Gegnum árin hefur handbolti orðið nokkurskonar þjóðaríþrótt og hér hafa orðið til leikmenn og þjálfarar sem hafa náð afburða árangri. Fyrir nokkrum árum sá Forseti Íslands ástæðu til að sæma landsliðsmenn í þessari grein Fálkaorðunni, við hátíðlega athöfn. Fálkaorðan er virðingar- og þakklætisvottur sem forsetinn afhendir fyrir hönd þjóðarinnar. Því er haldið að okkur að þarna séu á ferð strákarnir okkar, strákar þjóðarinnar.
Ég ætla alls ekki að gagnrýna karlalandsliðið í handknattleik, sem nú keppir á heimsmeistaramóti fyrir hönd þjóðarinnar.Umfjöllun um það væri á allt öðrum nótum.
Ég gagnrýni það, að til þess að geta fylgst með leikjum liðsins í stórmótum verð ég að velja milli þriggja möguleika:
a. kaupa áskrift sem er núna, samkvæmt upplýsingum sem ég fann á vefnum, rétt tæpar 7000 kr fyrir einn mánuð.
b. hlusta á lýsingu á leikjunum á Rás 2.
c. Finna einhvern straum á vefnum og horfa á leikinn þar, jafnvel með sérdeilis skemmtilegum arabískum lýsendum.
Auðvitað hef ég vel efni á því að kaupa mánaðar áskrift að Stöð 2 sport. Ég geri það samt ekki.
Ástæðurnar eru þessar helstar:
a. Ég get verið einstrengingslegur á sumum sviðum, ekki síst þegar mér finnst mér vera misboðið. Svo erum um þá staðreynd að landsleikir skuli vera sýndir í áskriftarsjónvarpi og þar með snúist þetta um hvaða stöð bauð best í réttinn til að sýna frá þessum leikjum. Ég er Íslendingur, hef áhuga á að fylgjast með landsleikjum og á að hafa sama rétt til þess og hver annar, óháð efnahag, búsetu eða aldri. Ef svo er ekki gæti ég hneigst til að líta á karlalandsliðið í handknattleik sem "strákana þeirra" eða "strákana ykkar".
b. Ég þekki talsvert marga sem hafa ekki efni á að greiða 7000 krónur til að horfa á útsendingar frá leikjum karlaliðsins í handknattleik. Þarna er ekki síst um að ræða barnmargar fjölskyldur, þar sem þarf að forgangsraða í hvað fjármunir eru settir. Þar með missa börnin og unglingarnir af því að upplifa sig sem hluta af þjóð sem þau geta verið stolt af. Þetta eru allt Íslendingar, sem myndu fagna því að geta hrópað til stuðnings liðinu fyrir framan sjónvarpið sitt. Þar að auki gæti þetta auðveldað þeim að takast á við fjárhagsörðuleika sína, ekki síst á þessum tíma árs.
c. Ég veit um talsvert marga sem hafa í fjöldamörg á notið þess að fylgjast með íslenskum landsliðum takast á við erlenda andstæðinga. Þetta fólk er komið á efri ár, er ennþá með greiðu uppi á þaki, eða býr á dvalarheimilum þar sem skorið er niður allt sem til sparnaðar má verða, þar á meðal áskrift að einkastöðvum. Þetta fólk getur ekki einusinni straumað í gegnum tölvur sem það á ekki til.
Ég veit vel að þetta, sem einhverjir myndu kalla "tuð" breytir ekki miklu. Ég vona að það náist í gegn sem nú er unnið að, að einokun á útsendingu frá landsleikjum , verði bönnuð. Það væri framfaraskref.
Svo fer ég að leita að arabísku stöðinni fyrir kvöldið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli