessi "sameining" hreppanna þriggja staðið í 16 ár og enn snýst flest um einhverskonar helmingaskipti. Enn er flest litað af því að raunveruleg sameining er ekki orðin og fyrir hendi vantraust á ýmsum sviðum, sem síðan er reynt að fjarlægja með tilheyrandi kostnaði fyrir allt samfélagið.

Von í óvissunni

Það liggur ýmislegt í loftinu í Laugarási um þessar mundir. Það eiga sér stað ánægjulegar breytingar með fólksfjölgun á síðustu árum og heyrst hefur að einhver(jir) eigenda jarðarinnar vilji selja hana.

Ég verð nú að segja það, að ég tel slíka sölu geta verið talsvert gæfuspor fyrir Laugarás. Ég held raunar að hvaða eigandi sem væri, myndi fara betur með þessa eign sína, en núverandi eigendur hafa gert.
Í gegnum eignarhaldið hefur hreppunum tekist að halda aftur af þróun byggðar í Laugarási með því að beita áhrifum í gegnum svokallaða oddvitanefnd. Þar með tel ég Biskupstungnahrepp og síðar Bláskógabyggð. Þetta myndi auðvitað enginn viðurkenna.

Með sölu á jörðinni, líklegast til Bláskógabyggðar, hefðu þessir aðilar ekki lengur þetta tangarhald og  þannig gæti Bláskógabyggð ekki lengur skýlt sér á bakvið það að jörðin væri sameign allra hreppanna.

Já, það getur verið gaman að velta hlutum svona fyrir sér.

Nýtt kjörtímabil

Nú sé ég fyrir mér að næsta kjörtímabil, verði kjörtímabilið þegar þegar fólk fer að fjalla um Laugarás, Laugarvatn og Reykholt í sömu andrá, án þess að blikna.
Ég sé fyrir mér að ég muni ekki lengur tala út í tómið þegar ég nefni Laugarás á nafn, eða fjalla um þau málefni sem þar skipta máli.

Maður verður að vera bjartsýnn og vona það besta.


Auk þess legg ég til......

Svo legg ég til svona í lokin, að við sameinumst öll um að berjast fyrir byggingu dvalar- og hjúkrunarheimilis og/eða þjónustuíbúða fyrir aldraða í Laugarási til ómældra hagsbóta fyrir uppsveitirnar allar og styrkingar á heilbrigðisþjónustu almennt, á svæðinu.


Ástæða til að kíkja á þetta:Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Jósefína Friðriksdóttir - minning

Við Jósefína kenndum saman í Reykholtsskóla við upphaf 9. áratugarins, þegar ég var að stíga fyrstu skref mín sem kennari og það gekk allave...