Ætli ég verði ekki að biðjast velvirðingar á svo skelfilegri fyrirsögn, en mér fannst bara að hún hlyti að vekja nokkra athygli, enda er hún alveg sannleikanum samkvæm ef það er lesið sem á eftir kemur.
Ég hef áður fjallað um hótelabæinn Laugarás, en hér hefur verið starfrækt hótel með þrem mismunandi nöfnum frá því sláturhúsið var selt fyrir allmörgum árum. Hér var fyrst Hótel Iðufell en við af því tók Hótel Hvítá og s.l. sumar kallaðist það Hótel Laugarás.
Ekki veit ég það fyrir víst, en mér skilst að banki eigi nú þetta stóra hús sem stendur á bakka Hvítár, rétt fyrir neðan glæsilega Hvítárbrúna. Þetta hús er nú, að því er virðist, yfirgefið. Á hressingargöngu okkar fD um helgina síðustu létum við verða af því að láta gönguleiðina liggja um hlaðið á sláturhúsinu (það hefur aldrei verið kallað annað hér í Laugarási). Við létum meira að segja verða af því að leggja andlit að rúðu hér og þar.
Í þann mund er athugun okkar á aðstæðum lauk, smellti fD fram þeirri hugmynd þarna væri kjörinn staður til að koma upp dvalar- og hjúkrunarheimili. Auðvitað er það hárrétt athugað. Húsnæðið er tilbúið að hluta til og enginn vafi á að þarna væri að að útbúa ágætan stað til að eyða síðustu æviárunum. Þar fyrir utan myndi starfsemi af þessu tagi styrkja mög heilsugæslustöðina sem er í 500 metra fjarlægð, svo ekki sé nú talað um þorpið sjá´lft, sem sannarlega veitir ekki af að fara að þróast áfram.
Ætli séu ekki eitthvað um 15-20 ár síðan hrepparnir sem stóðu að Laugaráslæknishéraði fóru af stað með metnaðarfullar hugmyndir um byggð fyrir eldri borgara á svipuðum slóðum og barnaheimili Rauða krossins stóð á sínum tíma. Þessar hugmyndir voru komnar svo langt, að það var búið að byggja sýningarhús. Samstaðan um verkefnið brast og ekkert varð úr þessu, því miður.
Ég beini því hér með til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu, að þessir aðilar sameinist um að húsið verði keypt og það síðan aðlagað að þörfum dvalar- og hjúkrunarheimilis fyrir aldraða.
Auðvitað hangir fleira á spýtunni og það lýtur ekki síst að því hve nærri mér sjálfum pælingar um heimili af þessu tagi eru nú. Fyrir utan gamla unglinginn hann föður minn, þá veit ég um fjölmarga eldri borgara af svæðinu hér í kring sem hafa þurft að flytjast á Selfoss, Stokkseyri, Hveragerði eða Hellu þegar sá tími hefur komið. Það hjúkrunarheimili sem mér vitanlega starfar nú í uppsveitunum er á Blesastöðum, en það hýsir fremur fáa einstaklinga, að mér skilst.
Þar fyrir utan lít ég auðvitað svo á að ekki sé ráð nema í tíma tekið með mig, kominn á þennan aldur.
Ég skal styðja við að þessi hugmynd fái framgang, eins og mér er unnt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Frétt nýlega að Byggðastofnun ætti húsið og að það væri búið að dæma það ónýtt.
SvaraEyðaEf húsið er ónýtt er lóðin enn til staðar og jafn langt í heilsugæsluna eins og Palli nefndi í skrifum sínum.
SvaraEyðaÞað er sannarlega þörf á að koma á laggirnar dvalar og hjúkrunarheimili fyrir "H"eldri uppsveitarmenn nálægt heimahögunum, ættingjum og vinum.
Það myndi líka tryggja líf heilsugæslunnar hér í uppsveitum sem búum hér okkur svo nauðsynleg.
Kv. Heiða.
Sér búið að dæma húsið ónýtt þá er væntanlega ýmislegt í stöðunni.
SvaraEyða1. Láta húsið grotna niður - sem er auðvitað ekki ásættanlegt.
2. Fjarlægja það - hver bæri slíkan kostnað.
3. Eigandinn afhendi hús og lóð eigendum Laugarásjarðarinnar til umsýslu (þetta er eini hluti Laugaráslandsins sem er ekki í eigu landeigenda). Þetta þætti mér góður kostur og til þess fallinn að eitthvað gerist þarna (ef vilji reynist til).
4. Nýr eigandi velur annað hvort að rífa húsið og fjarlægja með það í huga að byggja upp aftur, eða þá að gera úttekt á því hver kostnaður væri við nauðsynlegar endurbætur og uppbyggingu núverandi húss.
Mér fyndist algerlega óásættanlegt að ekkert yrði gert.
Hér tala ég auðvitað án þess að vita allar staðreyndir máls, var fyrst að frétta hjá þér Ásborg hver núverandi eigandi er. :)
Þetta er alls ekki galin hugmynd. Húsið er alls ekki ónýtt en vissulega er það í mjög döpru ásigkomulagi... Það kostar eflaust álíka að koma þessu í ásættanlegt horf eins og að byggja nýtt. Hvað um það... staðsettningin er algjörlega tilvalin!
SvaraEyða