19 maí, 2018

Ekki vera neikvæður

Sammála er ég því að það er skemmtilegra að vera jákvæður en neikvæður, í þeirri merkingu sem maður leggur alla jafna í þau orð.
Það er sérlega gaman þegar maður fær að heyra hvað maður sé nú jákvæður, sem í mínu tilviki gerist reyndar afar sjaldan. Að sama skapi er fremur leiðinlegt að fá það framan í sig að maður sé neikvæður: "Vertu nú ekki svona neikvæður!"

Áður en lengra er haldið ætla ég aðeins að tjá þá skoðun mína, að það geti verið varhugavert að vera jákvæður, jafnvel neikvætt. Að sama skapi getur verið afar gagnlegt að vera neikvæður, jafnvel jákvætt.
Allt fer þetta eftir samhengi hlutanna, eins og svo oft er nú.


Þú geymir Skálholt, ...
Nú eru kosningar framundan, sveitarstjórnarkosningar, þar með einnig í þessum litlu hreppum okkar í uppsveitunum. Það eru einmitt þær sem valda því að ég velti þessum tveim hugtökum fyrir mér: jákvæðni og neikvæðni í samhengi við hugtökin gagnrýnisleysi og gagnrýni.

Þar sem við höfum valið okkur bústað þykir gagnrýni á sveitarstjórn ekki lýsa sérlega sérlega mikilli jákvæðni. Ástæða þess er einföld: við þekkjum oftar en ekki, fulltrúa okkar í sveitarstjórn persónulega og við slíkar aðstæður getur orðið erfitt að aðgreina gagnrýni á stefnu, aðgerðir eða aðgerðaleysi sveitarstjórnar, og þær persónur eða þá einstaklinga sem í sveitarstjórninni sitja.
Það er frekar ríkt í okkur, að gagnrýna ekki opinberlega fólk sem við þekkjum, þekkjum jafnvel vel. Sömuleiðis er það ríkt í sveitarstjórnarfólki í fremur fámennum samfélögum, að taka allri gagnrýni á störf sveitarstjórnar, persónulega. Því kann að finnast gagnrýnin beinast að sér, fremur en einhverri stefnu eða stefnuleysi þess hóps sem það er fulltrúi fyrir.

... Þingvöll, ...
Það fólk sem setur fram gagnrýni á sveitarstjórn eða stöðu samfélags, telst vera fremur neikvætt fólk. Þeir sem gagnrýna ekki og láta sem allt sé í "gúddí" tilheyra hópi jákvæða fólksins.

Þegar hér er komið, vil ég fullyrða, að ef engin væri gagnrýnin, eða neikvæðnin myndi kyrrstaðan ríkja og deyfðin, aðgerðaleysið og metnaðarleysið.  Þar fyrir utan tel ég auðvitað af ef minnihluti í sveitarstjórn er samsettur af ákaflega jakvæðu fólki, geti það verið harla neikvætt fyrir samfélagið.

Ráðið til þess að gagnrýni, neikvæðni ef það er orðið sem fólk kýs að nota, fái notið sín sem slík, tel ég að það þurfi að færa valdið (sveitarstjórn) lengra frá fólkinu sem kýs. Sveitarstjórnarfólk á að tilheyra mismunandi pólitískum stefnum þar sem það er stefnan, aðgerðirnar eða aðgerðaleysið sem situr undir gagnrýni, en ekki einstaklingarnir sem eru fulltrúar fyrir hana. Hér er ég ekki endilega að tala um að það þurfi að vera einhverjir stjórnmálaflokkar að baki, heldur frekar lífsskoðanir: fólk sem telur sig aðhyllast félagshyggju gætu komið sér saman um framboð, þá einnig talsfólk einstaklingsfrelsisins og loks þeirra sem þar væru mitt á milli. Kjósendur eiga á því rétt, að vita hvar á þessu rófi framboðin eru. Að mínu mati vantar mikið upp á hjá þeim framboðum sem okkur standa til boða  fyrir þessar kosningar.

Með því að færa valdið fjær fá mismunandi stefnur að takast á og bera málefni sín upp fyrir kjósendur í aðdraganda kosninga.  Það er bara það sem lýðræðið gengur út á og á að ganga út á: val milli mismunandi stefna, frekar en val milli einstaklinga eða búsetu einstaklinga, sem ekkert gefa upp um fyrir hverju hjörtu þeirra slá.

... Haukadal.
Ég get lýst því yfir, að ég tel að næst á dagskrá sé sameining allra sveitarfélaga í Árnessýslu í eitt.

Ég get jafnframt lýst því yfir, að ég er orðinn bara nokkuð þreyttur á þeirri hreppapólitík sem tíðkast í uppsveitum Árnessýslu, þar sem menn vegast á um hin og þessi framfaramálin, sem síðan verða að engu.  Neiti því hver sem vill að svona sé og hafi verið staðan.

Já, já, sjálfsagt munu margir verða til þess að hrista höfuð yfir þessu "neikvæðnirausi" í mér. Ég kýs hinsvegar að líta að þetta litla framlag mitt í umræðuna sem merki um nauðsynlega jákvæðni af minni hálfu.  Ég er jákvæður fyrir hönd þessa svæðis, fái það yfir sig stjórn sem lítur það frá víðara sjónarhorni en raunin er við óbreytt ástand.

Mér er hulið hvernig Bláskógabyggð komst að þeirri niðurstöðu að hafna þátttöku í sameiningarviðræðum við önnur sveitarfélaög í Árnessýslu. Engin rök hef ég séð fyrir þeirri ákvörðun og ekki veit ég til að leitað hafi verið álits íbúanna á henni, í það minnsta var ég aldrei spurður.





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...