15 maí, 2018

Skurðir

Þegar ég hugsa til baka, finnst mér ekkert hafa verið í umhverfinu hér í Laugarási, sem taldist stafa hætta af. Það hefur ef til vill bara verið vegna þess að ég áttaði mig ekki á því. Þá rann opnn hveralækur með yfir 90°C heitu vatni á löðarmörkunum í Hveratúni, þeim sem snúa að brekkunni. Auðvitað var það svo Hvítá sjálf, þetta jökulfljót nánast við bæjardyrnar.
Ekki minnist ég þess að nokkurntíma hafa foreldrar mínir sett okkur einhverjar sérstakar hömlur í kringum þessar hættur í umhverfinu. Sannarlega voru þarna lífshættulegir staðir, sem eru það enn.
Ekki tel ég að við fD höfum verið sérstaklega á varðbergi gagnvart hættunum í umhverfinu þegar okkar börn voru að alast upp hérna. Það kann að sýna ábyrgðarleysi okkar.

Það eru mörg ár síðan og margt hefur breytst, ekki síst umhverfið. Nú er hverasvæðið að mestu varið fyrir umgangi, þó með góðum vilja geti fólk farið sér þar að voða enn.
Það sem hefur breyst umtalsvert er , að skurðirnir sem grafnir voru á lóðamörkum, þessir fínu skurðir sem gerðu mýrina byggingar- og ræktunarhæfa, eru orðnir gamlir og þreyttir.
Skurðir æsku minnar eru margir hverjir orðnir að einhverjum sakleysislegum dældum, en skurðirnir sem aðskilja lóðirnar sem voru byggðar síðar, eru nú margir hverjir orðnir stórhættulegir.

Mér hefur skilist að viðhald þessara skurða sé á ábyrgð leigutaka á þessum lóðum (vil þó ekki fullyrða um það), en það má öllum vera ljóst, að það þarf mikið að koma til til að þeir taki sig til og lagfæri þá þannig að hættulausir verði.

Það hefur orðið nokkur umræða um skurðamálin hér í Laugarási á undanförnum misserum eftir að hundar hafa lent í þeim og drepist eða brunnið svo þurfti að aflífa (auðvitað á heitt vatn undir engum kringumstæðum að renna í þessa skurði). 

Satt er það, við verðum að varast að gerast ekki of dramatísk í þessu sambandi. Við vitum öll af þeim hættum sem þarna eru, hegðum okkur í samræmi við það og vonum hið besta. Við vitum það jafnframt að vonin ein lætur vandann ekki hverfa.

Það er kominn tími til að leita lausna.

Ég teiknaði að gamni mínu inn á kort (sjá myndina) þá skurði sem ég þykist vita að eru opnir og margir hálffullir af vatni (ég veit af mörgum öðrum skurðum sem þarf að loka, en lét þessa duga í bili).. Þá litaði ég rauða. Ég set grænt á þá skurði sem hafa verið teknir í gegn.

Ég myndi vilja sjá þarna samstarf jarðareiganda og leigutaka um að loka þessum skurðum svo sómi sé að, hvað sem líður ákvæðum samnings (ef þar er að finna ákvæði um þetta, en ég finn minn samning ekki í augnablikinu og vil því ekki fullyrða of mikið).

Jarðareigandi á dágóðan sjóð og gott samstarf hans við leigutakana gæti komið þessu í ásættanlegan farveg.  Ég held að það geti verið þess virði, áður en eitthvað mögulega gerist sem við viljum ekki einu sinni hugsa til.





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...