Skúli Magnússon, Ingibjörg Björnsdóttir, Guðný Pálsdóttir og Páll M Skúlason. Myntekin um miðjan 6. áratuginn. Eina skiptið sem ég hitti Ingibjörgu ömmu. |
Þarna er um að ræða magnaða blöndu, þar sem við sögu kemur fólk sem þurfti að berjast fyrir lífi sínu og sinna og einmitt þess vegna get ég verið stoltur að þeim sögvef sem spunninn hefur verið fram á þennan dag, og sem ég er hluti af. Ég vildi gjarnan þekkja þessa sögu miklu betur og hver veit nema ég komist einhverntíma í tæri við frásagnir af lífi þessa fólks, en það er líklega ekki af því tagi sem ævisögur hafa verið skrifaðar um.
Annar langafinn í föðurætt: Björn Sigurðsson
Guðrún Magnúsdóttir (1842-1906) sem varð eiginkona Jónasar Valgerðasonar og langalangamma mín, var tökubarn á Nesi í Skorrastaðasókn og ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaðan hún kom þangað utan að hún fæddist í Hólmasókn
Hér var tengdadóttir Páls og Guðfinnu, Ragnhildur komin í Sæból með syni sína tvo. Ekki fann ég í fljótheitum, hvað varð um Pál og Guðfinnu, en hann lést 1914 og Guðfinna 1921.
Ég reyni hér að feta mig í gegnum þennan vef, þar sem forfeður mína í föðurætt er að finna og nota mér til aðstoðar kirkjubækur og svo mögulega frjálslegar vangaveltur.
Aðeins um bakgrunn ömmu minnar, Sigríðar Ingibjargar Björnsdóttur
(03. 09. 1893-17.11.1968)
(03. 09. 1893-17.11.1968)
Árið 1824 fæddist í Sandvíkurseli í Sandvík Skorradalssókn (sunnan Norðfjarðarflóa), Sigurður Þórarinsson sem lést í snjóflóði í Seyðisfirði 1885. Hann kvæntist Ingibjörgu Geirmundsdóttur, sem fædd var 1837 í Desjamýrarsókn (Borgarfjörður eystri). Hún lést einnig í áðurnefndu snjóflóði.
Ingibjörg og Sigurður eignuðust heilmikið af börnum, 16 ef marka má heimildir. Flest þessara dóu ung. Einn sonur þeirra var Björn Sigurðsson, fæddur 1864. Hann varð síðar, óafvitandi, þess heiðurs aðnjótandi, að verða langafi minn.
Önnur langamman í föðurætt: Sæbjörg Jónasdóttir
Árið 1837 fæddist á Selstöðum í Dvergasteinssókn (í Seyðisfirði?), Jónas Valgerðarson Hansson og hann lifði til ársins 1906. Móðir hans var Valgerður Jónsdóttir (1805-1874). Árið 1837 var hún vinnukona í Skálanesi (sem mér sýnist að hafi verið við utanverðan Seyðifjörð sunnan megin. Árið eftir (1838) virðist hún vera orðin vinnukona á Selstöðum (í norðanverðum Seyðisfirði ?). Þar er hún ekki skráð með soninn með sér.
Íslendingabók: Í prestþjónustubók segir að lýstur faðir hafi verið Jónas Magnússon vinnumaður á Hofi í Mjóafirði en hann þverneitaði og virðist jafnvel hafa svarið barnið af sér ef rétt er ráðið í máð letur.
Ég held ég gangi ekki lengra í að finna út úr faðerni þessa langalangafa míns. Hann var sem sagt kenndur við móður sína og einhvern Hans, sem ég held að hafa hreint ekki verið neinn Hans, heldur var hann sonur HANS Jónasar.. Látum kyrrt liggja.
Valgerður giftist 1840 Magnúsi Magnússyni (1808-1866) og eignaðist með honum 7 börn og þar á meðal eitt, sem talsvert kemur við þessa sögu. Hér var um að ræða stúlku, sem hlaut nafnið Ljósbjörg Magnúsdóttir. sem síðar varð þess heiðurs aðnjótandi, að verða hin langamma mín.
Til að taka þetta saman, þá voru langalangafi minn Jónas og langamma mín Ljósbjörg, hálfsystkin.
Valgerður fór með syni sína tvo Jón Pétursson (6) og Jónas (1) 1938 frá Selstöðum að Reykjum (í Mjóafirði?).
Björn og Sæbjörg ná saman
1886Jónas Valgerðarson Hansson (48) og kona hans, Guðrún Magnúsdóttir fluttu frá Norðfirði í Vestdalseyri í Seyðisfirði, með þrjú barna sinna, 1-9 ára.
1887
Dóttir þeirra Sæbjörg var þá 16 ára, en kom ekki í Seyðisfjörð fyrr en ári síðar og gerðist vinnukona hjá þeim Einari Halldórssyni og Ragnhildi Gísladóttur.
1888 - 1891
Árið þar á eftir var hún svo vinnukona í Stakkahlíð í Loðmundarfirði hjá Baldvin Jóhannessyni og Ingibjörgu Stefánsdóttur. Þar var hún til 1891.
Björn (26) var vinnumaður í Stakkahlíð 1889, en 1890 fór hann í Seyðisfjörð og gerðist vinnumaður hjá Siggeir Sigurðssyni og Sigríði Helgadóttur. Hann var síðan vinnumaður á Hjálmárströnd hjá Eileifi Magnússyni og Mörju Metúsalemsdóttur árið 1891. Það ár voru Jónas og Guðrún í Firði í Seyðisfirði með yngri börn sín, tvö.
1892
Eitthvað virðist hafa kviknað hjá þeim Sæbjörgu og Birni þegar þau voru samtíða í Stakkahlíð, því á þessu ári, þann 3. júlí fæddist þeim dóttirin Guðrún Björg. Þau voru þá skráð sem vinnuhjú í Firði og hún sögð kona hans.
Sigríður Ingibjörg elst upp
Hér var stórfjölskyldan í Firði og Sæbjörg og Björn eignuðust dótturina Sigríði Ingibjörgu þann 3. september. Þá var Sæbjörg 23 ára en Björn 30.
1894
Óbreytt ástand í Firði.
1895
Dóttirin Guðrún Björg lést á þessu ári. Bróðir Sæbjargar, Halldór (14) var skráður sem niðursetningur á heimili þeirra í Firði og foreldrar hennar, Jónas (58) og Guðrún (53) sömuleiðis þar skráð.
1896
Hér flutti fjölskyldan á Búðareyri í Seyðisfirði og þann 31. janúar fæddist þeim sonurinn Haraldur.
1897
Óbreytt ástand á Búðareyri.
1898 - 1903
Sigríður Ingibjörg, þá 6 ára, hvarf úr foreldrahúsum og var skráð í prestþjónustubók Dvergasteinssóknar sem burtvikin þetta ár og að hún hafi farið í Borgarfjörð. Hún á að hafa farið til ömmubróður síns, Páls Geirmundssonar og konu hans Guðfinnu Guðmundsdóttur, sem bjuggu í Litluvík í Desjamýrarsókn. Ekki fann ég hana í Borgarfirði fyrr en í lok árs 1902, 3-4 árum eftir að hún er sögð hafa farið frá Seyðisfirði. Þetta ár var hún skráð sem tökubarn í Litluvík. Þar voru þá áðurnefndur ömmubróðir hennar Páll (53) kona hans Guðfinna (56) og tvo uppkomin börn þeirra, Ingibjörg (24) og Sigbjörn (18).
Ég leyfi mér að skýra þetta misræmi í kirkjubókum með ástandinu á heimilinu í Seyðisfirði sem var átakamikið á þessum árum. Þó ég viti ekki hvað olli dauða Björns föður hennar árið 1900, þá reikna ég með að hann hafi haft aðdraganda og að foreldrarnir hafi viljað hafa dóttur sína hjá sér. Sigbjörn Sigurðsson, bróðir Björns, var kominn á heimilið 1899, þá 41s árs og það má gera ráð fyrir að það hafi tengst veikindum Björns, sem varð aðeins 36 ára þegar hann lést þann 3. júní.
Ég, sem sagt, geri ráð fyrir, að Ingibjörg hafi verið á heimilinu meira og minna til 1903, en að prestunum í Dvergasteinssókn og Desjamýrarsókn hafi bara láðast að skrá hana á öðrum hvorum staðnum. Viti eitthvert ættmenna minna meira um þetta, þætti mér vænt um að vita af því.
Seyðisfjörður: Eftir lát Björns flutti fjölskyldan í Álfhól í Seyðisfirði. Þarna voru árið 1902: Sæbjörg (30), Haraldur sonur hennar (6), Halldór Jónasson (21), bróðir hennar, foreldrar hennar, Jónas (64) og Guðrún (59) og loks bróðir Björns, Sigbjörn (44). Þau Jónas og Guðrún létust bæði árið 1903 og Halldór hvarf á braut. Það var fámennt á Álfhóli næstu ár.
1904
Á þessu ári fluttu þau Páll og Guðfinna frá Litluvík í Kóreksstaðagerði, í Hjaltastaðasókn, en þar hafði dóttir þeirra, Ingibjörg, tekið við stöðu ráðskonu tveim árum fyrr. Ingibjörg, sem þá var 11 ára, flutti með þeim þangað.
1905
Hjónin voru aftur komin í Litluvík, Þar hafði sonur hjónanna, Guðmundur látist, rétt um þrítugt, frá þrem ungum börnum og ekkjan fór fyrir búinu.
Ingibjörg, 12 ára fósturbarn var með í för.
1906
Heimilið á Litluvík var ekki nefnt í sóknarmannatali á þessu ári og þau Páll og Guðfinna höfðu tekið sér bólfestu á Efri Hóli í sömu sókn (ekki veit ég hvar sá bær var). Þar voru þau með tvö tökubörn, Ingibjörgu, sem var orðin 13 ára og Pál Ingvar Guðmundsson, 8 ára, en hann var sonarsonur þeirra.
1907 - 1908
1907 Enn voru hjónin á ferðinni og á þessu ári voru þau skráð í Brekku í sömu sókn og enn með tökubörnin sín tvö, Ingibjörgu (14) og Pál Ingvar (9). Mér sýnist að Brekka hafi staðið við Húsavík.
Staðan var óbreytt hjá Ingibjörgu árið 1908, Haraldur bróðir hennar, lést árið 1908, 12 ára að aldri.
1909
Þriðja árið á Brekku bættust tveir einstaklingar við á heimilinu, sonarsonur hjónanna, Sigbjörn Jakob Guðmundsson (6) og móðir hans, Ragnhildur Hjörleifsdóttir (37) húskona, en hún var ekkja Guðmundar, sonar þeirra. Þarna var Ingibjörg (15) sem sagt áfram skráð, en það sem vekur athygli er, að á árinu var hún talin sem "innkomin" á Seyðisfjörð og til heimilis á Álfhóli hjá móður sinni og Sigbirni föðurbróður sínum.
1910
Ingibjörg á saumanámskeið 1910. |
Hér var tengdadóttir Páls og Guðfinnu, Ragnhildur komin í Sæból með syni sína tvo. Ekki fann ég í fljótheitum, hvað varð um Pál og Guðfinnu, en hann lést 1914 og Guðfinna 1921.
Ingibjörg (18) var ekki skráð í Álfhóli á þessu ári, en hefur þó varla verið langt undan. Á Álfhóli þetta ár voru þau Sæbjörg (39) og Sigbjörn (53) húsmaður, ásamt Þuríði Eiríksdóttur, húskonu (43).
1911
Ingibjörg var aftur mætt til leiks í Álfhóli á þessu ári.
1912
Ingibjörg (19) gerðist vinnukona í Vallaneshjáleigu og þangað kom einnig Magnús Jónsson frá Freyshólum.
------------------------------------------
Ég treysti því að þau ykkar sem vita meira um þessa sögu, ekki síst um staðhætti þarna fyrir austan, láti mig vita. Ég veitt fátt nema það sem þessar skruddur prestanna segja.
Ég mun svo halda áfram ..... næst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli