11 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (2)

Í fyrsta hluta velti ég upp ýmsum staðreyndum varðandi fyrri kosningar í þessu löngu sameinaða sveitarfélagi, Bláskógabyggð. Ég tæpti á því að enn væri ekki komið á það traust innan þessa sveitarfélags, að fólk geti farið að hugsa eftir öðrum nótum en þeim birta þrjá mismunandi hreppa, eða svæði. Mér finnst kominn tími til þess og þó fyrr hefði verið.
Sættum okkur bara við það að við tilheyrum einni stjórnsýslueiningu, sem ber að huga að og sinna jafnt ÖLLUM þáttum og kimum. Einungis þannig myndast sátt.

Ef ég nú kýs að líta framhjá uppruna frambjóðenda á listunum þrem, hver ættu þá viðmið mín að vera?  Ég veit það fyrirfram að allir vilja sveitarfélaginu hið besta, í það minnsta í orði. Við þurfum ekki að fara í grafgötur með það, því það viljum við öll.

Málefnin
Ef ég kýs að líta framhjá uppruna frambjóðendanna, gæti ég reynt að finna út hvað það er nákvæmlega, sem aðgreinir framboðin. Er það eitthvað? Birtast þar einhver áhersluatriði sem ættu að leiða mig að einu framboði frekar en öðru? Er þetta ef til vill bara svona snakk um metnaðarfullt starf eða metnaðarfullar hugmyndir, sem meira og minna vísa út og suður? Má greina einhverja eina línu sem einkennir hvert framboð og greinir þau frá hvert öðru?
Ég held bara ekki, svei mér þá.

Meirihluti og minnihluti
Eftir kosningar verður til meirihluti og minnihluti í sveitarstjórn. Það er eitt megin hlutverk minnihlutans að veita aðhald, spyrja, gagnrýna.  Minnihlutinn á að setja spurningamerki við allt. Það sem hann samþykkir, samþykkir hann. Hann berst gegn því sem hann er andvígur. Þannig á þetta að vera þar sem hópar með mismunandi stefnu eða sýn á samfélagið hafa verið kjörnir til að fara með málefni sveitarfélags í heil fjögur ár.
Ef maður á í erfiðleikum með að greina hver tilheyrir hvaða lista eða listabókstaf, þá finnst mér þetta ekki alveg vera að gera sig (Ég hef og þurft að hugsa mig nokkuð lengi um varðandi Þ og T).

Ef allir eru bara á sömu nótum er hætt við að ákvarðanir séu teknar, sem ekki eru nægilega vel ígrundaðar og þá vaknar spurningin um hvort, þegar upp er staðið, snúist framboðin eða listarnir um eitthvað annað en einhverja stefnu sem greinir þau hvert frá öðru.

Það sem ég er að reyna að segja er, að til þess að til staðar sé minnihluti og meirihluti í sveitarstjórn, þarf að vera til ólík stefna í veigamiklum málum.
Auðvitað eru flest mál sem koma á borð sveitarstjórnar samþykkt samhljóða þar sem þau eru þess eðlis. Önnur snúast um grundvallaratriði af  ýmsu tagi, og ættu óhjákvæmilega að kalla á átök.  Til að útskýra aðeins hvað ég á við með því, vil ég t.d. nefna umhverfismál, sem eru einn mikilvægasti málaflokkur samtímans, hvar sem er. Í þessu sveitarfélagi eru skoðanir vísast mjög skiptar um þennan mikilvæga málaflokk, en svo virðist mér ekki hafa verið í þeirri sveitarstjórn sem nú situr. Þar virðist mér allir ganga í takt, hvar í flokki sem eru.

Nei, ekki held ég að sé einfalt mál að velja sér lista til að kjósa út frá málefnunum.

Ef maður vill horfa framhjá bæði heimilisfangi frambjóðenda og málefnaskrám framboðanna, hvað getur maður þá látið ráða atkvæði sínu?

Framsókn og íhald
Það hvarflar æ oftar að mér, að skást væri að bjóða fram pólitíska lista með öllum þeirra göllum. Við búum ekki lengur í samfélagi þar sem allir þekkja alla eins og áður var. Ég spurði einhverntíma hvar fólkið í sveitarstjórninni stæði í pólitík og fékk það svar að þar væri ekkert nema íhald og framsókn í einhverjum hrærigraut. Ég veit svo sem ekki hvað er satt í því. Hinsvegar finnst mér óþægilegt að vita ekki um grundvallarviðhorf þeirra sem í framboði eru til að ráða málum okkar. Finnst ég reyndar eiga rétt á því, sem kjósandi. Það skiptir mig engu mál hver hjúskaparstaðan er, eða hve mörg börnin eru, eða hvernig bíllinn er á litinn. Ég vil vita hvar þeir standa á hinu pólitíska litrófi.
Það breytir kannski engu alla jafna, en stóru málin snúast alltaf um grundvallaratriðin og þá reynir á lífssýn, eða hugsjónir.
Ég vil geta valið fólk til sveitarstjórnar, sem hefur svipuð grunngildi að þessu leyti og ég. 
Mér finnst það virðingarvert að nú er komið framboð í Hrunamannahreppi þar sem fólk lætur vita fyrirfram fyrir hvað það stendur í þessum efnum.

Ekki hefur mér heyrst að við Bláskógabyggðarbúar séum tilbúnir að fara þessa leið.
Hvað er þá eftir, sem gæti aðstoðað okkur við að finna framboð sem við gætum talið einna skást.

Persónur
Auðvitað stendur þessi möguleiki eftir. Á einhverjum listanna eru einn eða tveir sem ég myndi treysta til að sitja í sveitarstjórn umfram einhverja aðra og kýs því listann hans. Í mínum huga er þetta afar veikburða forsenda fyrir vali að framboðslista.
Þó að ég finni einn frambjóðanda sem afar vandaður einstaklingur í alla staði, er ekki þar með sagt að það sama megi segja um meðframbjóðendur hans. Hverjir eru þeir, hvaðan koma þeir, fyrir hvað standa þeir? Jú, við fáum ef til vill að vita um barnafjöldann eða áhuga þeirra á hrossum eða kórsöng. Það sem við þyrftum að vita um þá er kannski ósagt. Þar dettur mér í hug hagsmunir af hinu og þessu. Hefur frambjóðandinn persónulegan hag af ákvörðunum sveitarstjórnar?  Ákvörðunum sem kunna að reynast honum hagfelldar, en baggi í sveitarfélaginu að öðru leyti?

Ef persónur eiga að vera helsta viðmiðið við val á lista, tel ég að fyrir þurfi að liggja skrá yfir alla hagsmuni viðkomandi, sem mögulega kunna að hafa áhrif á störf hans í sveitarstjórn.

Sannarlega ætla ekki ég því fólki sem situr í sveitarstjórn nú, eða sækist eftir sæti í þeirri næstu, að sigla undir einhverju fölsku flaggi. Ég er hinsvegar að halda því fram að við eigum að hafa svo glöggar upplýsingar sem mögulegt er um frambjóðendur, áður en við ákveðum hvernig við ráðstöfum atkvæðum okkar. Við þekkjum ekki allt þetta fólk sem býður sig fram.

Eftir hverju kjósum við í raun?
Nú er ég búinn að fara yfir helstu forsendur sem ég tel að kjósendur í Bláskógabyggð horfi til. Tveggja þeirra held ég að flestir horfi til umfram aðrar: búsetu frambjóðenda, annarsvegar og hverjir þeir eru, hinsvegar. Með öðrum orðum, þá tel ég ekki að metnaðarfullar málaskrárnar breyti miklu, enda fremur loðnar, teygjanlegar og líkar.
---------
Ég hyggst efna í einn kafla í viðbót og beina þá sjónum að málefnum þorpsins í skóginum, í samhengi við tilveru þess innan sveitarfélagsins Bláskógabyggðar.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...