30 maí, 2022

Fyrsta garðyrkjustöðin í Laugarási og heimsókn 82 árum síðar.

Í Hveratúni með Lemmingunum: f.v Jette, Lissie og Allan.
Í lok janúar, árið 1938 kom Gullfoss til Reykjavíkur og meðal farþega var 25 ára gamall, danskur garðyrkjumaður. Heima í Danmörku beið 17 ára unnustan þess að ná 18 ára aldri, svo hún gæti fylgt honum. Það liggur ekkert fyrir um hversvegna þessi ungi maður ákvað að fara til Íslands einn síns liðs, en helst virðist eins og hann hafi komist í kynni við Ólaf Gunnlaugsson, garðyrkjubónda á Laugabóli í Mosfellssveit, þegar Ólafur sótti stóra garðyrkjusýningu sem var haldin í Kaupmannahöfn haustið 1937.  Það sem helst styður þetta er, að í maí 1938 var ungi maðurinn talinn sem starfsmaður á garðyrkjustöð Ólafs að Laugabóli. 
Einhverntíma, árið 1939, þó ekki síðar en í lok júlí, kom unnustan síðan til Íslands, þá á 19da ári. Fljótlega eftir að hún var komin fluttu þau út á land, þar sem pilturinn hafði fengið starf sem garðyrkjumaður á nýstofnaðri garðyrkjustöð í Reykjalundi í Grímsnesi. Þann 30 desember, gengu þau í hjónaband í Mosfellskirkju og 4 mánuðum síðar, eða í apríl 1940 fæddist fyrsta barn þeirra, dóttir. 
Það átti ekki fyrir þeim að liggja að una lengi í vinnumennsku og þau ákváðu að byggja upp eigin garðyrkjustöð, en einmitt um þetta leyti var oddvitanefndin sem stýrði Laugarásjörðinni farin að huga að því að kynna möguleika á að leigja jarðnæði og hita í Laugarási. Það varð úr að þessi nýbökuðu dönsku hjón ákváðu að freista gæfunnar. Líkur benda til að þau hafi komið í Laugarás vorið 1940, en þar voru þau skráð í sóknarmannatali í árslok, ásamt dótturinni, sem var sögð óskírð.
Garðyrkjubóndinn var Børge Johannes Magnus Lemming, fæddur 30. ágúst, 1913 í Árósum og kona hans var Ketty Hilma Lemming fædd 29. október, 1920 í Árósum. Børge var því 26 ára og Ketty 19 ára, þegar þau komu í Laugarás.  


Það er saga að segja frá því hvernig ég fór síðan að því að finna afkomendur þessara fyrstu garðyrkjubænda í Laugarási, en frá því greini ég á vefnum Laugaras.is . Mér finnst erfitt að átta mig á því, hvernig þau fóru að því með nýfætt barn, að lifa af fyrsta veturinn í Laugarási, en þau hljóta að hafa haft  einhverja aðstoð, til dæmis má reikna með því, að þau hafi fengið inni í Reykjalundi eitthvað áfram og ekki finnst mér ólíklegt, að læknishjónin í Laugarási, Ólafur og Sigurlaug, hafi verið þeim innan handar. Um þetta er þó engar upplýsingar að hafa.
Lóðin sem þau fengu í Laugarási, er sú sama sem Hveratún stendur á nú. Þau byggðu sér gróðurhús, sem var um 100 ferm. og bjuggu fyrstu árin í þeim enda þess, sem snéri að hveralæknum. Í sóknarmannatali frá því í árslok 1943 segir, að fjölskyldan búi í gróðurhúsi. 
Í Laugarási eignuðust  Ketty og Børge fjögur börn og árið 1944 munu þau hafa flutt í húsið sem þau byggðu og sem síðan hýsti Hveratúnsfjölskylduna til ársins 1961. Það má ljóst vera að líf þessarar hjóna og barna þeirra í Laugarási var enginn dans á rósum, end fór svo, árið 1945, að þessi tilraun þeirra til að koma undir sig fótunum á Íslandi gekk ekki upp og þau hurfu á braut og sigldu til Danmerkur með börnin fimm, árið 1946. Börnin voru þau Kirsten Agnea Ketty (21. apríl, 1940), Elisabet Ketty Lemming (27. júní, 1941), Søren Peter Børge Lemming (3. mars 1943), Hans Peder Børge Lemming (5. mars, 1944) og Inge Birte Lemming (24. mars, 1945).

Það var árið 2017 sem ég fann ekkju S
ørens, Lissie og son hennar Allan. Lissie sagði mér sð hana hafi lengi langað að koma til Íslands til að skoða söguslóðir tengdaforeldranna og ég hvatti hana auðvitað til þess og bauðst til að vera henni innan handar. Eftir það heyrði ég ekki meira frá þessu fólki fyrr en um miðjan mars, að ég fékk skilaboð frá Allan, þar sem hann greindi frá því að þau kæmu til landsins í lok maí og kvaðst vona að þau gætu átt aðstoð mína vísa, sem var auðvitað sjálfsagt.
Í Hveratúni: Sonarsonur bóndans 1942
og bóndinn árið 2022. Með þeim er 
dóttursonur Hveratúnsbóndans
Kolbeinn Búri.

Svo skipulögðum við þetta allt saman og síðastliðinn laugardag hittumst við og lögðum leið okkar í Laugarás, Skálholt, Mosfell og Reykjalund. Danirnir sem þarna voru auk Lissie og Allans, eiginkona Allans, Nicola og dóttir Lissie, Jette og eiginmaður hennar,
Søren.
Þetta var hinn ánægjulegasti dagur, en með í för voru einnig þau Sigrún systir mín og Ari, sem bæði eru vel heima í danskri tungu, en þau bjuggu í nokkur ár í Árósum. Húsbændur í Hveratúni, þau Magnús og Sigurlaug tóku svo á móti hópnum og afkomendurnir fengu tilfinningu fyrir því hvernig aðstæður voru á staðnum, árið 1940. Sören Lemming var skírður í Skálholti og því var það eðlilegur viðkomustaður og sömuleiðis Mosfellskirkja, þar sem Ketty og Børge gengu í hjónaband 30. desember 1939.

Í Mosfellskirkju, f.v. Allan, Nicola, Jette, Lissie og Sören.
Kirkjan mun vera nánast óbreytt frá því Börge og Ketty giftust árið 1939.Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...