10 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (1) (kannski)

Það er rétt að taka það fram í upphafi, að ég bý í Laugarási. þar með fjarlægi ég þá mögulegu gagnrýni.

Ég neita því ekki, að það hefur nokkrum sinnum hvarflað að mér að nýta ekki nánast heilagan rétt minn til að greiða atkvæði við kjör til sveitarstjórnar í Bláskógabyggð.
Það hvarflar að mér nú.
Ég kýs að nota þennan vettvang minn til að velta fyrir mér hvað það er helst sem veldur áhugaleysi mínu fyrir þessar kosningar.
Ég ætla að reyna að hugsa upphátt, hvert sem það leiðir mig nú. Ég ætla að reyna að sneiða hjá gagnrýni á það ágæta fólk sem býður sig fram til starfa á þessum vettvangi (þó vissulega megi gagnrýna það á ýmsa lund), en einbeita mér frekar að því ástandi sem er í Bláskógabyggð.

Þrír hreppar sameinast árið 2002.

Biskupstungnahreppur, Laugardalshreppur og Þingvallahreppur gengu í eina sæng og hið nýja sveitarfélag hlaut nafnið Bláskógabyggð.
Ég var aldrei sáttur við þessa sameiningu vegna þess að mér fannst hún of lítil. Ég sá það fyrir, sem síðan gekk eftir, að mínu mati: öll orka sveitarsjórnar færi í að hafa íbúa þessara þriggja sveitarfélaga að mestu góða. Síðan eru 16 ár. Enn í dag heyri ég í óánægðum Laugdælum, sem telja Tungnamenn hafa gleypt allt. Ég sjálfur tel, að Laugarás hafi verið sett lengra út á kantinn en þorpið þó var fyrir þessa sameiningu.
Ekki veit ég hver viðhorf annarra Tungnamanna eða Þingvellinga eru til þessa.

Þegar sameiningin var framkvæmd var íbúafjöldinn í sveitarfélögunum þrem þessi (2001):
Biskupstungnahreppur: 659
Laugardalshreppur : 252
Þingvallahreppur: 39
Árið 2002 voru íbúar í Bláskógabyggð 887. Nú (2018) eru þeir 1115. Hefur fjölgað um 228.

Hvernig hefur svo íbúafjöldinn á þéttbýlisstöðunum þrem þróast?
                                    2002                2018            breyting
Reykholt                       145                  270              +125
Laugarás                       133                  116               - 17
Laugarvatn                   150                   191              + 41


Laugarás fékk fulltrúa í sveitarstjórn í þessum fyrstu kosningum. Hinir 6 voru þrír sem komu úr Laugardal og þrír úr Biskupstungum (utan Laugaráss).

Í kosningunum 2006 komu þrír fulltrúar úr Biskupstungum, þrír úr Laugardal og einn frá Þingvöllum. Enginn fulltrúi úr Laugarási.

Næst var kosið 2010. Þá settust 4 fulltrúar úr Biskupstungum í sveitarstjórn, 2 Laugdælir og 1 Þingvellingur. Enginn úr Laugarási.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum (2014) varð niðurstaðan sú, að 3 fulltrúar komu úr Biskupstungum, 3 úr Laugardal og 1 frá Þingvöllum.  Engan fulltrúa átti Laugarás.

Kosningarnar framundan

Í komandi kosningum virðist nú vera gerð tilraun til að brjóta upp þetta tveggja lista fyrirkomulag sem hefur verið við líði frá sameiningu. Það er kominn fram nýr listi, N-listinn.

Ég lék mér að því að skoða samsetningu listanna þriggja og miða í því við 7 efstu sætin. Sæti þeirra sem eiga fræðilega möguleika á að setjast í sveitarstjórn að loknum kosningum.

Alslemm: 
Verði úrslit kosninganna þannig að einn listi fái alla fulltrúana, myndi svona fólk sitja í næstu sveitarstjórn:

N-listi: 5 Laugdælir, 2 Tungnamenn (þar af 1 úr Laugarási)
T-listi:  2 Laugdælir, 4 Tungnamenn, 1 Þingvellingur (enginn úr Laugarási)
Þ-listi:  3 Laugdælir, 4 Tungnamenn (þar af 1 úr Laugarási).

Þetta gerist nú sennilega ekki. Líklegra að ástandið verði óbreytt, þar sem við íbúar Bláskógabyggðar erum talsverðir hefðarsinnar og lítið fyrir grundvallarbreytingar. Samt metnaðarfullir, að eigin mati, sýnist mér á stefnuskrám.

Óbreytt
Verði niðurstaðan óbreytt hlutfall, sem er líklegast, munu fá sæti í sveitarstjórn:

3 Laugdælir, 3 Tungnamenn, 1 Þingvellingur  (enginn úr Laugarási).

Tapi meirihlutinn einum manni til Þ-lista:
2 Laugdælir, 4 Tungnamenn, 1 Þingvellingur (enginn úr Laugarási).

Auðvitað er hægt að halda svona áfram lengi, en ég sleppi því.
Ég þykist viss um að ýmsa muni langa til að fjargviðrast út þessari áráttu minni að flokka frambjóðendur eftir upprunastað þeirra og að með því sé ég að kynda undir klofningi innan sveitarfélagsins. Þeir mega alveg fjargviðrast, mér að meinalausu. Ef ekki þessar forsendur, hvaða forsendur á ég þá að notast við þegar ég þarf að velja á milli þessara framboða? Ekki virðast það vera hugsjónir sem aðgreina þau.

Ég ætla kannski að velta mér aðeins upp úr því næst.Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...