08 maí, 2021

Tungnamenn vildu kaupa

Ég hef stundum fjallað um Laugarás í þessum pistlum og ekki að ósekju. Uppsveitahrepparnir eignuðust Laugarásjörðina þegar þar var sett niður læknissetur árið 1922 og kaupin voru formlega frágengin 1923. 
Það má auðvitað velta fyrir sér hversvegna það þurfti að kaupa heila jörð, um það bil 350 hektara, fyrir læknissetur, svona í ljósi þess að núna duga 3 hektarar vel fyrir alla þessa starfsemi, þó hún sé orðin margfalt umfangsmeiri en fyrir einni öld.  
Jú, vissulega var gert ráð fyrir því þá, að héraðslæknirinn framfleytti sér og sínum með búskap til hliðar við læknisstörfin, en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.
Laugarásjörðin var sem sagt keypt að þar byggt læknissetur.  Árið 1946 hætti héraðslæknirinn að vera bóndi í hjáverkum og síðan hefur hreint engin augljós ástæða verið fyrir því að Laugaráshérað eigi þessa jörð, enda Laugaráshérað ekki til lengur. Það hljóta samt að vera ástæður fyrir því að enn í dag eiga uppsveitahrepparnir jörðina.


Ástæða þess að ég fjalla aðeins um þetta hér og nú, er, að í morgun sýndi Facebook mér minningu frá þessum degi fyrir fjórum árum. Þar er um að ræða pistil sem ég skrifaði, í tilefni af því að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafði samþykkt þá skoðun að eðlilegt væri að hrepparnir seldu jörðina.

Seld eða leigð 

Síðan þá er ég orðinn nokkru vísari um þessi mál.

Oddvitanefndin, það er að segja, nefnd oddvitanna sex í uppsveitunum (Biskupstungnahrepps, Hrunamannahrepps, Gnúpverjahrepps, Skeiðahrepps, Grímsneshrepps og Laugardalshrepps) stýrði málum í Laugarási og hittist á fundum einu sinni til tvisvar á ári að jafnaði í því skyni. Þessir félagar fjölluðu þar um stór og smá mál og ég dreg ekki úr því, að án öflugrar aðkomu þessara sex hreppa að uppbyggingu heilsugæslustarfsemi í Laugarási, væri staðan í þeim málum líklega önnur nú.

En Laugarás stækkaði og starfsemi heilsugæslunnar bólgnaði stöðugt. Þar kom að oddvitanefndin kaus undirnefndir, eða stjórnir til að sinna daglegum rekstri heilsugæslunnar og hitaveitunnar í Laugarási. Oddvitarnir héldu áfram að hittast á árlegum fundum og fengu þar skýrslur um starfsemina. 
Þar kom, árið 1979 nánar tiltekið, að þeir komust að þeirri niðurstöðu og það væri sennilega engin ástæða  til þess að þeir væru að reka hitaveitu Laugarási og vildu að Tungnamenn tækju  hana að sér, en þá kom fram einkar áhugaverð tillaga frá Tungnamönnum: 

Gísli Einarsson [oddviti Biskupstungnahrepps] ræddi þessi mál, og vildi hann ræða þessi mál á breiðari grundvelli. Hann sagði að Biskupstungnahreppur vildi gjarnan að þessi mál yrðu tekin vel í gegn og hitaveita verði ekki tekin út úr sér, heldur tæki hreppurinn við öllum eignum héraðsins – nema læknamiðstöðina og þær lóðir sem það þyrfti á að halda – og hitaréttindum.
Gísli gerði að tillögu sinni, að Biskupstungnahreppur tæki jörðina á leigu eða keypti hana. (fundargerð 07 04 1979)


Með þessari tillögu fór allt á hreyfingu. Það var fjallað um málið í öllum hreppsnefndum og Tungnamenn beðnir að setja fram "einhverjar hugmyndir eða tilboð um leigu eða kaup á jörðinni, sem gætu orðið umræðugrundvöllur hjá hreppsnefndum hinna hreppanna." (fundargerð 20 07 1979).

Svo leið eitt ár og hreppsnefndirnar höfðu fjallað enn meira um þetta stóra mál:

Svör hreppsnefndanna voru öll jákvæð hvað varði leigu, en sumar töldu sölu varla koma til greina að svo komnu máli.    Fram kom á fundinum að Hagsmunafélag Laugaráss mælir með að Biskupstungnahreppur taki jörðina á leigu. (fundargerð 11 06 1980)

 Í fundargerð hreppsnefndar Biskupstungnahrepps í framhaldinu kom fram að Skeiðahreppur, einn hreppanna hafi ekki viljað selja jörðina. Ég get ímyndað mér að meginástæðan fyrir afstöðu Skeiðahrepps hafi verið, að oddviti Skeiðamanna, Jón  Eiríksson í Vorsabæ, var nánast allt í öllu í Laugarási í áratugi og hafði sterkar taugar til jarðarinnar. 

Hér er svo einnig samþykkt Hagsmunafélags Laugaráss, sem vísað er til:

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 2. júní, 1980, skorar á hreppsnefnd Biskupstungna að stefna að því af fullum einhug, að taka jörðina Laugarás á leigu með réttindum og skyldum, af læknishéraðinu.


Ekki treysti ég mér til að segja til um hversvegna Hagsmunafélagið kaus að ganga ekki alla leið og skora á Birskupstungnahrepp að kaupa jörðina. Mögulega taldi fólk þann möguleika ekki vera uppi á borðinu og valdi því þann sem meiri líkur voru á að gengi í gegn. Hugsanlega leit það málið þannig að betra væri að hafa hina hreppana í bakhöndinni, ef  Biskupstungnahreppur sinnti Laugarási ekki sem skyldi.  Hvað veit ég svo sem? 

Það varð svo úr, að Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, og samningur um það var undirritaður þann 6. maí 1981. 

Hagsmunir

Voru það með einhverjum hætti hagsmunir hreppanna, sem réðu því að þeir ákváðu að selja Laugarásjörðina ekki?

Ég leyfi mér hér að setja fram tvær tillögur að ástæðum fyrir því að hrepparnir töldu sig hafa hag af því að halda jörðinni í sinni eigu:


1. Hrepparnir sáu fyrir sér, að þeir myndu mögulega í framtíðinni sameinast og sáu í hendi sér að við slíka sameiningu yrði Laugarás sá staður þar sem stjórnsýsla í nýju sveitarfélagi yrði, auk annarra þjónustustofnana sveitarfélagsins og ýmiss konar atvinnustarfsemi. Þeir litu svo á að það myndi auðvelda sameiningu hreppanna, ef þeir ættu allir saman stað sem væri í hjarta uppsveitanna.

2. Hrepparnir voru á þessum tíma að byggja upp eigin þéttbýlisstaði þar sem þeir komu fyrir stjórnsýslu og opinberri þjónustu. Þeir voru áfram um að byggja upp hver hjá sér og óttuðust að ef þeir seldu Laugarásjörðina myndu þeir missa stjórn á því hvernig þróun byggðarinnar þar yrði. Þeim stóð, sem sagt, ógn af Laugarási og mögulegri uppbyggingu þar.

------------------------------

Hvor þessara tillagna minn aer nær lagi, hef ég ekki hugmynd um, þó sannarlega gruni mig hitt og þetta.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...